Þann 11. febrúar 2004 fann kafarinn Þorgeir Jónsson lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum. Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku.
„Nokkrum dögum fyrr hafði skip sem lá við bryggjuna losnað frá, skollið illa í horn hennar og hugsanlega brotið stólpa. Gísli Sigurbergur Gíslason, hafnarstjóri í Neskaupstað, bað mig um að líta á skemmdirnar þegar ég hefði tíma,“ segir Þorgeir þegar hann rifjar þennan atburð upp – ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti. Hann er yfirvegaður í fasi og gerir ekki mikið úr sínum hluta málsins þrátt fyrir að hér sé um að ræða upphafið á einu stærsta sakamáli Íslandssögunnar. Þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð er ólíklegt að maðurinn hefði nokkru sinni fundist ef Þorgeir hefði ekki verið beðinn um að kafa við bryggjuna á þessum tíma. Viðgerðir á bryggjunni voru ekki áætlaðar fyrr en seinna á árinu, jafnvel ekki fyrr en á því næsta.
„Veðrið var gott þennan morgun, ég var í fríi og ákvað að drífa þetta af. Ég mætti með búnaðinn á netagerðarbryggjuna þar sem ég hitti Gísla við annan mann og þeir sýndu mér hvað þurfti að skoða. Ég fór út í sjóinn og beint að horninu sem hafði orðið fyrir tjóni og myndaði skemmdirnar. Að því loknu báðu þeir mig um að sækja nokkur dekk sem höfðu slitnað frá bryggjunni og lágu á botninum aðeins utar. Ég festi spotta í dekkin og synti svo til baka eftir botninum að bryggjunni. Þá kom ég auga á líkið. Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna. Ég kafaði síðan niður aftur til að taka myndir og kom með þær upp um svipað leyti og lögreglan mætti á svæðið. Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“ segir Þorgeir.
Hann fór síðan aftur niður að beiðni lögreglunnar til að taka fleiri myndir og var síðan beðinn um að losa líkið og koma því upp á yfirborðið. Fleiri lögreglumenn bar fljótt að garði, sjúkrabíl og lækni auk þess sem fólk frá rannsóknarlögreglunni lagði strax af stað úr höfuðborginni.
„Ég var sá eini sem fór niður og sá aðstæður með berum augum og það hefur sennilega liðið um það bil klukkustund frá því að ég fann líkið þar til það var komið upp á bryggjuna. Ég sá hins vegar aldrei í andlit mannsins og hafði því ekki hugmynd um hvort þetta væri einhver sem ég jafnvel þekkti héðan úr bænum.“
„Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“
Fjölmiðlar ágengir
Næstu klukkutímar og dagur voru um margt óvenjulegir hjá Þorgeiri. Hann var orðinn aðalvitni í sakamáli, fjölmiðlar kepptust við að ná af honum tali og kjaftasögurnar grasseruðu í hverju horni.
„Mér datt aldrei í hug að málið hefði þróast með þeim hætti sem síðar kom í ljós og hélt að þetta væri einhver héðan af svæðinu – eitthvað partí hefði farið úr böndunum. Ég fór í skýrslutöku og afhenti lögreglu allar myndirnar sem ég hafði tekið. Mér var boðin einhvers konar áfallahjálp og hitti hjúkrunarfræðing sem rabbaði við mig. Málið var mjög fljótt að spyrjast út, strax um hádegi byrjaði síminn að hringja og þegar leið á daginn voru sennilega allir fjölmiðlar búnir að hafa samband við mig. Ég vísaði þeim öllum á lögreglu,“ segir Þorgeir. Hann vann á þessum tíma á Vélaverkstæði G. Skúlasonar en var í fríi sem var ástæða þess að hann hafði tíma til að kafa þennan dag. Hann segir að næstu dagar hafi einkennst af eltingaleik fjölmiðla við að ná af honum tali.
