Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sá sig knúna til að leiðrétta þann misskilning að frumvarps hennar um áfengisverslun á netinu sé nýtt og tilkomið vegna útbreiðslu COVID-19. Áslaug birti langa færslu um málið á samfélagsmiðlum.
Áslaug Arna ssagði í síðustu viku að á tímum COVID-19 og samkomubanns væri sérstaklega þörf á löglegri netverslun með áfengi. „Ef einhverntíman væri þörf fyrir löglega netverslun með áfengi,“ skrifaði hún á Twitter. Færslan fór öfugt ofan í margt fólk og Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, skrifaði til að mynda opið bréf til hennar.
„Nú er brýnt að við sem samfélag finnum allar þær jákvæðu leiðir sem fyrirfinnast til að vinna saman á þessum tímum og að aðstoða allt samfélagið í gegnum erfiða stöðu vegna Covid 19. Ef einhvern tímann er þörf fyrir að standa með börnum, þá er það núna,“ skrifaði Erna meðal annars.
Ef einhverntíman væri þörf fyrir löglega netverslun með áfengi 🤷♀️ https://t.co/uV79TOGbrt
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) March 25, 2020
Aðrir sökuðu Örnu um að nýta sér erfitt ástand. „Alveg beið maður eftir því að þú myndir nýta þetta skelfilega ástand á Íslandi og í heiminum til að reyna að koma þessu frumvarpi þínu á framfæri. Siðleysið er algjört og virðist enga enda taka,“ skrifaði einn netverji við færslu hennar á Twitter.
Aukin umfjöllun sökudólgurinn
Áslaug skrifa um umræðuna sem hefur skapast í kringum frumvarpið undanfarna daga í færslu sem hún birti í gær. „Málið er ekki nýtt af nálinni þótt af umræðunni mætti ætla að svo væri. Málið var unnið í haust, tilbúið í byrjun árs og fór í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar,“ skrifar Áslaug.
„Því fer fjarri að það sé tilkomið vegna þess alvarlega ástands sem nú hefur skapast í samfélaginu. Þessa misskilnings kann að gæta því að fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um málið og eftir að bent hafði verið á ólöglega sölu áfengis á Twitter sagði ég á sama vettvangi að það væri kominn tími til að hafa þetta löglegt,“ bendir Áslaug á. Hún bætir við að í kjölfarið hafa veitingamenn, innlendir aðilar og brugghús vakið athygli á því að frumvarpið gæti orðið til þess hægt væri að halda rekstri gangandi í erfiðri stöðu sem nú blasir við vegna útbreiðslu COVID-19.
„Því fer fjarri að það sé tilkomið vegna þess alvarlega ástands sem nú hefur skapast í samfélaginu.“
Áslaug telur svo upp nokkur atriði sem hún vill koma á framfæri: „Málið er ekki nýtt og ekki tilkomið vegna Covid-19 veirunnar. Málið er ekki forgangsmál heldur eitt af fjölmörgum málum á mínu borði,“ telur hún meðal annars upp.
Færslu hennar má sjá hér fyrir neðan.