Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Magnús S. Kristinsson ók til Póllands með hjálpargögn: „Ein úkraínsk flóttakona grét alla leiðina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar stríðið hófst í Úkraínu þá hugsaði ég með mér að það hlyti að vera eitthvað sem maður gæti gert,“ segir Magnús S. Kristinsson sem hefur verið búsettur í Svíþjóð í 12 ár en kemur heim með ferjunni Norröna, eða Norrænu, í næstu viku þar sem hann ætlar að flytja heim. Hann segir að hann og vinnufélagi hans, Bo Rundberg, hafi haft samband við Rauða krossinn í Svíþjóð og spurt hvort þeir gætu ekki gert eitthvað til hjálpar en að svarið hafi verið að þeir gætu gefið pening til hjálparstarfsins en þeir vildu gera eitthvað sjálfir. Þeir vinna hjá rútufyrirtæki og stakk Bosse, vinnufélagi hans, upp á því að fá rútu til að aka til Póllands og hjálpa þannig. „Við fórum til forstjórans og spurðum hvort við fengjum rútu án þess að borga fyrir hana. Hann sagði svo vera en að við yrðum sjálfir að borga eldsneytið auk þess sem hann sagði að við mættum ekki fara yfir landamæri Úkraínu vegna þess að þá væri rútan ekki tryggð lengur.“

Félagarnir tilkynntu á Facebook-síðum sínum um verkefnið sem fram undan var og skrifuðu að ef einhverjir vildu hjálpa þá væri það velkomið. „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér eða trúað þessum viðbrögðum sem við fengum. Það var fullt af fólki sem gaf peninga; það gáfu engir stórar upphæðir en þetta voru aðallega 500 og 1.000 krónur íslenskar en nokkrir gáfu 5.000 krónur og það voru stærstu gjafirnar.“

Þeir komumst í samband við fólk í Póllandi og í þeim hópi er kaþólskur prestur sem hafði unnið í mörg ár í tengslum við flóttamenn og hælisleitendur sem komu til Póllands. „Við fengum að vita hvað það væri sem fólk þyrfti mest á að halda og það voru til dæmis svefnpokar, teppi, skyndimatur sem þurfti ekki að elda, klósettpappír, bleiur og dömubindi. Og margir gáfu þessa hluti  auk þess sem sumt var þetta keypti fyrir peninginn sem safnaðist.“

Magnús S. Kristinsson
Sænski presturinn og pólski, kaþólski presturinn.

Félagarnir tveir og sænskur prestur sem er sérfræðingur í áfallahjálp lögðu síðan af stað síðastliðinn föstudagsmorgun á rútunni og drógu á eftir sér kerru sem var full af vörum en kerran tekur eitt og hálft tonn auk þess sem ýmsar vörur voru geymdar aftast í rútunni og í farangursrými hennar. Eftir keyrslu og ferð með ferju var komið til Póllands á laugardaginn og í Gdansk var náð í barnalækni sem slóst í hópinn og síðan var ekið til Lublin sem er nálægt úkraínsku landamærunum.

Við tókum fimm fjölskyldur með okkur.

„Við tæmdum allt dótið inn í vörugeymslu sem presturinn er með og tókum síðan fimm fjölskyldur með okkur og keyrðum af stað til baka um miðnætti aðfaranótt laugardags.“

Magnús S. Kristinsson

- Auglýsing -

Grét alla leiðina

Magnús segir að það hafi verið fyrir milligöngu pólska prestsins hvaða úkraínsku flóttamenn fóru með rútunni til Svíþjóðar og bendir hann á þá að staðreynd að hundruð þúsunda flóttamanna séu í Lublin og halda þeir til meðal annars á heimilum, skólum og íþróttahúsum.

„Þeir sem vildu fara með okkur var til dæmis fjölskylda þar sem konan var í hjólastól og urðum við að bera hana inn í rútuna. Ein úkraínsk flóttakona grét alla leiðina; maðurinn hennar var í Úkraínu en hún vissi ekki hvar hann var. Hún var með fimm til sex ára strák og eina unglingsstelpu með sér. Svo voru þrjár aðrar fjölskyldur.“

- Auglýsing -

Þögn.

Sumir fóru með starfsfólki útlendingastofnunar.

„Við sáum um að keyra þau og sáum um að gefa þeim að borða og þau fengu allt sem þau þurftu um borð í ferjunni. Sumir áttu ættingja í Svíþjóð sem náðu í þau þegar ferjan kom að landi í Karlskrona og sumir fóru með starfsfólki útlendingastofnunar. Ein fjölskylda fór með okkur alla leið til Gautaborgar; þessi kona í hjólastólnum og fjölskylda hennar.“

Félagarnir óku svo rútunni inn á bílastæði rútufyrirtækisins og voru búnir að þrífa hana um klukkan fjögur aðfaranótt síðastliðins mánudags. „Ég svaf allan gærdaginn,“ segir Magnús en viðtalið var tekið á þriðjudaginn.

