Þríeykið, Víðir Reynisson, Alma Möller og Þórólfur Guðnason voru valin Manneskjur ársins hjá Rás 2 og DV. Það er engu líkara en Íslendingar hafi mitt í kórónafárinu gleymt þeirri manneskju sem bræddi hjörtu landsmanna fyrr á árinu svo þeir voru að rifna úr stolti, sú manneskja komst ekki einu sinni á lista hjá DV yfir þau sem voru tilnefnd.
Leikarinn Felix Bergsson rifjar upp á Twitter hvaða hetju og fyrirmynd Íslendingar gleymdu í lok árs. Sú manneskja er fyrsti og eini Óskarsverðlaunahafi Íslendinga, Hildur Guðnadóttir. Felix segir:
„Það er dáldið magnað og dáldið sorglegt að Hildur Guðna hafi ekki verið manneskja ársins á öllum listum. Afrek hennar árið 2020 verður aldrei endurtekið.“
Hildur var aðeins fjórða konan í 92 ára sögu Óskarsverðlaunanna til að hljóta Óskarsverðlaun fyrir frumsamda tónlist. Þá er Hildur fyrsta konan til þess að vinna verðlaunin í flokki frumsaminnar kvikmyndatónlistar síðan akademían sameinaði alla undirflokka tónlistarverðlaunanna árið 2000.
Sigurður Viktor Úlfarsson tjáir sig undir þræði Felix Bergssonar:
„Fyrr á árinu las ég að hún væri búin að vinna 10 helstu verðlaun í kvikmyndatónlist. Óskarinn, BAFTA, Golden Globe, People’s Choice og öll hin. Áður en Hildur kom höfðu öll þessi verðlaun frá upphafi veitt samanlagt 6 styttur til kvenna. Núna eru þau orðin samanlagt 16 eftir að Hildur bætti við 10 styttum. Talandi um að láta glerþakið finna fyrir því!“
Hildur heillaði salinn upp úr skónum þegar hún hélt sína ræðu og hluti ræðunnar fór á mikið flug á samfélagsmiðlum, þegar hún sagði:
„Til stelpnanna, til kvennanna, til mæðranna, til dætranna, sem heyra í tónlistinni rísa upp að innan; látið í ykkur heyra. Við þurfum að heyra raddir ykkar.“