Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala greindi frá því á upplýsingafundinum sem fram fór í dag að LSH barst óvenjustór gjöf í morgun með fraktflugvél að utan eða sautján nýjar öndunarvélar, sem eru þýskar.
Gefendur eru 14 íslensk fyrirtæki sem ekki vilja láta nafns síns getið. Auk þess var Landspítalanum gefinn ýmiss varnarbúnaður og lækningarvörur.
Aðspurður sagði Pál gjöfina vera að verðmæti um 100 milljónir króna.
„Það er hreint ótrúlegt hvað landsspítali nýtur mikillar velvildar allra landsmanna og það sést bæði á fjölmörgum gjöfum og hlýjum kveðjum og gjafirnar eru bæði stórar og smáar. Nú í morgun barst óvenju stór gjöf með fraktflugvél að utan þegar Landspítalinn fékk sautján nýjar og mjög fullkomnar gjörgæslu öndunarvélar að gjöf,“ sagði Páll.
„Það eru fjórtán fyrirtæki í íslensku atvinnulífi sem hafa tekið höndum saman um að fjármagna og útvega þessi tæki. Með þessu vilji fyrirtækin leggja sitt af mörkum til að styðja við íslenskt heilbrigðiskerfi á erfiðum tímum en fyrirtækin sem standa gjöfinni kjósa að láta nafn síns ekki getið.“
Til viðbótar við öndunarvélarnar gefa fyrirtækin Landspítala sérstakan hlífðarfatnað og ýmsar lækningavörur. Um er að ræða 6.500 N95 sóttvarnargrímur, 1.000 varnargalla, 2.500 varnargleraugu og 400.000 veirupinna af ýmsum gerðum til sýnatöku. Undanfarið hefur gengið erfiðlega að panta nægilegt magn til landsins vegna umframeftirspurnar eftir pinnum á heimsvísu. Þetta mikla magn pinna er talið duga heilbrigðiskerfinu út árið og gott betur.