Mannanafnanefnd samþykkti fjórar beiðnir um ný nöfn fyrr í mánuðinum. Nefndin hafnaði þá tveimur beiðnum, m.a. beiðni um nafnið Lucifer.
Mannanafnanefnd samþykkti fjórar beiðnir um ný eiginnöfn með úrskurðum 6. nóvember. Nöfnin sem nefndin samþykkti eru karlmannsnöfnin Rey, Charles, Ilíes og kvenmannsnafnið Elja.
Nöfnin sem nefndin hafnaði er kvenmannsnafnið Zelda og karlmannsnafnið Lucifer.
„Ritháttur nafnsins Zelda getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn z telst ekki til íslenska stafrófsins, sbr. auglýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins,“ segir meðal annars í úrskurði um nafnið Zelda.
„Þar sem nafnið Lucifer er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama. Auk þess getur ritháttur nafnsins Lucifer ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn c telst ekki til íslenska stafrófsins,“ segir þá um nafnið Lucifer.