„Síminn byrjaði fyrir klukkan sjö á morgnana þegar stjórnendur morgunútvarpsþátta höfðu samband en ég vísaði áfram öllu frá og svaraði engu um málið sjálft. Ég viðurkenni að mér fannst verulega óþægilegt að vera miðpunktur í fjölmiðlaumfjöllun og sannarlega ekki það sem ég bjóst við þegar ég vaknaði morguninn sem ég fann líkið. Ágangurinn hélt áfram en fjaraði svo út á nokkrum vikum. Andrúmsloftið í bænum var þungt og menn voru slegnir yfir atburðinum. Kjaftasögurnar voru margar og mismunandi, meðal annars um hver þetta gæti verið. Aðkomuskip sem var hér nokkrum dögum fyrr, verkamenn við Kárahnjúkavirkjun og á svæðinu við álverið á Reyðarfirði var áberandi í umræðunni. Þegar hið sanna kom svo í ljós var leitt að heyra að maður úr bæjarfélaginu hefði tengst málinu en þegar menn eru komnir í rugl þá getur ýmislegt gerst.“
Þorgeir segist hafa unnið úr áfallinu og atburðurinn hafi lítið truflað hann, ef svo má að orði komast. „Mesta áreitið var ágangur fjölmiðla dagana á eftir og er sá þáttur sem mér þótti óþægilegastur við þetta mál. Annars hef ég bara haldið áfram að lifa mínu lífi en ég er enn spurður reglulega út í þetta, fólk er forvitið um málið.“
Áður fundið lík við köfun
Segja má að líf þessa hægláta manns hafi umturnast við líkfundinn og óvenjulegt að vera allt í einu miðpunkturinn í kastljósi fjölmiðlanna. Þorgeir fæddist árið 1971 í Neskaupstað og hefur búið þar alla tíð. Hann er vélvirki og vinnur hjá Alcoa Fjarðaáli. Hann er í sambúð og á einn son auk þess sem sambýliskona hans á son fyrir. Þorgeir segist hafa verið smákrakki þegar hann fékk áhuga á köfun.
„Sem polli fylgdist ég með mönnum sem voru hér að kafa við bryggjurnar, voru að vinna við síldarflotann og þessi skip sem voru hérna. Ég byrjaði sjálfur í kringum 17 ára aldurinn. Æskilegt er að menn læri sportköfun áður en byrjað er að kafa en á þessum tíma var mjög algengt að græjurnar væru keyptar og svo prófuðu menn sig bara áfram. Ég var byrjaður að starfa með björgunarsveitinni og datt inn á björgunarköfunarnámskeið þar sem ég fékk lánaðan búnað en eignaðist fljótlega minn eigin búnað eftir það. Það gerði mér gott. Í framhaldinu var ég innvinklaður í slökkviliðið og var orðinn reykkafari hjá því 18 ára gamall.“
Þorgeir var virkur í björgunarsveitarstarfinu um árabil, er enn á útkallslista þar og hjá slökkviliðinu og reynir að taka þátt í því sem tilfellur. Hann hefur nokkrum sinnum farið í leit sem kafari og í eitt skiptið var það Þorgeir sem fann þann sem leitað var að. Þetta er því ekki í eina skiptið sem Þorgeir hefur fundið lík í vatni. „Þær leitir í vatni sem ég hef tekið þátt í hafa allar borið árangur. Það er vissulega léttir að finna fólk sem er týnt en á móti kemur að einstaklingarnir eru látnir. Þetta eru því blendnar tilfinningar. Þetta getur tekið á sálina en við getum alltaf rætt við hjúkrunarfræðinga og svo er hópurinn duglegur að spjalla saman um málin. Það er gefandi og lærdómsríkt að starfa með björgunarsveit og í slökkviliðinu. Útköllum hefur þó fækkað í gegnum árin, sérstaklega hjá slökkviliðinu, sem betur fer,“ segir Þorgeir en hann hefur ekki enn þurft að nota þekkingu sína í reykköfun til að bjarga manneskju úr brennandi húsi. „Fólk hefur sem betur fer alltaf sloppið út.“
„Það er vissulega léttir að finna fólk sem er týnt en á móti kemur að einstaklingarnir eru látnir. Þetta eru því blendnar tilfinningar.“
Köfun er eitt af áhugamálum Þorgeirs auk þess að ganga á fjöll og fara á skíði. Hann stundar sportköfun af og til auk þess að vinna við að skoða skip og hafnir undir yfirborðinu. „Oft þarf til dæmis að losa veiðarfæri úr skrúfum og þetta geri ég meðfram vinnunni minni í álverinu. Undirdjúpin eru heillandi – allt lífríkið sem við sjáum venjulega ekki og skipsflökin, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef kafað víða, bæði hér heima og erlendis. Það sem hefur verið einna mest spennandi hér heima eru Strýturnar í Eyjafirði, flak af skútu sem sökk á pollinum á Akureyri 1917, gjáin Silfra á Þingvöllum, flak El Grillo á botni Seyðisfjarðar og lítið skipsflak í Hellisfirði,“ segir Þorgeir.
Reyfarakennd atburðarrás
Líkfundarmálið í Neskaupstað var svo reyfarakennt að mörgum varð að orði að það væri eins og skáldskapur, lyginni líkast – bíómynd frekar en raunveruleiki. Fyrir tveimur árum var ráðist í gerð bíómyndar sem byggð er á málinu en fyrstu drög að handritinu voru skrifuð fyrir fjórtán árum. Myndin heitir Undir halastjörnu og verður frumsýnd hér á landi 12. október næstkomandi. Leikstjóri og handritshöfundur er Ari Alexander Ergis Magnússon og myndin er fyrsta leikna bíómyndin hans í fullri lengd en hann hefur áður gert fjölda heimildamynda og stuttmynda.
