Gærdagurinn var erilsamur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en frá klukkan 17 í gær til klukkan fimm í nótt voru 93 mál bókuð og sex vistaðir í fangageymslu.
Var lögreglan meðal annars ítrekað kölluð út vegna heimasamkvæma og barst henni 21 tilkynning vegna samkvæmishávaða í gærkvöldi og í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Tvær líkamsárásir komu á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt, en í öðru tilvikinu handleggsbrotnaði þolandi. Þá hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum víða um borgina vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða vegna hraðaksturs. Nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna þjófnaðar. Lögregla hafði líka afskipti af nágrannaerjum í Breiðholti. Loks var maður handtekinn grunaður um heimilisofbeldi.