Magnús og Bosse.

Þetta grípur alla

Magnús segist hafa orðið var við hvað Pólverjar séu samstíga í að hjálpa úkraínskum flóttamönnum. „Við upplifðum það alls staðar þar sem við komum og alls staðar þar sem maður þekkir fólk. Þetta grípur alla. Þetta hefur áhrif á alla. Ég held að fólk hugsi öðruvísi vegna þessa stríðs. Ég held að Pólverjar hugsi með sér að ef Pútín vinni þetta stríð þá gætu þeir orðið næstir.“

Magnús talaði ekki mikið við flóttamennina á leiðinni en þó eitthvað í ferjunni. „Ég upplifði ekki vonleysi hjá fólkinu; það var eins og það hefði ekki misst trúna. Það var ofsalega þakklátt fyrir hjálpina. Það var einhver gleði í því. Þetta fólk lenti í aðstæðum sem það ræður ekki við og reynir að gera sitt besta í þeim aðstæðum.“

Að hjálpa henni á betri stað í bili allavega.

Magnús segir að það sem sitji í sér eftir þessa ferð sé konan sem grét svo mikið. „Það situr í mér að fá að taka utan um hana og hjálpa henni út úr þessum aðstæðum; ekki bara ég heldur allir sem voru með mér í ferðinni. Að hjálpa henni á betri stað í bili allavega. Og líka að sjá barnið hennar fimm eða sex ára; drengurinn var mjög lokaður í byrjun en rétt áður en við komum í land í ferjunni þá var hann farinn að leika sér. Og konan var farin að brosa í restina. Það hafði dýpstu áhrifin á mig að sjá venjulegt fólk lenda í aðstæðum sem það hefur ekkert um að segja.“

Magnús S. Kristinsson

Misstu allt

Magnús flutti til Svíþjóðar eftir bankahrunið en hann segir að hann og þáverandi eiginkona hans hafi misst allt í hruninu.

„Ég hafði starfað sem sölumaður og síðar fasteignasali og var í því starfi þegar hrunið varð. Við bjuggum í 300 fermetra raðhúsi og áttum 20-30 milljónir í því og það hvarf allt á einni nóttu. Og ég missti vinnuna. Það tekur allt stolt í burtu að vera fasteignasali sem þénaði upp undir eina og hálfa milljón á mánuði og næsta mánuð má segja að ég hafi ekki átt mat handa börnunum og þurfti að standa í röð hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd til að fá mat og svo jólagjafir fyrir jólin til að geta gefið börnunum. Þetta tók í burtu allt sem heitir stolt og sjálfsvirðing; að neyðast til að fara þessa leið og biðja um hjálp. Það er eitthvað sem ég hafði aldrei gert í lífi mínu áður. Ég varð að fara þessa leið til að börnin mín hefðu mat og fjölskyldan hefði eitthvað til að lifa af. Á Íslandi hefur maður alltaf einhvern einhvers staðar en ég vildi ekki tala við fullt af fólki í von um aðstoð; mér leið nógu illa yfir ástandinu eins og það var. Við fengum svo leiguíbúð og náðum að halda henni áður en við fluttum svo til Svíþjóðar.“

Magnús segir að þetta sé það erfiðasta sem hann hefur gengið í gegnum fyrir utan það þegar hjónin skildu fyrir tveimur árum síðan.

Það sem hjálpaði mér mest var að ég brotnaði niður og byrjaði að gráta.

„Skilnaður er eitthvað sem ég óska engum að ganga í gegnum en því miður ganga allt of margir í gegnum skilnað. Það sem hafði mest áhrif og sem hjálpaði mér mest var að ég brotnaði niður og byrjaði að gráta. Það er eitthvað sem ég hafði ekki gert frá því ég var 15 ára gamall. Og það í raun og veru kom mér í gegnum þetta. Og gerði mig heilan aftur.“

Hann segir að trúin á Guð hafi líka hjálpað sér. „Það var í raun og veru þessi grátur og að hafa Guð og einn eða tvo vini sína til að tala við og ræða við í gegnum allt þetta ferli.“

 

Örin

Og við bökkum enn lengra aftur í tíma. Svo langt aftur í tíma að allt í einu er Magnús tæplega 13 ára að drekka fyrsta sopann. Fyrsta brennivínssopann. Honum þótti sopinn svo góður að þeir Bakkus urðu félagar í tæpan áratug – en þótt honum fyndist sopinn góður þá var það þó reyndar ekki bragðið sem heillaði. Þetta bragð var beiskt.

„Ég var greindur með ADHD á fullorðinsárum. Áfengið róaði mig en ég notaði alltaf áfengi og eiturlyf sem flóttaleið frá sjálfum mér. Ég var alltaf á flótta frá lífinu og áfengi og eiturlyf gerðu mér kleift að flýja. Mér fannst áfengi aldrei vera gott á bragðið en það hjálpaði mér hins vegar að flýja.“

Ég gerði fimm sjálfsmorðstilraunir.

