Föstudagur 27. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Mamma og amma gengu í gegnum algjört helvíti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnar Þór Sæmundsson byrjaði ungur að drekka og nota eiturlyf og það tímabil sem hann var í neyslu hefur sett stórt stik í reikninginn hjá honum og aðstandendum hans. Núna eru þrjú ár liðin síðan hann varð edrú og síðan þá hefur hann unnið að því að vinna traust vina og fjölskyldu til baka.

Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir fíknisjúkdóma hafa mikil áhrif á aðstandendur þeirra einstaklinga sem glíma við fíkn. Unnar viðurkennir að hans neysla hafi haft mikil áhrif á hans nánustu.

„Ég byrjaði að drekka og nota eiturlyf um fermingaraldur. En eftir 10. bekk varð neyslan meiri. Ég var búsettur á Flúðum á þeim tíma og það var mikið mál að verða sér úti um eiturlyf þarna á þessum tíma,“ segir Unnar og viðurkennir að hann hafi haft mikið fyrir því að nálgast eiturlyf. „Ég þurfti að láta senda pakka með rútunni,“ bætir hann við og hlær.

Unnar segist oft hafa velt því fyrir sér hvað olli því að hann byrjaði að nota eiturlyf. „Ég hef oft reynt að skilja af hverju ég varð fíkill. Vinir mínir sem hafa verið í neyslu eru allir með einhverja áfallasögu á bakinu en ég varð ekki fyrir neinu áfalli. Ég átti góða æsku og góða fjölskyldu. En ég var ofvirkur og með athyglisbrest og í litlu samfélagi geta fordómar verið miklir. Ég varð fljótt svarti sauðurinn í sveitinni,“ útskýrir hann.

„…ég gat ekki lifað með sjálfum mér í óbreyttu ástandi.“

Unnar segist hafa verið umtalaður í sveitinni enda lét hann oft eins og hálfviti eins og hann orðar það. Þetta varð til þess að Unnar fór í hálfgert hlutverk og gerði í því að láta illa. „Ég fann fljótt að þegar fólk var hrætt við mig þá var það síður að skipta sér af mér. En eyðileggingin var algjör og ég gat ekki lifað með sjálfum mér í óbreyttu ástandi. Þannig að ég fór að breyta líðan minni með eiturlyfjaneyslu í auknum mæli.“

Fjölskyldan gekk í gegnum helvíti

Þegar hann er spurður út í aðstandendur sína og áhrif neyslunnar á þá segir Unnar að hegðun hans hafi vissulega sett líf hans nánustu úr skorðum. „Þau gerðu allt sem þau gátu til að hjálpa. Það hefði enginn getað gert neitt betur. Þau gerðu ýmislegt til að grípa inn í enda voru þau hrædd um mig. En mér var bara skítsama því sjálfsblekkingin var mikil á þessum tímapunkti.“

- Auglýsing -

Unnar segir fíkn hans hafa haft sérstaklega mikil áhrif á mömmu hans og ömmu.

„Þær tóku þetta nærri sér. Mamma beið bara eftir að ég yrði tekinn úr umferð eða myndi deyja. Mamma og amma sváfu ekki á nóttunni og gengu í gegnum algjört helvíti. Aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma ganga í gegnum helvíti og ég hef stundum sagt að þeir gangi í gegnum meira helvíti en fíkillinn sjálfur því þeir sitja heima með kvíðahnút í maganum. Þeir hafa enga leið til að deyfa sig,“ segir Unnar.

„Aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma ganga í gegnum helvít.“

Hann bætir við: „Í hvert skipti sem síminn hringdi hjá mömmu þá var hún viss um að það væri verið að láta hana vita að ég væri dáinn. Ég gerði nokkrar tilraunir til sjálfsvígs og mamma fékk einu sinni símtal um miðja nótt þar sem henni var sagt að ég væri þungt haldinn á spítala. Henni var sagt að drífa sig til mín ef hún ætlaði að ná að kveðja mig, það leit úr fyrir að ég ætti ekki langt eftir. Þannig að vanlíðanin og áhyggjurnar sem ég hef valdið henni, guð minn góður.“

- Auglýsing -
Unnar viðurkennir að hafa lagt mikið á mömmu sína og ömmu á þeim tíma sem hann var í neyslu.

Eftir mikla sjálfsvinnu hefur Unnar ákveðið að tala opinskátt um þetta tímabil í lífi hans sem spannar um 11 ár. Hann hefur þá unnið að því að vinna traust fólks til baka.

