Hugsjónamaðurinn Haukur Hilmarsson, sem lést árið 2018 í Afrin-héraði í Sýrlandi í loftárás Tyrkjahers á Kúrda sem barist höfðu við hryðjuverkasamtökin Isis, dvaldi í Grikklandi áður en hann hóf að verja byggðir Kúrda í Afrin-héraði, fyrir ásókn Isis-liða.
Haukur fór til Grikklands í kringum 2014 og þar bjó hann til ársins 2017. Til að byrja með vann hann við neyðarhjálp á Lesbos en þaðan kom flóttafólk í hrönnum á þeim árum, oft illa farin eftir ferðalag yfir hafið. Var hann þar í um þrjá mánuði en flutti þá til Aþenu.
Nýlega birtust tvær ljósmyndir í lokuðum hópi vina Hauks en þar sést málverk sem málað hefur verið af Hauki í hverfinu sem hann bjó í í Aþenu. Það er því víst að Haukur snerti líf fólks, hvert sem hann fór.
Einn vina Hauks skrifar við myndbirtingarnar: „Það vantar svona í Reykjavík“