Lögreglan á Vestfjörðum segist ekki vera með mál togarans Júlíusar Geirmundssonar á sínu borði. Fréttablaðið greinir frá því. Mannlíf greindi frá því í gær að forsvarsmenn Gunnvarar hafi ítrekað verið hvattir til að halda með skipið í land í COVID-sýnatöku. Þau tilmæli bárust frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum, Súsönnu Björgu Ástvaldsdóttur, meðal annars á þriðja degi túrsins. Útgerðin lét það sem vind um eyru þjóta.
Sjá einnig: Útgerð frystitogarans hlýddi ekki lækni: Veikum sjómönnum haldið úti á sjó
Finnbogi Sveinsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, hefur kallað eftir því að yfirvöld rannsaki málið. „Með háttsemi sinni stefndi útgerðin áhöfn og öryggi skipsins í hættu og fór þannig á svig við meginreglur siglingalaga sem ætlað er að tryggja öryggi áhafnar og skips. Hlýtur slíkt að koma til skoðunar hjá eftirlitsaðilum eða lögreglu,“ segir í yfirlýsingu félagsins vegna málsins.
Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir við Fréttablaðið að málið hafi ekki komið til sín. Hann segir menn hafa velt því fyrir sér að fara í sjálfstæða rannsókn en virðast niðurstaðan hafa verið að sleppa því. „Þetta er spurning um það hvenær skip á að fara í land vegna veikinda um borð og spurning hvort þarna hafi sjómannalög verið brotin,“ er haft eftir honum.
Hann segir að málið yrði rannsakað ef það yrði kært. „Það er með þetta eins og hvað annað, við könnum hvort að brot hafi verið framið og hvort það séu þá refsiheimildir fyrir því. En ég er ekki að segja að við ætlum að taka þetta mál sérstaklega fyrir frekar en neitt annað.“