Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Luca Moi Forte:„Ósammála því að transfólk þurfi „allar aðgerðir“ eða hormón til að vera það sjálft“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég vinn í Félagsmiðstöðinni 100og 1 og Hinsegin félagsmiðstöð og ætla að læra tómstunda- og félagsmálafræði. Starf mitt er það skemmtilegasta sem ég veit um og að vinna með krökkum hefur verið gefandi lífsreynsla. Við spilum og höldum viðburði og stundum tölum við um alvarleg málefni og finnum út leiðir til að hjálpa þeim. Fyrir utan þetta hef ég gaman af tölvuleikjum, förðun og íþróttum. Ég elska allt sem er bleikt og sætt og ég er að læra að njóta þess sem karlmaður,“ segir Luca Moi Forte sem fæddist í líkama stúlku í Lissabon í Portúgal og flutti til Íslands þegar hann var 13 ára.

„Þegar ég var krakki vissi ég ekki einu sinni að það væri valkostur að vera trans. Þegar ég var barn ímyndaði ég mig sem farsæla konu í viðskiptalífinu og jafnvel þegar ég var fimm ára hugsaði ég með mér hvort það væri ekki fyndið ef ég yrði strákur þegar ég yrði stór. Ég hafði alltaf gaman af „strákahlutum“ eins og bílum, fótbolta og tölvuleikjum og ég skildi ekki af hverju ég ætti ekki að leika við strákana í skólanum. Þessi kynjahlutverk voru mjög ríkjandi í portúgölsku samfélagi þegar ég var barn en mamma leyfði mér alltaf að gera tilraunir með hvaða leikföng og fatnað sem ég vildi.

Þegar ég áttaði mig á því að ég væri trans þá breyttist sýn mín á lífið.

Ég hélt að gangur lífsins væri að standa sig vel í skólanum, fá vinnu og eignast maka; giftast og eignast börn. Þegar ég áttaði mig á því að ég væri trans þá breyttist sýn mín á lífið.“

Luca Moi Forte

Stutt pils og mikið málaður

Luca kom út sem transmaður þegar hann var 19 ára en segist hafa gert sér grein fyrir því að hann væri trans miklu fyrr. „Þegar ég var í leikskóla var alltaf eitthvað sem passaði ekki og mér leið eins og ég væri að leika hlutverk stelpu. Ég man að ég var í þriðja bekk þegar ég spurði mömmu hvort ég mætti verða strákur og þegar hún spurði mig áhyggjufull af hverju ég segði þetta þá sagði ég: „Gera það ekki allar stelpur?“ Ég hugsaði aldrei mikið um kyn eða að passa inn þegar ég var krakki. Ég var alltaf í stuttbuxum og hjólabrettaskyrtum.“

- Auglýsing -

Luca Moi Forte

13 ára flutti Luca til Íslands eins og þegar hefur komið fram. Hann segir að hann hafi reynt að haga sér og klæða sig eins og dæmigerð íslensk stelpa en segir að hann hafi haft á tilfinningunni að allir hafi vitað að eitthvað væri að.

„Það var mjög erfitt að vera innflytjandi og reyna að uppgötva sjálfan sig. Ég öfunda krakka sem þekkja sjálfa sig á þessum aldri. Ég passaði ekki á meðal stelpnanna, í hópi erlendu strákanna í skólanum né í íslensku þjóðfélagi. Ég kom fyrst út sem lesbía og síðan tvíkynhneigð og var ein af tveimur eða þremur krökkum í skólnum. Ég var lagður í einelti í kjölfarið en ég var mest heima og einangraður.

Ég fór í skólann í stuttum pilsum og mikið málaður og með sítt, bleikt hár.

- Auglýsing -

Ég hélt á menntaskólaárunum að ég hefði svarið við vandamálunum tengdum sjálfsmynd minni. Ég litaði hárið á mér í öllum regnbogans litum og gekk í skrautlegum fötum. Þetta var góður tími og ég eignaðist loksins góða vini en ég sá ekki stelpu þegar ég leit í spegil. Í heilt ár reyndi ég mikið að líta á sjálfa mig sem stelpu. Ég fór í skólann í stuttum pilsum og mikið málaður og með sítt, bleikt hár. Ég henti buxunum mínum af því að í huga mínum gengu konur bara í kjólum eða pilsum. Samt fannst mér ég vera strákur með hárkollu.“

Luca var 17 ára þegar hann lærði um trans. „Vinur minn var transstrákur og hann kynnti mig fyrir Samtökunum 78 og ég átti mörg áhugaverð samtöl við starfsfólkið þar og annað transfólk og þetta skipti máli í að finna sjálfan mig.“

Ég þurfti ekki að leika einhvern annan.

Það var svo árið 2019 eftir erfið sambandsslit sem Luca ákvað eftir að hafa reynt að vera eins og kona nógu lengi að reyna að verða karlmaður til að sjá hvernig það væri. „Ég klippti hárið á mér stutt og fór í buxur sem ég hafði átt í fataskápnum og þetta var eitthvað svo rétt. Þetta var léttir. Ég þurfti ekki að leika einhvern annan.“

Luca segist ekki hafa sagt vinum sínum frá þessu en hann gerði það ekki fyrr en eftir útskrift. Og hann segir að fólk hafi almennt tekið þessu vel.

„Það var mikill léttir að koma út. Hluti af þessu eru félagslegar kröfur sem settar eru á konur. Mér var til dæmis létt að þurfa ekki lengur að raka fæturna. Þessu fylgdi þó mikill ótti um framtíðina.

