Þrír sjö ára gamlir drengið héldu með talstöðvar í Öskjuhlíð. Þegar þeir skiluðu sér ekki heim fóru foreldrar og ættingjar að leita, um fjórum klukkustundum eftir að drengirnir sáust síðast, og auglýstu einnig eftir drengjunum á Facebook. Lögregla var kölluð til og hálftíma síðar fundust drengirnir við Klambratún að leik og amaði ekkert að þeim.
Lögreglan hélt áfram veitingastaðaeftirliti í gær til að tryggja að reglum um sóttvarnir sé þar framfylgt. Átta staðir í Kópavogi og Breiðholti voru heimsóttir og samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru þeir flestir með allt sitt á hreinu. Aðeins var gerð ein athugasemd um að handspritt vantaði í sal en úr því var bætt með hraði.
Lögreglan heimsótti einnig 13 staði í miðborginni og þar lokaði hún einum veitingastað vegna þess að þar voru aðstæður með öllu óviðunandi með tilliti til sóttvarna að sögn lögreglu. Þar voru alltof margir gestir og var þeim vísað út af staðnum. Tveggja metra reglunni var heldur ekki fylgt eftir á staðnum og var eigandi tekinn til skýrslutöku.