Laugardaginn 30. nóvember árið 1968 fór Magnús Teitsson frá heimili sínu að Þinghólsbraut 63 í Kópavogi, á VW bjöllu bifreið sinni og ætlaði að hjálpa kunningja sínum sem bjó í húsi sem hét Strönd og var í landi Sæbóls við Fossvog í Reykjavík.
Magnús hugðist ætla að koma heim aftur um kvöldmatarleytið, en þegar klukkan nálgaðist átta fór fjölskyldan að ókyrrast. Kom þá í ljós að bifreið hans var fyrir utan heimili þeirra en ekkert bólaði á Magnúsi sjálfum. Kom í ljós að lyklar bjöllunnar voru í læsingu bílstjórahurðarinnar.
Eitt dularfyllsta mannshvarf sögunnar átti sér stað.
á Íslandi eru fleiri en margur skyldi ætla: Ríkislögreglustjóri hefur safnað saman upplýsingum um einstaklinga sem hafa horfið allt frá árinu 1945, og eru enn ófundnir, í eina skrá yfir týnda einstaklinga. Í skrá embættisins er að finna 120 einstaklinga, og er hún unnin upp úr gagnagrunni kennslanefndar.
Hafið hefur marga tekið og af þeim 120 einstaklingum sem eru á listanum áðurnefnda hefur rúmlega helmingur horfið á sjó; alls 64 einstaklingar.
Frá árinu 2000 hafa 8 týnst á sjó, en þar af týndust 5 árið 2001. Árið 1980 er afar áberandi en þá hurfu 12 á sjó, þar af sjö við Ísafjarðardjúp, en sex þeirra voru rækjusjómenn sem hurfu í miklu vonskuverði 25. febrúar það ár.
Upplýsingarnar um hvarf þessara 120 einstaklinga eru mjög mismunandi og varðar það bæði efnisatriði og tegundir gagna. Upplýsingarnar sem skráin byggir á hafa verið færðar inn úr gömlum skjalaskrám og eru upplýsingarnar um einstaklingana oftast frá lögreglu. Einnig eru upplýsingar fengnar úr gögnum Slysavarnafélagsins og blaðaúrklippum sem sagðar eru í stökum tilfellum vera einu upplýsingarnar um hvarf einstaklinga, en í dag eru upplýsingar um einstaklinga sem hverfa og hvarf þeirra skráð með stöðluðu verklagi og fært inn í gagnagrunn kennslanefndar og lögreglukerfið LÖKE.
Þá aftur að Magnúsi.
Magnús Teitsson var fæddur Max Robert Heinrich Keil í Luckau í Þýskalandi 14. janúar 1908. Hann hvarf sporlaust þann 30. nóvember árið 1968.
Magnús fluttist til Íslands árið 1930 og fékk fljótlega íslenskt ríkisfang. Þegar Ísland var hernumið af Bretum árið 1940, þegar seinni heimsstyrjöldin var komin í fullan gang – fór Magnús ekki varhluta af því frekar en aðrir Þjóðverjar sem búsettir voru á Íslandi, að ekki var auðvelt að vera ættaður frá Þýskalandi á þeim tíma eða tengdur landinu á einhvern hátt.
Magnús var einn af mörgum Þjóðverjum sem teknir voru til fanga og fluttir til Englands í stríðinu.
Eftir stríðslok kom hann heim til Íslands aftur, og fór hann að vinna fyrir Málningu h/f. Vann svo í framhaldinu hjá Hörpu sem var þá að hluta til í eigu Málningar h/f. Magnús var svo síðar gerður að stjórnarmanni hjá því fyrirtæki. Eftir það stofnaði Magnús fyrirtækið Stálborg og var framkvæmdarstjóri þess.
Almennt var talið að Magnús hefði verið góður stjórnandi af þeim sem til þekktu; hann reglumaður og afar stundvís.
Kona Magnúsar var Helga Þorsteinsdóttir og börn þeirra eru Elísabet, Þorsteinn, Ásdís og Sigríður. Helga lést 1994.
Samkvæmt áðurnefndum kunningja Magnúsar sem hann fór að hjálpa fór Magnús frá honum úr Fossvoginum um klukkan sjö og sagðist ætla heim á leið. Kunninginn sagðist ekki hafa séð neitt óvenjulegt í fari Magnúsar og sama kvöld var tilkynnt um hvarf hans og hófst leit að honum í framhaldinu; sem varð æ umfangsmeiri eftir því sem leið á kvöldið og nóttina og næstu daga.
Auglýst var eftir Magnúsi í blöðunum, þar sem Magnúsi var lýst sem svo: Hann sagður vera klæddur í ljósa úlpu með dökkum ullarkraga, dökkum buxum og skóhlífum. Notar gleraugu og er meðalhár og í meðallagi í vexti.
53 ár eru liðin frá hvarfi Magnúsar og hefur ekki tangur né tetur fundist af honum; aldrei fékkst nein skýring á hvarfi Magnúsar; ekkert hefur spurst til hans þrátt fyrir umfangsmikla leit. Ekkert fannst í raun, saknæmt eða ósaknæmt, um hvarf Magnúsar sem er eitt hið dularfyllsta í sögu mannshvarfa á Íslandi.
Heimildir:
Bjarki H. Hall hjá Íslensk Mannshvörf
timarit.is