„Upphaflega ætlaði ég að gera heimildamynd um málið en sú hugmynd kviknaði árið 2004 í kjölfarið á líkfundarmálinu. Þá vildi þannig til að ég og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi vorum í viðtali í þættinum Ísland í dag vegna heimildamyndarinnar Gargandi snilld sem við vorum að kynna. Í sama þætti var einn sakborningur líkfundarmálsins í viðtali á eftir okkur. Hann neitaði öllu staðfastlega. Þetta fannst mér áhugavert þar sem ég hef ávallt verið áhugamaður um lífið, lygina og það sem við köllum sannleika, hvernig fólk upplifir atburði mismunandi og er fylgið sér í eigin hugarheimi, þetta verður trúarsannfæring, hver sagði og gerði. Annað sem kveikti áhuga minn voru viðbrögð hins Íslendingsins í málinu, en þegar allt var komið í óefni flúði hann heim til mömmu sinnar, það fannst mér athyglisvert. Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.
„Lygin er alvarlegur hlutur“
Handrit myndarinnar er byggt á líkfundarmálinu en Ari tekur sér skáldaleyfi í persónusköpun, samtölum og aðstæðum persónanna. Nöfnum er breytt og í myndinni eru Litháarnir tveir frá Eistlandi og heita Mihkel og Igor. Myndin snýst um aðdragandann að málinu, ekki um lögreglurannsóknina.
„Myndin hefst í Eistlandi árið 1991 þegar þeir eru börn og Ísland fyrst þjóða viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna. Þeir upplifa hetjudáð lítils lands sem þorir að standa uppi í hárinu á Rússlandi. Landinu sem síðar verður land hinna stóru tækifæra. Ég þekki Austur-Evrópu vel, sjálfur er ég ættaður frá Síberíu og hef gert þrjár heimildamyndir í Rússlandi. Ég þekki því hugsun þessarar kynslóðar, hvernig leit að betra lífi er driffjöðurin í þessu. Atburðarásin er rétt en samskiptin skálduð.“
Ari hefur lengi haft áhuga á fíkniefnaheiminum, hvernig væri hægt að taka á honum því okkur beri samfélagsleg skylda til að hjálpa fólki í neyð. „Þar er alltaf verið að handtaka rangt fólk – fíkniefnaneytendur sem eru handbendi fólksins sem fjármagnar kaupin. Það ætlar sér enginn að verða glæpamaður, þetta er ekki það sem foreldra dreymir um fyrir börnin sín og ekkert barn dreymir um að verða dópisti. Það er alltaf þessi von um að þetta fari allt vel að lokum. Það ætlar sér enginn að sitja uppi með látinn mann. Myndin fjallar um bræðrasvik, lygina, rangar ákvarðanir, alvarlegar afleiðingar og spilaborg sem fellur. Á leiðinni vona menn að allt verði í lagi og þá komum við að sjálfsblekkingunni. Þessi tilhögun á sannleikanum, þetta sé bara pínu vandamál sem þurfi að redda. Lygin er alvarlegur hlutur.“
Ari segist ekki skilja af hverju er ekki tekið betur á málefnum barna sem verða fíkn að bráð á fyrri stigum málsins, í grunnskólum og menntaskólum.
„Sjálfur hef ég enga lausn á takteinum en það þarf að huga alvarlega að þessum málum. Svo verða allir voðalega hissa að fólk sé skemmt og ekkert gert í málum þessara einstaklinga fyrr en allt er farið til helvítis.“
„Þetta er karma“
Myndin verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Busan International Film Festival sem fer fram 4.-13. október í Suður-Kóreu. Í framhaldinu mun myndin taka þátt í kvikmyndakeppni í Varsjá í Póllandi. Myndin verður frumsýnd á Íslandi þann 11. október og hún fer í almennar sýningar daginn eftir. „Hljóðsetningu er nýlega lokið og ég er ánægður með heildarútkomuna. Myndin verður svo á öllum stærstu komandi kvikmyndahátíðum þannig að það er nóg fram undan,“ segir Ari.
Fyrir framvindu málsins var lykilatriði að kafarinn, Þorgeir Jónsson, í Neskaupsstað fann líkið fyrir algera tilviljun. Annars hefði hinn látni mögulega aldrei fundist og fjölskylda hans því verið í óvissu um afdrif hans um aldur og ævi. „Tilviljun, ég er ekki viss um það. Ég held að þegar þú kemur svona illa fram við annað fólk þá bítur það mjög fast í rassinn á þér, örlögin sjá um þig. Óheppni að kafarinn hafi verið beðinn um að skoða bryggju, sem löngu var hætt að nota á þessum tímapunkti? Ég held ekki. Þetta er karma, mín reynsla segir það,“ segir Ari að lokum.
Myndir /Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir