Gagnrýna fjölmiðla
Tekið er fram í pistli Þórhildar að 2. nóvember síðastliðinn hafi annar aðsendur pistill birst á Vísi með innihaldi úr lögregluskýrslu þolanda í opnu dómsmáli. Höfundur pistilsins er Jón Baldvin Hannibalsson og var greinin hans birt viku áður en dómur var kveðinn upp og hann sýknaður.
„Þessi pistill minn er skrifaður í þeim tilgangi að gagnrýna fjölmiðla sem fordæmdu hegðun Sigurðar G en taka síðan þátt í aðför að þolanda í öðru ofbeldismáli með því að birta gögn úr hennar lögregluskýrslu á fréttasíðu sinni. Samkvæmt ritstjórnarstefnu fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar kemur fram að í umfjöllun um viðkvæm málefni skuli „Fréttastofan forðast að birta … persónugreinanlegar upplýsingar,“ segir Þórhildur.
Þórhildur gagnrýnir að „í pistli Jón Baldvins, þar sem hann birtir brot úr lögregluskýrslu Carmenar Jóhannsdóttur, eru persónugreinanlegar upplýsingar um vitni hennar í málinu sem Jón Baldvin nafngreinir svo síðar í pistlinum.
Ég geri mér grein fyrir að þessi pistill var ekki skrifaður af blaðamanni en ritstjórnarstefnan hlýtur að eiga við um alla fréttamennsku Vísis og því ættu aðsendar greinar að falla þar undir.“
Pistill Þórhildar rekur svipuð mál og segir að „það eru til fyrri dæmi um að gögnum úr sakamálum sé lekið til fjölmiðla og birtist grein eftir hæstaréttarlögfræðing þess efnis í lögmannablaðinu fyrir 16 árum síðan, eða árið 2005.“
Í greininni er gagnrýnt þegar lögregluskýrslum er lekið í fjölmiðla:
„Öllu alvarlegra hlýtur þó að vera þegar upplýsingar úr lögregluskýrslum á rannsóknarstigi máls hafa ratað í fjölmiðla.“
Gögnum úr viðkvæmri rannsókn lekið
Í byrjun þessa árs birtist frétt um að gögnum úr viðkvæmri rannsókn á starfsemi lögreglufulltrúa hafi verið lekið, þar á meðal persónugreinanlegum upplýsingum um aðra lögreglumenn og yfirmenn innan lögreglunnar úr lögregluskýrslum þeirra. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, staðfesti í fréttinni að málið væri strax komið til skoðunar hjá embættinu og litið alvarlegum augum.
Í tengslum við sama mál greindi Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, frá því að það væri mjög slæmt þegar persónugreinanlegum upplýsingum úr rannsókn sakamáls sé dreift. Vert er að taka fram að þegar þessi leki átti sér stað var búið að taka málið fyrir og hafði lekinn því ekki áhrif á rannsókn málsins.
Þórhildur fer yfir mögulegan skaða þess að lögregluskýrslum sé lekið og segir að þess konar leki geti „verið mjög skaðlegur fyrir þá sem fyrir því verða og getur haft áhrif á málið sjálft ef það er á rannsóknarstigi. Að leka persónurekjanlegum upplýsingum um brotaþola ofbeldis út frá lögregluskýrslu getur einnig stofnað viðkomandi í lífshættu.“
Hún spyr:
„Af hverju er það litið alvarlegri augum þegar persónurekjanlegum upplýsingum úr skýrslu lögreglumanna er lekið? Ætlum við sem samfélag bara að leyfa því að gerast að lögregluskýrslum brotaþola í ofbeldismálum sé lekið á internetið og í fjölmiðla án nokkurskonar afleiðinga? Hversu mörgum lögregluskýrslum þolanda ofbeldis þarf að vera lekið áður en gripið verður til einhverskonar aðgerða?“
Þórhildur furðar sig á þessum vinnubrögðum og segir að „í tilfelli Jóns Baldvins var ekki komin úrlausn í dómsmálinu þegar hann tekur ákvörðun um að leka broti úr lögregluskýrslu Carmenar í fjölmiðla. Þann 14. nóvember síðastliðinn gerði Sigurður G grein fyrir því í viðtali á Bylgjunni að hann hafi ekki enn fengið kærurnar birtar, tveimur mánuðum eftir að þær voru lagðar fram. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Persónuverndar kemur fram að áætlaður afgreiðslutími kvartana sé 9 – 15 mánuðir.
Við þekkjum það vel að mál hjá lögregluyfirvöldum taka oft langan tíma en hvernig væri að taka þessi mál hraðar fyrir til að fordæma þessa hegðun? Ég velti því fyrir mér hvers vegna þolendur ofbeldis njóta ekki verndar hjá lögreglu- og persónuverndaryfirvöldum og af hverju raunin sé sú að auðvelt sé að leka lögregluskýrslum þeirra.“