Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Töluvert var um það að ökumenn væru stöðvaðir af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengið og/eða fíkniefna. Þá var sótölvaður einstaklingur handtekinn í hverfi 104 en hann var þar til vandræða og áreitti fólk.
Tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Kópavoginum en tilkynnanda fannst háttalag einstaklinga sem komu á bifreið einkennilegt, en eftir að hafa lagt bifreið sinni gengu þeir á bifreiðar og reyndu að komast inn í þær. Lögreglan hafði afskipti af einstaklingunum skömmu síðar og reyndist bifreiðin sem þeir komu á vera stolin. Einstaklingarnir voru því handteknir og eru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þá gáfu lögreglumenn í miðbænum ökumanni bifreiðar merki um að stöðva akstur en ökumaðurinn gerði það ekki. Hófst þá stutt eftirför en eftir að bifreiðin stöðvaði stukku ökumaður og farþegi bílsins út úr bílnum og hlupu í burtu. Voru þeir báðir handteknir eftir stutt hlaup og þeir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.