 

Meira ég

Luca er byrjaður í kynleiðréttingarferli og hefur tekið testosteron í um 10 mánuði. „Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni. Ég var aldrei ánægður með röddina í mér en nú þegar hún er orðin dýpri þá finnst mér það vera ég sjálfur sem er að tala. Mér finnst ég vera meira ég með hverjum deginum sem líður. En þetta hefur ekki verið auðvelt ferli svo sem þegar kemur að því þegar brjóstin voru fjarlægð en ég fór í þá aðgerð í sumar. Það er yndislegt fólk í transteyminu,“ segir Luca en talar um að hann hafi ekki fengið nægilegar upplýsingar frá því varðandi ýmislegt.

Hann er ánægður með að vera kominn með dýpri rödd og að búið sé að fjarlægja brjóstin en er ekki viss um að hann vilji fara í aðgerð á kynfærum. „Ég er ósammála því að transfólk þurfi „allar aðgerðir“ eða hormón til að vera það sjálft. Í mínum huga er ég í lagi núna, ég hef röddina sem ég vil, andlitið sem er mitt og brjóstkassinn passar núna við líkama minn. Ég veit ekki hvort ég vilji í framtíðinni fara í aðgerð á kynfærum en vísindunum fleygir svo hratt fram á transdeildinni að ég vil gjarnan sjá fyrst hvernig þetta verður.“

Ónæmiskerfið í mér var viðkvæmt eftir aðgerðina og hormónana.

Luca talar um að það hafi verið erfitt að ganga í gegnum brjóstnámið og að ná sér eftir aðgerðina. Hann segir að það hafi til dæmis tekið á að þurfa að liggja í rúminu og geta ekki unnið. „Ónæmiskerfið í mér var viðkvæmt eftir aðgerðina og hormónana og það var ekki gott fyrir andlega heilsu mína að vera fastur heima. Þrátt fyrir þetta myndi ég ekki vilja hafa þetta öðruvísi. Þetta sýnir hvað svona breytir fyrir transfólk en við viljum ganga í gegnum þetta þrátt fyrir sársaukann sem fylgir þessu.“

Luca Moi Forte

Tekinn alvarlegar

Hvað með fordóma? „Verstu staðirnir fyrir mig er ræktin, sundlaugin og salernin. Það er glápt á mig hvort sem ég fer á karlaklósett eða kvennaklósett. Ég fór að minnka það að fara í ræktina og í sund þar sem ég var hræddur um að eitthvað yrði sagt sem myndi eyðileggja fyrir mér daginn. Ég er feginn að það er reglulega talað um málefni tengt hinsegin fólki og einelti í vinnunni, ekki bara til að fræða krakkana heldur líka starfsfólk. Ég hef því miður upplifað meiri fordóma í tengslum við að vera innflytjandi heldur en að vera trans.“

Luca segist ekki geta breytt nafni sínu þar sem hann er ekki íslenskur ríkisborgari og þar sem ekki er portúgalskt sendiráð hér á landi. „Það er erfitt að fara í gegnum öryggishlið á flugvöllum eða á bar og sýna skilríki með kvenmannsnafni. Það er þreytandi ferli að taka hormóna og fara í aðgerð sem og félagsleg umskipti. Allt transfólk sem ég þekki eru afskaplega sterkir einstaklingar.“

Mér finnst vera flott að lakka neglurnar og mála mig.

Luca er spurður hvað hann hafi lært af þessu öllu. „Ég hef lært mikið um kyn og þjóðfélagið. Það að vera karl skiptir mig miklu máli en ég veit að fólk meinar ekkert illt ef ég er kvenlegur og ókunnugir halda að ég sé stelpa. Mér finnst vera flott að lakka neglurnar og mála mig og ýmislegt annað sem stelpur gera núna þegar ég get verið ég sjálfur.“

Það breyttist þó ýmislegt eftir að rödd Luca varð dýpri í kjölfar þess að hann fór að taka karlhormóna og nú gerist það mun sjaldnar að fólk haldi að hann sé stelpa. „Það er áhugavert hversu miklu máli rödd skiptir varðandi það hvernig fólk lítur á mann og það er leiðinlegt hvað þetta er auðveldara fyrir transmenn en transkonur. Rödd okkar breytist eftir að við tökum karlhormóna en það gerist ekki þegar transkonur taka kvenhormóna.“

Luca segir að aðrir strákar og menn séu farnir að taka hann alvarlega nú þegar hann sé karl og hann segir að sér þyki það vera leiðinlegt. „Ég myndi vilja að allir myndu virða aðra sama hvernig röddin þeirra er eða hvernig þeir líta út.“

 

Vinir lengi

Luca er í sambandi með manni.

„Ég er mjög heppinn með kærasta minn. Það getur verið martröð að deita þegar maður er trans og það er eins og maður þurfi að útskýra svo margt þegar maður hittir nýtt fólk og það er erfitt að sjá hvort viðkomandi er virkilega áhugasamur eða ekki. Það er ný og yndisleg reynsla að vera karl og elska annan karl. Við höfðum verið vinir lengi og hann bar alltaf virðingu fyrir mér og sá mig alltaf eins og ég var. Ég gleymi oft að ég er í samkynhneigðu sambandi og velti því fyrir mér af hverju fólk starir á okkur þegar við höldumst í hendur. Ég lít bara á þetta sem ást eins og í öðrum samböndum.“

Hverjir eru framtíðardraumarnir?

„Núna þegar ég er kominn lengra áleiðis í kynleiðréttingarferlinu þá get ég einbeitt mér meira að framtíðarmarkmiðunum. Mig langar að fara að búa með kærasta mínum og halda áfram í vinnunni. Ég hef mikinn áhuga á að mennta mig og ég læri svo mikið af krökkunum sem ég vinn með. Mig langar til að geta það sem eftir er hjálpað til að krakkar upplifi glaðari dag.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -