Jón Rúnar Halldórsson fyrrum formaður knattspyrnudeildar Fimleikafélags Hafnarfjarðar vakti mikla athygli á Stöð2 Sport um liðna helgi; þar gerði hann upp magnaða tíma félagsins á árunum 2004 til 2016.
Eitt af því sem Jón Rúnar talaði um var hreinn úrslitaleikur FH og Stjörnunnar í október árið 2014:
„Allir sanngjarnir menn vita hvernig þetta hefði endað ef allt hefði verið spilað eftir reglunum sem á að fara. Hefðum við ekki verið með blindan beitusala hérna á línunni, þá hefði þetta farið allt öðruvísi. Ég held að Garðbæingar margir hverjir viti það sjálfir að þeir eigi eftir að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Ég segi þetta ekki til að gera mér einhverja hugarró. Það er bara þannig í þessum leik að allir vilja gera hlutina eftir reglunum,“ sagði Jón Rúnar.
Hvað sem öðru líður getur enginn lengur fett fingur út í það að Stjarnan varð raunverulega Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2014: FH klúðraði hverju dauðafærinu á eftir öðru og ekki hægt að kenna Stjörnumönnum um það; þeir áttu titilinn fyllilega skilið.
Ummæli Jóns Rúnars um leikinn fræga hafa farið öfugt ofan í margan stjörnumanninn – og sá ákveðni myndarpiltur Lúðvík Jónasson lagði orð í belg um leikinn fræga eftir ummæli Jóns Rúnars:
„Ég varð fertugur þessa helgina, ég hélt að ég hefði orðið Íslandsmeistari. Formaður Tjaldfélags Hafnarfjarðar er að eyðileggja það. Þeir eru búnir að taka átta dollur eftir bókinni og reglunum,“ sagði Lúlli fyrrum leikmaður Stjörnunnar í hlaðvarpsþættinum Dr. Football:
„Hvað veit Jón Rúnar um það, hefði hann (Sigurður Óli Þorleifsson) flaggað rangstöðu á Óla Kalla hvernig þessi leikur hefði þróast. Þeir geta ekki grátið yfir vítinu, ég held að Jón Rúnar sé nú ekki bestur til að ræða reglur. Hann brýtur reglur á hverjum einasta leik, fékk sekt í Evrópukeppni þegar hann labbaði inn á völlinn. Hann er kóngurinn í Krikanum en ekki tala um regluverki.“
Hins vegar eru ekki illindi hjá Lúðvík gagnvart Jóni Rúnari:
„Hann er snillingur, ég er hrifin af karakterum eins og honum. Hann vill bara vinna og til í að gera allt til þess. Það er rándýrt að búa í Mónakó (Garðabæ), þetta er ekki Samfylkingar bæjarfélag. Við erum eina liði í tólf liða deild sem hefur farið taplaust í gegnum tímabilið,“ sagði hann.
Hjörvar Hafliðason stjórnandi þáttarins bað Lúlla um að útskýr hvers vegna hann talaði um Tjaldfélagið:
„Þetta eru bara tjöld þarna, hvít tjöld út um allt. Þetta er eins og á Þjóðhátíð,“ sagði Lúðvík og var þá að tala um knattspyrnuhús fimleikafélagsins.