Anna er ein af þeim sem þekkja „alla“. „Já, það er bara þannig. Eins og ég sagði einhvern tímann við vinkonu mína: „Nú er það bara orðið þannig að maður þarf að rigga sig upp, fara í sparidressið og mála sig þegar maður fer í Melabúðina því það er bara eins og að mæta í kokteilboð,“segir Anna í viðtali við Hrund Þórsdóttur, upplýsingafulltrúa Ráðhúss Reykjavíkur.
„Ég gleymi öllu sem ég ætla að kaupa. Ég fer bara út með blómkálshaus eða eitthvað allt annað en ég ætlaði að kaupa því þetta er bara eins og kokteilboð. Lífið er stanslaus kokteill!“ segir Anna Kristinsdóttir.
„Það hefur aldrei hvarflað að mér að búa annars staðar. Ég hef vaknað upp með andfælum um miðja nótt eftir að hafa dreymt að ég byggi í einhverri blokk nálægt Skólavörðuholtinu. Ég vaknaði bara kófsveitt,“ segir hún og glottir. „Ég hef alltaf haft vinnuna rétt við hliðina á mér og getað stokkið örfáa metra hér á milli húsa, það hefur bara aldrei neitt annað komið til greina. Svo eru það Vesturbæjarsundlaugin og Melabúðin, ég get ekki farið neitt annað. Ég er orðin háð.“
Bræddu kerti á götuna og dönsuðu á gamlárskvöld
„Hugsunin hjá mér á morgnana var að klæða mig sem minnst svo ég væri nógu fljót úr og í því ég var alltaf að fara eitthvert. Ég nennti ekki að vera í of miklum fötum, það var of flókið,“ segir Anna sem ávallt hefur búið og starfað í Vesturbænum.
Anna ólst upp í húsi á horni Vesturvallagötu og Holtsgötu og minnist æskunnar með sérstakri hlýju. „Ég elska æskuna mína og minningarnar eru mjög sterkar. Það var ekkert sjónvarp og enginn sími, allir þekktust og mamma stóð bara á tröppunum og kallaði „Lína, Bína og Stína“ til að fá vinkonur sínar í kaffi. Þetta var bara eins og ein stór fjölskylda. Svo á gamlárskvöld bræddum við kerti á alla götuna og dönsuðum. Svona var Vesturbærinn, þetta var geggjað,“ segir Anna.
Síðar flutti hún á Reynimel og þar á eftir Meistaravelli þar sem hún kveðst hafa staðið í stofuglugganum og fylgst öskrandi með heimaleikjum KR. Síðar bjó hún á tveimur stöðum á Hagamel áður en hún lokaði hringnum og kom aftur á Reynimelinn. Drengirnir hennar tveir voru í KR og sjálf var hún virk í starfi KR-kvenna. Hverfisandinn er sterkur en aðspurð segist hún ekki vita nákvæmlega af hverju.
„Einu sinni Vesturbæingur, alltaf Vesturbæingur.“
Breytti hárgreiðslustofunni í íbúð
Anna er að verða 76 ára og starfar ennþá við fag sitt, hárgreiðslu, tvo daga í viku. Anna er hárgreiðslumeistari og hefur verið að í 61 ár, eða frá árinu 1961, allan tímann í Vesturbænum. Hún býr á Reynimel 76, í húsnæði sem áður hýsti hárgreiðslustofuna Sóleyju sem Anna vann á frá árinu 1966 og keypti síðar sjálf og rak. Eftir að hún breytti hárgreiðslustofunni í íbúð árið 1992 vann hún um tíma í einu herbergi í húsinu en í dag er þar svefnherbergi hennar og seinni manns hennar, Þórs Þorbjörnssonar. Anna vinnur nú á hárgreiðslustofunni Grand, við Grandaveg.
Eins og gefur að skilja eru fastakúnnarnir margir en Anna hefur verið svo lengi í faginu að margir þeirra eru fallnir frá.
„Grand er í blokk sem er ætluð íbúum 60 ára og eldri. Margir af mínum kúnnum eru eldri konur en kúnnarnir skiptast þó á milli okkar á stofunni. Ég fæ alveg karlmenn til mín inn á milli enda tók ég rakarann líka og er með fullgilt meistarabréf. Ég tek bara eitt ár í einu og finnst rosalega gaman í vinnunni. Ég vinn með góðu fólki, kornungu miðað við mig og ég reyni bara að vera smá pæja.“
„Ég tala við eiganda stofunnar, hann Hlyn, á hverju ári og segi að ég ætli sko ekki að vera rekin héðan, ég ætli að hætta af sjálfsdáðum en þá spyr hann bara: „Um hvað ertu eiginlega að tala? Þú getur ekkert hætt, það er svo mikið að gera hjá þér!“
Framtíðarplön Önnu eru að halda áfram að njóta lífsins. „Það er klisja, en ég er hrifin af frasanum „einn dagur í einu“, því maður veit aldrei,“ segir þessi lífsglaða kona að lokum.
Úr ljósmyndasafni Önnu.
Hægt er að lesa viðtalið heild sinni hér.
Heimild:
Ritstjórn. 2022, 9 febrúar. „Einu sinni Vesturbæingur, alltaf Vesturbæingur.“ Reykjavíkurborg.