„Ég hef verið opinn og talað opinskátt um þetta. Ég tók meðvitaða ákvörðum um að ég gæti ekki farið leynt með fortíðina mína. Þá fyrst myndi fólk reyna að nota fortíðina gegn mér,“ segir Unnar sem starfar sem gjaldkeri framkvæmdaráðs Pírata. Hann segist afar þakklátur því trausti sem sér hefur verið sýnt innan flokksins. „Þetta traust sem mér hefur verið sýnt … það sannar bara að allir eiga séns. Það skiptir ekki máli hver þú ert. Það geta allir komið sér á beinu brautina aftur.“

Spurður út í traust hans nánustu gagnvart honum, svarar Unnar: „Samskiptin við mömmu og ömmu eru góð í dag og mér þykir svo vænt um að fólkið mitt er farið að treysta mér aftur. Ég tek það samt fram að ég hætti fljótt að ljúga að mömmu eftir að ég fór í neyslu, ég reyndi að svara henni alltaf, segja henni hvað ég væri að gera og hvaða lyf ég væri að taka inn. Ég veit ekki hvort henni fannst það betra, að vita hvað væri í gangi nákvæmlega, en hún sagði mér að sér þætti það betra.“

Spurður út í hvort hann telji að hann sé búinn að brenna einhverjar brýr að baki sér varanlega svarar hann játandi.

„Þannig að fólk er með varann á gagnvart mér og ég skil það vel.“

„Já. En ég set samt fyrirvara við orðið „varanlega“, því maður veit aldrei. Ég vil leyfa fólki að ákveða þetta með sjálfu sér, hvort það vill bætt samband við mig eða ekki. Ég vil ekki heimta það. Ég er tilbúinn til að bæta fyrir það sem ég hef gert en ég hef óneitanlega lagt mikið á fólk, alla stórfjölskylduna meira að segja. Þannig að fólk er með varann á gagnvart mér og ég skil það vel. Ég get ekki verið reiður ef fólk vill ekki eiga í samskiptum við mig, ég veit ekki hvernig mér myndi líða ef einhver væri búinn að bregðast mér svona oft.“

Ætlar að vera til staðar fyrir dóttur sína

Unnar varð faðir í fyrsta sinn í maí 2015. „Dóttir mín var nokkurra mánaða þegar ég datt í það í síðasta sinn, fyrir rúmum þremur árum. Fíknin getur nefnilega verið sterkari en foreldraástin. Ég rankaði við mér inni á geðdeild eftir að hafa verið meðvitundarlaus í þrjá daga, stútfullur af dópi og með lungnabólgu. Þá hugsaði ég; fokk, ég má ekki bregðast dóttur minni aftur. Aldrei aftur. Og það hefur verið mitt markmið síðan þá, númer eitt, tvö og þrjú, að standa mig fyrir hana,“ útskýrir Unnar.

„Ég vona að það sé líka gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að lesa um mína sögu. Vonandi veitir það von,“ segir Unnar.

Þó að Unnar sé á góðum stað í dag, stað sem hann hefði ekki trúað að hann kæmist á fyrir nokkrum árum, þá á hann mikla vinnu fram undan að eigin sögn.

„Ég er auðvitað búinn að sóa miklum tíma í neyslu, afbrot og ógeð. Og ég finn að ég er pínulítið eftir á hvað ýmislegt varðar vegna neyslunnar. Stundum staldra ég við og sé að það er margt sem ég þarf að læra betur. En ég tel mig vera kominn langt og ég hef verið að setja mér verkefni, til dæmis sem snúast um að tala fallega til fólks og vera duglegur að hrósa. Þetta eru litlir hlutir.“

„Það voru til dæmis allir búnir að gefast upp á mér á sínum tíma og fólk var alveg hætt að treysta mér.“

Að lokum vill Unnar hughreysta fólk sem er í sömu stöðu og hann var í fyrir nokkrum árum. „Það er alltaf séns. Alltaf. Það voru til dæmis allir búnir að gefast upp á mér á sínum tíma og fólk var alveg hætt að treysta mér. Ég var bara „lost case“ en ég hef náð engum smáárangri á síðustu þremur árum. Þannig að það er alltaf von. Þú þarft að vinna vinnuna, það gerir það enginn fyrir þig, og það verður erfitt. En það jafnast ekkert á við það sem þú færð til baka. Ég vona að það sé líka gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að lesa um mína sögu. Vonandi veitir það von.“

Sjá einnig: Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -