Í hverri viku útnefnir Mannlíf þá einstaklinga sem hafa blómstrað í vikunni og þá sem hafa ekki átt jafn auðvelt uppdráttar. Áslaug Arna, nýr dómsmálaráðherra, lendir í fyrri flokknum á meðan Ragnar Önundarson lendir í þeim seinni.
Góð vika – Vinningshafi í Lottó
Goðsögnin Hermann Hreiðarsson hafði ástæðu til að fagna í vikunni þegar hann var ráðinn aðstoðarþjálfari Southend United og sömuleiðis blaðamaðurinn Ari Brynjólfsson sem fékk loks afhentar langþráðar upplýsingar um starfslokasamning Seðlabanka Íslands við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, eftir að Ari vann dómsmál gegn bankanum.
Lífið lék líka við unga konu á Vesturlandi sem fékk gleðilegt símtal síðasta mánudag þegar henni var tilkynnt að hún hefði unnið 124 milljónir á lottómiða í EuroJackpot. „Ég er nú bara alveg steinhissa,“ er haft eftir konunni á vef Íslenskrar getspár. Þar segir að konan og eiginmaður hennar hafi verið með lottómiðann í áskrift og að hjónin ætli að þiggja fjármálaráðgjöf sem vinningshöfum er vinna milljónavinninga stendur til boða. Ekki amalegt það.
Slæm vika – Sigurður Ingi Jóhannesson
Mikil ásókn er í þetta dálkapláss þessa vikuna. Aalt Bistro í Norræna húsinu var skellt í lás og eigendur Gráa kattarins segja staðinn rétt lafa vegna tafa á framkvæmdum við Hverfisgötu. Spillingarmál voru líka fyrirferðarmikil. Í ljós kom að Efling hafði borgað fyrirtæki í eigu Kristjönu Valgeirsdóttur tugi milljóna á meðan hún var fjármálastjóri félagsins og greint var frá því að Seðlabankinn hefði greitt Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, rúmar 18 milljónir við starfslok hennar.
Eflaust áttu þá fáir jafnslæma daga og Sigurður Ingi Jóhannesson sem varð á einum degi andlit stjórnmálaspillingar á Íslandi vegna myndarinnar The Laundromat. Þar er fjallað um Panamaskjölin og Sigurður sýndur í stað Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Segir ráðherrann sárt að vera bendlaður við málið.