Lögreglumaður hefur verið ákærður fyrir brot í starfi.
RÚV segir frá því að héraðssaksóknari haif ákært lögreglumann á þrítugsaldri fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi í maí síðastliðnum.
Lögreglumaðurinn er sagður hafa farið offari er hann handtók jafnaldra sinn í miðbæ Reykjavíkur í maí. Maðurinn skilaði lokaverkefni sínu í lögreglu- og löggæslufræði í desember í fyrra.
Segir saksóknarinn lögreglumanninn hafa þrásinnis beitt úðavopni, sparkað í vinstri fótlegg mannsins, sem veitti engan móttróa og síðan slegið hann fjórum sinnum með kylfu, þar sem hann lá á fjórum fótum.
Krefst brotaþolinn þess að lögreglumaðurinn verði dæmdur til að greiða sér tvær milljónir í miskabætur. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur málið til meðferðar.