Réttarhöld vegna manndrápsins í Mehamn í Noregi, þar sem Gunnar Jóhann Gunnarsson er ákærður fyrir að hafa orðið hálfbróður sínum að bana, munu fara fram 21. september.
Gunnar Jóhann er ákærður fyrir manndráp af yfirlögðu ráði í apríl í fyrra, fyrir að skjóta Gísla Þór Þórarinsson í lærið, en kúlan hæfði slagæð og blæddi Gísla Þór út.
Gunnar og lögmaður hans bera því við að um slysaskot hafi verið að ræða.
Réttarhöldin áttu að fara fram í desember 2019, en var frestað til 23. mars. Þá var þeim aftur frestað, sökum gruns um kórónuveirusmit í fangelsinu þar sem Gunnar er í gæsluvarðhaldi.
Sjá einnig: Réttarhöldum yfir Gunnari frestað – Grunur á COVID-19 smiti i fangelsinu að sögn Heiðu systur hans
Heiða Þórðardóttir, hálfsystir Gunnars og Gísla var í forsíðuviðtali Mannlífs í haust.
„Þetta hefur náttúrlega verið alveg svakalega erfiður tími,“ sagði Heiða. „Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys.“
Sjá einnig: „Ég get ekki hatað bróður minn“