„Trú okkar á réttarkerfinu hefur eðlilega aukist við þennan dóm. Ég vil þakka öllum vinum okkar sem hafa alla tíð haft trú á okkur. Á tímum sem þessum áttar maður sig á því hverjir eru vinir manns og þá eigum við marga,“ segir Ólafur William Hand, fyrrverandi upplýsingafulltrúi og forstöðumaður markaðsmála á alþjóðasviði Eimskips, sem í gær var sýknaður af kæru um ofbeldi í garð barnsmóður sinnar fyrir Landsrétti.
Ólafur var fundinn sekur í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember 2018 og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til 400 þúsund króna bótagreiðslu til barnsmóðurinnar. Forsaga málsins er áralöng forræðisbarátta Ólafs við barnsmóður sína.Dómnum var snúið við í Landsrétti þar sem dómurinn taldi að sannanir fyrir sekt hands væru ekki hafnar fyrir skynsamlegan vafa.
„Ég missti starfið hjá Eimskip og hef þrátt fyrir ítarlega leit ekki hlotið ráðningu á öðrum vettvangi.“
Eftir að Landsréttur hafði í gær sýknað Ólaf tjáði hann tilfinningar sínar í færslu á Facebook. Hann sagði gærdaginn mikinn hamingjudag enda bar brúðkaupsafmæli þeirra hjóna, Ólafs og Kolbrúnar Önnu Jónsdóttur, upp sama dag. Hún hefur sjálf sent frá sér bók sem fjallar að miklu leyti um málaferlin og dómin sem Ólafur hlaut fyrir héraðsdómi. „Kæru vinir, í dag er mikill hamingjudagur í lífi okkar Kollu og fjölskyldu okkar. Í dag sýknaði Landsréttur mig af ákærum sem bornar voru uppá mig. Það sem gerir þennan dag enn bjartari er að við Kolbrún eigum fimm ára brúðkaupsafmæli og því er dagurinn fullkominn,“ segir Ólafur.
Ólafur segir málið hafa haft gífurlega alveralegar afleiðingar fyrir hann og fjölskyldu hans.„Ég missti starfið hjá Eimskip og hef þrátt fyrir ítarlega leit ekki hlotið ráðningu á öðrum vettvangi. En nú er það eitt í stöðunni að horfa bjartsýnn fram á veginn, þar sem ný ævintýri bíða. Mikilvægast á næstunni er þó að rækta fjölskyldu mína sem hefur staðið við bakið á mér eins og klettur. Nú taka við nokkrir dagar þar sem við náum áttum og hlúum hvort að öðru. En svo vitið þið að ég er á lausu og get nú farið að sinna því að bretta upp ermar og vinna. Aftur –takk fyrir allt, við elskum ykkur öll.“