Hvað var það versta sem hann upplifði á neyslutímabilinu?

„Ég gerði fimm sjálfsmorðstilraunir og er ennþá með öll merki á höndunum. Ég er skorinn alls staðar; það er eitthvað sem ég ber með mér alla ævi. Þessi ör. Svo voru það innbrot og þjófnaðir og annað sem fylgdi þessu. Margir þeirra sem ég drakk með eru dánir. Fullur var ég lengst í rúma tvo mánuði í einu. Ég skaðaði aldrei aðra líkamlega en örugglega andlega og sálarlega. En líkamlega meiddi ég aldrei neinn svo ég muni allavega.“

Svo fór Magnús í meðferð 22 ára gamall. „Ég var númer 25 á Staðarfelli.“ Hann var 25. alkóhólistinn sem fór þar í meðferð eftir að staðurinn var opnaður. „Ég kláraði ekki alveg meðferðina af því að ég þurfti að fara á sjóinn og það var veðmál um hversu lengi þessi drengur yrði edrú. Hvort ég myndi ná viku. Það er bara einn annar og ég sem eru edrú af þessari grúppu,“ segir Magnús sem hefur ekki drukkið dropa síðan en hins vegar migið oft í saltan sjó.

Hvað hjálpaði honum til að losna við Bakkus úr lífi sínu án þess að klára meðferðina þar sem hafið bláa hafið kallaði?

„AA samtökin hjálpuðu. Ég stundaði þau mikið. Ég vissi að ég fengi ekki annað tækifæri ef ég dytti í það. Menn voru að deyja í kringum mig sem voru að drekka með mér og ég vissi að ég hefði ekkert ótakmarkað þol til að drekka og ég vissi líka að einhvern veginn var ég farinn að vera þannig að ég var farinn að reyna að fremja sjálfsmorð þegar ég datt í það. Ég var líka að eyðileggja líf annarra í kringum mig.“

Magnús S. Kristinsson

Trúboð

Hann sem er þakinn örum á handleggjunum er með kross um hálsinn. Svolítið stóran kross.

„Ég trúi á Guð. Ég trúi á Jesú. Það byrjaði eftir að ég frelsaðist; 12 árum eftir að ég fór í AA samtökin. Ég hef verið á þessari göngu síðan. Fyrir Covid fór ég með félaga mínum þrisvar til fjórum sinnum á ári í um fjögur ár til Afríku til að vera í trúboði. Þetta fólst mest í að kenna fólkinu að gera hlutina sjálft; ekki gefa því bara peninga og hjálpa því þannig. Ég gaf til dæmis einum manni gítar og í dag á hann stúdíó og er kominn með íbúð bara af því að hann á hljóðfæri sem hann getur spilað á og fengið vinnu út af. Það þarf oft svo lítið til að hjálpa.“

Magnús segir að hann og félagi sinn hafi farið til Afríku á eigin vegum og að á tímabili hafi allur hans peningur farið í þessa ferðir. Hvers vegna?

„Það er einhver þrá eftir því að sjá fólk vaxa og líða vel. Mig langar til að sjá fólk vaxa. Það er það eina.“

Úganda. Kenía. Sambía. Rúanda. Suður-Afríka.

Hvað stendur upp úr í þessum ferðum?

„Þessi einlæga gleði fólksins. Mér líður vel þegar ég sé að fólki í kringum mig líður vel. Það var sönn gleði á flestum þessum stöðum.“

Hvað er Guð í augum Magnúsar sem ber stóran kross um hálsinn?

„Fyrir mér er Guð allt. Guð er kærleikurinn. Númer eitt er hann kærleikur. Einhver sem elskar mig og þig framar öllu öðru.“

Jú, Magnús S. Kristinsson kemur til Íslands í næstu viku með Norröna. Norrænu. Hann mun búa í forstofuherbergi heima hjá vinafólki sínu þangað til hann finnur húsnæði og hann er ekki búinn að fá vinnu; hann sem vann sem strætisvagnabílstjóri í Svíþjóð og síðar sem yfirmaður hjá rútufyrirtæki nefnir að hann muni tala við rútufyrirtæki á Íslandi.

Mér finnst ég vera að gera rétt.

Hvernig er tilfinningin að vera að fara að flytja heim eftir 12 ár? „Hún er æðisleg. Ég er rosalega glaður yfir því að vera að koma heim. Mér finnst ég vera að gera rétt. Mér finnst þetta vera rétta skrefið.“

Hann er spurður hvort hann hefði áhuga á að aðstoða flóttamenn frá Úkraínu sem koma til Íslands. „Já, ef það væri í boði. Ég hef alltaf áhuga á að hjálpa fólki. Og vinna með fólki. Mér þykir vera gaman að hjálpa öðrum ef ég get það. Hvort það geri mig að góðum manni eða ekki veit ég ekki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -