Í kjölfar Klaustursfundarins margumrædda hafa verið uppi háværar kröfur um opinbera rannsókn málsins og hugsanlegar játningar þingmanna á lögbrotum. Eiga þær kröfur við rök að styðjast?
„Ég sé ekki fyrir mér beinar lagalegar afleiðingar fyrir störf þingsins eða þingmennina en hins vegar vekur þetta upp alvarlegar siðferðilegar spurningar um viðhorf og dómgreind þeirra sem tóku þátt í umræðunni. Um leið varpar málið rýrð á Alþingi og grefur undan trausti almennings á stjórnmálamönnum almennt. Því getur málið haft margvíslegar pólitískar afleiðingar,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, spurð út í þetta.
„Þingmenn njóta sérstöðu um upphaf og lok starfa. Aðeins kjósendur taka ákvörðun í þeim efnum. Jafnvel þótt þingmenn hafi fengið dóm fyrir alvarleg refsiverð brot þá getur enginn vikið þeim úr þingmannsstarfinu. Háttsemi þessara þingmanna er siðferðislega ámælisverð en ekki verður séð að nein lög hafi verið brotin. Nú er beðið eftir niðurstöðu siðanefndar. Hún getur þó ekki ákveðið nein viðurlög í starfi þótt siðareglur hafi verið brotnar. Í framhaldinu er það algerlega komið undir þingmönnunum sjálfum hvort þeir telja sér siðferðislega stætt á að sitja lengur eða hvort þeir segja af sér. Hins vegar verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir búi yfir góðu siðgæði og hafi siðferðilegan styrk, meiri en gerist og gengur.“
Eins og ég sagði eru þingmenn mjög sjálfstæðir í starfi og ekki háðir fyrirmælum frá neinum yfirboðara.
Er hugsanlegt að breyta þurfi þingsköpum til að setja fastmótaðri reglur um leyfi þingmanna?
„Eins og ég sagði eru þingmenn mjög sjálfstæðir í starfi og ekki háðir fyrirmælum frá neinum yfirboðara. Auk þess eru reglur sem tryggja að varamenn komi inn fyrir þá ef þeir eru forfallaðir frá störfum. Þannig á það ekki að koma niður á störfum þingsins, hvorki málefnalega né heldur í kostnaði fyrir þingið eða almannafé, ef þeir taka sér launalaust leyfi af hvaða ástæðum sem er, persónulegum eða öðrum. Ég er ekki viss um að þetta mál eitt eigi að leiða til endurskoðunar á þeim reglum sem eru til staðar sem veita ákveðinn sveigjanleika í þessum efnum.“
Hafi Gunnar Bragi brotið af sér eru brotin fyrnd
Er hugsanlegt að einn þingmannanna hafi játað á sig brot á hegningarlögum með ummælum um hrossakaup í sendiherraskipunum?
„Eins og lýsingin er á umræðu um sendiherraskipanir áttu þessir atburðir sér stað í ráðherratíð Gunnars Braga á árinu 2014. Hér er því álitamál hvort um brot ráðherra í starfi sé að ræða, einkum 128. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um háttsemi sem felur í sér mútur og spillingu. Burtséð frá efni ummælanna verður að hafa í huga að mál vegna embættisbrota ráðherra falla undir sérreglur um ráðherraábyrgð og landsdóm og verða aðeins höfðuð samkvæmt ákvörðun Alþingis. Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð frá árinu 1963 verður Alþingi að höfða mál gegn ráðherra innan þriggja ára frá því brot var framið, eða innan sex mánaða frá því næstu alþingiskosningar eftir brot var framið. Mér sýnist því ljóst að meint brot í ráðherratíð Gunnars Braga séu fyrnd. Hitt er svo annað mál að þessi ummæli ein og sér eru ólíkleg til sakfellis fyrir embættisbrot. Þau eru ekki af þeim styrkleika og sett fram í því samhengi að erfitt yrði að sanna ásetning manna til að fremja brot.“
Spurð hvort það sem sagt var á þessari samkomu gefi tilefni til opinberrar rannsóknar, svarar Björg að það verði ekki séð að það sem þingmenn sögðu almennt í umræðunni feli í sér lögbrot.
„Þótt ummælin sem slík séu ærumeiðandi fyrir þá sem fjallað var um verður að hafa í huga að þau komu fram í einkasamtölum milli manna sem ekki var ásetningur til að birta eða dreifa opinberlega. Birting ummælanna, sem tekin voru upp með leynd og komu fram í einkasamtali, er því ótvírætt inngrip í friðhelgi einkalífs þingmannanna.
Það er erfitt að líða þjóðkjörnum fulltrúum slíka framkomu.
Ummælin fela fyrst og fremst í sér áfellisdóm yfir þeim mönnum sem eiga í hlut, aðallega alvarlegan siðferðisbrest. Það er erfitt að líða þjóðkjörnum fulltrúum slíka framkomu. En eins og ég sagði áðan þá eru þau takmörk sett í lögum, einmitt til að vernda sjálfstæði þingmanna gagnvart ólögmætum afskiptum, að þeim verður ekki vikið úr starfi. Aðeins kjósendur geta ákveðið að hafna þeim þegar kemur að næstu kosningum.“
Þú átt sem sagt ekki von á því að þessi fundur og þau ummæli sem þar féllu hafi neinar afleiðingar til lengri tíma litið?
„Ekki beinar lagalegar afleiðingar eins og ég nefndi fyrr. En vonandi mun þetta hafa á áhrif á að þingmenn átti sig á stöðu sinni og mikilvægi þess að persónuleg breytni þeirra skiptir miklu máli fyrir ímynd Alþingis og traust almennings til þess. Það hefur komið fram í umræðunni að það sé alkunna að þingmenn tali svona sín í milli, sem ég trúi nú ekki að sé rétt. Sé eitthvað til í því verður að draga þann lærdóm af þessu máli að menn þurfa að endurskoða viðhorf sín, háttsemi og ummæli, sýna dómgreind og veita sjálfum sér aðhald.“
Aðsend mynd/ Kristinn Ingvarsson
Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir