Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Mælir eindregið með prjónaskap –„Ég er að reyna að vera poppstjarna en núna er ég bara prjónakona“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ekki er langt síðan tónlistarkonan Salka Sól Eyfeld byrjaði að prófa sig áfram í prjónaskap en núna hefur hún náð góðum tökum á prjóni og hefur meira að segja hannað prjónauppskriftir í samstarfi við Stroff.is. Hún segir alla geta lært að prjóna.

Salka Sól kenndi sjálfri sér að prjóna og mælir með að fólk sem hafi áhuga á að læra að prjóna geri slíkt hið sama, sérstaklega á tímum sem þessum þar sem fólk þarf að halda sig heima í auknum mæli.

„Ég kunni að gera slétt og brugðið síðan úr grunnskóla en ekkert annað. En ég komst fljótt að því að þessi grunnur kemur manni mjög langt,“ segir Salka Sól.

„Ég prjónaði húfuna og það var eins og leikskólakrakki hefði gert hana.“

Hún hlær þegar hún segir frá fyrsta stykkinu sem hún prjónaði. „Ég fann uppskrift að húfu sem mér sýndist vera einföld. Ég prjónaði húfuna og það var eins og leikskólakrakki hefði gert hana. En svo gerði ég hana aftur og vandaði mig meira og þá sá ég strax mikinn mun.“

Fyrsta húfan sem Salka prjónaði.

Símanotkunin dróst mikið saman

Salka Sól segir segist hafa hugsað með sér að hún þyrfti að læra að prjóna þegar hún var barnshafandi. Dóttir hennar og eiginmanns hennar, Arnars Freys, kom í heiminn í lok desember. Á meðan Salka beið eftir dótturinni prjónaði hún föt á hana. „Mér fannst ég vera að tengjast ófæddu barninu með því að prjóna á það,“ útskýrir Salka. „Ég fékk svo algjört æði þegar ég byrjaði. Mér finnst svo róandi að hafa eitthvað í höndunum og ég næ að slaka algjörlega á þegar ég er að prjóna.“

- Auglýsing -
Salka segir prjónamennsku vera mikla hugleiðslu fyrir sig.

Hún segir símanotkun sína og notkun á samfélagsmiðlum hafa minnkað mikið eftir að hún byrjaði að prjóna. „Það var ótrúlega frelsandi að taka sér pásu frá samfélagsmiðlum og fréttamiðlum og einbeita sér að prjóni þegar ég var ólétt,“ segir Salka. Hún segir prjónamennsku vera mikla hugleiðslu fyrir sig.

Ekki hræðast mistök

Salka mælir með að allir þeir sem hafi áhuga á að læra að prjóna prófi sig áfram. Beðin um að gefa góð ráð til þeirra sem vilja kenna sér að prjóna bendir Salka á kennslumyndbönd á YouTube.

- Auglýsing -

Sjálf studdist hún við kennslumyndbönd á Netinu þegar hún var að fikra sig áfram í prjóni. Hún bendir þá á að í Ameríku sé öðruvísi tækni kennd heldur en sú sem er kennd í grunnskólum hér á landi og víðar um Evrópu. Hún mælir því með að fólk hafi það í huga þegar það skoðar kennslumyndbönd.

Una krakkapeysa úr línunni sem Salka hannaði í samstarfi við Stroff.

Þá mælir Salka með því að hræðast ekki að gera mistök. Salka segist hafa lært mikið af sínum mistökum í prjóni. „Ég lærði bara á því að prófa mig áfram og gera hlutina aftur ef mér mistókst,“ segir hún.

Annað ráð sem Salka gefur er að lesa yfir prjónauppskriftina áður en hafist er handa en að einbeita sér svo að því að klára eitt skref í einu. Smátt og smátt smellur stykkið saman í höndunum, að sögn Sölku.

„Það er svo gaman að klára verk.“

Hvað varðar uppskriftirnar sem Salka hannaði í samstarfi við Stroff.is segir hún að línan innihaldi bæði ungbarna- og krakkalínu. Þær eru ýmist fyrir byrjendur og lengra komna. „Krakkalínan er aðeins meira „beginner friendly“,“ segir Salka.

Hægt er að skoða uppskriftirnar á heimasíðu Stroff.is.

Umhverfisvænna og skemmtilegra

Hún segir góða tilfinningu að klára prjónaflík. „Það er svo gaman að klára verk. Maður hugsar líka oft betur um prjónaflík en það sem maður kaupir úti í búð. Það er svo mikil neysluhyggja í kringum börn þannig að það er gott að hægja aðeins á neyslunni og taka sér tíma í að skapa eitthvað sjálfur. Það er bæði umhverfisvænna og skemmtilegra að vita hver bjó til flíkina sem þú eða barnið þitt klæðist.“ Hún segir að þess vegna þyki henni mjög auðvelt að mæla með að fólk byrji að prjóna.

Salka mælir með að byrjendur prófi t.d. að prjóna svona eyrnaband.

„Ég er alveg handviss um að allir geti lært að prjóna sem hafa áhuga á því,“ segir Salka Sól sem hefur kennt nokkrum vinkonum að prjóna síðan hún kenndi sjálfri sér réttu handtökin. Spurð út í hvort hún hafi kennt manninum sínum að prjóna hlær hún og svarar neitandi. „Nei, áhuginn þarf að vera til staðar. En honum finnst gaman að velja litina með mér.“

Spurð út í næstu skref segir Salka að hún ætli bráðum að prófa að prjóna peysu á bróður sinn og svo Unu-peysu á sjálfa sig.

Hún bætir við að hún ætli svo að halda áfram að prófa nýjungar í prjónaskap. „Ég er að reyna að vera poppstjarna en núna er ég bara prjónakona,“ segir hún og hlær.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -