Föstudagur 25. október, 2024
1.5 C
Reykjavik

Mannlegt eðli og tuðþörf alltaf söm við sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlamennirnir Haukur Viðar Al­­freðs­son og Kjartan Guðmundsson ­halda úti hlaðvarpinu Í frjett­um er ­þetta elzt þar sem þeir rifja upp gamlan og á köflum kostu­legan fréttaflutning.

„Við vildum bara koma með aðra nálg­­un á „fréttir vikunnar“, „efst á baugi“, „í vikulok­in“–samantektirnar sem allir þekkja af öllum miðlum,“ segir Haukur þegar þeir eru beðnir um að lýsa hlaðvarpinu í stuttu máli. „Fréttir eru í eðli sínu frekar ein­nota,“ heldur hann áfram. „Þær úreldast á u.þ.b. sólarhring og sjást aldrei aftur, nema við eitthvað grúsk. Svo hefur blaðamennska breyst gríðarlega í gegnum tíðina, ásamt orðfæri blaðamanna og við­­mælenda. Það er gaman að rifja það upp.“

Bítlarnir og karókí

Í fyrsta þættinum fjölluðu Hauk­­ur og Kjartan um Bítlaæðið á 7. áratug síðustu aldar og umfjöll­un íslenskra fjölmiðla um það. Kjartan segir að það hafi verið fróðlegt að sjá hvernig var skrif­að um þessa fjóra „lubbakarla“ frá Liverpool og hvernig þeir trylltu ungmenni þess tíma, sér í lagi „telpu­­krakkana“ eins og það er orðað í einni gamalli ­grein.

„Svo höfum við fjallað um Frostaveturinn mikla 1918 og hörmungarnar sem þá áttu sér stað,“ lýsir hann. ­„Næsti þáttur segir svo frá innreið kara­ókísins til Íslands í upphafi 10. áratugarins. Í einni af fyrstu fréttunum um karaókíið stakk einhver blaðamaðurinn upp á að það yrði nefnt „meðhjálparinn“ á íslensku, en sú íslenskun náði augljóslega ekki góðri fótfestu.“

Spurðir hvaðan hugmyndir að viðfangsefnunum komi svara þeir að á meðan aðrir djamma sitji þeir félagaranir heima hjá sér á síðkvöldum og skoði Tímarit.is. „Þannig að við erum með langan lista af umfjöllunarefnum sem stækkar í sífellu.“

- Auglýsing -

Kjartan bætir við að það sé hreint út sagt stórkost­leg skemmtun að fara yfir þennan gamla frétta­flutning og gaman að sjá hversu margt hefur breyst, en um leið breytist ekkert. „Les­endabréf blaða­nna eru til að mynda sér­­kapí­­tuli út af fyrir sig. Áhersl­urn­ar breytast kannski milli ára og ára­tuga en umkvörtunarefnin eru í meginatriðum þau sömu í dag og fyrir hundrað árum. Mannlegt eðli og tuðþörf eru söm við sig.“

Saga og þróun handklæðisins

En hvernig kviknaði hugmynd­in að hlaðvarpinu?

„Við höf­um eytt ómældum tíma og orku í að spjalla saman á Netinu í mörg ár um allt og ekkert og þykir gaman að tala saman og sýna hvor öðr­um alls konar ­hluti, ekki síst gamlar frétt­ir, eins lúðalegt og það nú er,“ viður­kennir Kjartan. „Þegar hugmynd­in að hlaðvarpi kviknaði datt okkur fyrst í hug að gera langa seríu um sögu og þróun handklæðisins á Vestur­lönd­um, en ákváðum svo að ­víkka pælinguna aðeins út og hafa öll áhugaverð fréttamál síðustu aldar eða svo undir.“

- Auglýsing -

Eruð þið miklir áhuga­menn um sögu?

Eða tengist þetta kannski frekar áhuga á fjöl­miðl­um? „Svo ég tali nú bara fyrir sjálfan mig,“ segir Haukur,

„snýst þetta meira um framsetn­ingu at­burð­anna heldur en atburðina sjálfa. Ef Bítlaþátt­urinn hefði til dæmis bara fjallað um sögu Bítlanna hefði hann eflaust verið bara eins og hver annar Bítlaþáttur, en ­þegar fókusinn var kominn á umfjöllun íslenskra fjöl­­miðla um fyrirbærið á sín­um tíma, við­brögð ­íslenskra ung­menna og fleira fannst mér það fyrst orðið áhugavert.“

En hvar nálgast maður hlað­­varp­­ið?

„Þátturinn er kom­­inn í þessi helstu öpp og við miðum við 2-3 þætti á mánuði,“ svarar hann. „Það tekur mislang­an tíma að undirbúa hvern þátt og við viljum ekki setja okkur einhverja deddlæn sem við stöndum svo ekkert við. En við lofum að vera nokkuð ­duglegir.“

Uppáhaldshlaðvörp

„Ég er í raun alæta á umfjöllunarefni ef hlaðvarparnir sjálfir eru skemmtilegir. Þá get ég alveg hlustað á þá röfla endalaust um eitthvað sem ég hef jafnvel hvorki hundsvit né áhuga á. En af föstum liðum eru Marc Maron og Bill Burr mínir menn. Hálfgerðir síkópatar að röfla um ekki neitt.“ – Haukur

„Ég hlusta aðallega á fótbolta- og körfuboltahlaðvörp þar sem ég er mikill áhugamaður um hvort tveggja. Það er svo mikið af þessum sporthlaðvörpum í gangi að það er í raun full vinna að fylgjast með, en þrjú sem ég reyni að missa alls ekki af eru Liverpool-podcastið Anfield Wrap, Innkastið hjá Fótbolta.net ogLakers Nation, sem fjallar um NBA-liðið Los Angeles Lakers.“ – Kjartan

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -