Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú andlát sex sjúklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hún telur að gæti hafa verið ótímabær eða borið að með saknæmum hætti. Þá er meðferð fimm annarra sjúklinga aukreitis til rannsóknar en rökstuddur grunur er um að þeir hafi verið skráðir í lífslokameðferð án tilefnsi og þar með lífi þeirra stefnt í hættu. Rúv fjallaði um málið í morgun.
Héraðsdómur Reykjaness féllst á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum að að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að svara fjórum spurningum í tengslum við andlát eins sjúklings. Matsmennirnir eiga að svara hver dánarorsök sjúklingsins var, hvort forsendur til að hefja lífslokameðferð hafi verið til staðar og verklagi við framkvæmd hennar fylgt, hvort lyfjagjöf til handa sjúklinginum hafi verið eðlileg og hvort rétt hafi verið staðið að sjúkdómsgreiningum sjúklingsins.
Alls eru þá ellefu mál til rannsóknar hjá lögreglunni er tengjast störfum Dr. Skúla Tómasar Gunnlaugssonar. Sex sjúklingar létust en svo virðist sem fimm öðrum hafi verið bjargað frá sömu örlögum. Heilbrigðisstarfsmaður HSS er einnig með réttarstöðu sakbornings.
Mannlíf hefur greint ítarlega frá máli fjölskyldu Dönu Jóhannsdóttur sem Dr. Skúli lét setja í lífslokameðferð án þess að Dana hafi verið dauðvona. Hún lagðist inn á HSS í hvíldarinnlögn. Hún lést 11 vikum eftir að hún lagðist þar inn.
Eins og áður hefur komið fram í frétt Mannlífs, veitti Alma Möller landlæknir, Dr. Skúla áframhaldandi starfsleyfi til næstu 12 mánuða en hann vinnur nú á Landspítalanum. Þetta gerði landlæknir þrátt fyrir að hafa gefið lækninum algjöra falleinkunn er hún gaf álit sitt varðandi andlát Dönu Jóhannsdóttur. Athygli vekur að ekki eru til neinar verklagsreglur þegar kemur að endurveitingu starfsleyfa lækna.
Sjá frétt: Álit landlæknis á máli Skúla læknis: „Ómeðhöndlaðar sýkingar kunni að hafa verið aðal dánarorsök“
Sjá frétt: Embætti Landlæknis – Engar verklagsreglur til um endurveitingu starfsleyfa
Í samtali við Mannlíf sagði lögreglufulltrúi á Suðurnesjum að rannsókn á málinu miði mjög vel. „Já,já henni miðar mjög vel og það hafa nýlega verið skipaðir dómskvaðnir matsmenn sem munu fara yfir þau gögn sem lögð eru til grundvallar og vinna þeirra er bara að hefjast. Boltinn er núna hjá matsmönnunum.“