Mánudagur 13. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Mansalshringir herja á Airbnb-eigendur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gistihúsaeigandi sem rekur Airbnb-þjónustu á höfuðborgarsvæðinu óttast að mansalshringir notfæri sér þjónustu hans til að gera út konur í vændi. Óvenju tíðar ferðir og grunsamleg hegðun gesta, vandamál við greiðslur og óvenjulegar matarvenjur vöktu grunsemdir eigandans sem gerði lögreglu viðvart. Sökum manneklu getur lögreglan hins vegar lítið gert nema hún grípi viðkomandi glóðvolga.

Nota stolin kreditkort til að kaupa gistingu

Gistihúsaeigandinn, sem vildi ekki koma fram undir nafni af ótta við að það hafi neikvæð áhrif á orðspor fyrirtækisins, lýsir upplifun sinni í samtali við Mannlíf. Eins og algengt er með gistihús eins og hér um ræðir eru íbúðirnar bókaðar á Netinu í gegnum bókunarsíður og greitt fyrir með kreditkorti. Kaupandinn fær síðan staðfestingu í tölvupósti ásamt upplýsingum um staðsetningu og sérstakan talnalykil til að komast inn í íbúðina. Gesturinn sér því alfarið um að innrita sig sjálfur. Þetta hafa óprúttnir aðilar notfært sér í auknum mæli. „Það er að færast í aukana að greiðslur falla til baka 2-3 vikum eftir að fæslan hefur farið í gegn, þegar maður fær tilkynningu frá innheimtuaðilanum að greiðslan sé afturkölluð. Búið að greiða og allt gengur í gegn en þá kemur í ljós að eigandi kortsins kannast ekki við færsluna og tilkynnir það kortafyrirtækinu. Greiðslan er þá afturkölluð og tjónið lendir á mér,“ segir gistihúsaeigandinn og bætir við að hann hafi sömu aðila grunaða um að stunda vændisstarfsemi í íbúðunum.

Keyrðar fram og til baka og nærast á dósamat

Gistihúsaeigandinn segir að hann hafi orðið var við óeðlilega mikla umferð um íbúðirnar  og því verið á varðbergi. Gestirnir, kúbanskar konur, hafi stundum staðið fyrir utan og reykt sem hann gerði athugasemd við. „Ég sé hvenær lásarnir á íbúðunum eru opnaðir, það er skráð í gagnagrunn. Í þessum tilfellum hafa lásarnir verið opnaðir á klukkutíma fresti, sem er mjög óeðlilegt,“ útskýrir hann og segist í kjölfarið hafa leitað til lögreglu sem mætti á staðinn. Þá voru konurnar ekki inni og lítið sem lögregla gat aðhafst. Maðurinn telur einnig að konurnar séu fórnarlömb mansals.

„Íbúðirnar eru vanalega bókaðar í 4-5 daga yfir helgi. Konurnar koma stundum á réttum degi, en fara gjarna á sunnudegi eða mánudegi þótt íbúðin sé bókuð fram á fimmtudag. Ég get ekki verið viss um annað en að þær standi sjálfar á bak við bókanirnar. Ástæðan fyrir því að ég tel svo ekki vera er aðbúnaður kvennanna. Koma þeirra er greinilega undirbúin, sami leigubílstjórinn hefur komið með þær á staðinn og þær fara ekkert nema vera sóttar og borða aðeins það ódýrasta sem hægt er að fá, hakkaða tómata og aðrar niðursuðuvörur. Maður sér það þegar maður tæmir ruslið, ekkert nema niðursuðudósir. Ódýrasta íbúðin er alltaf valin og hún bókuð deginum áður jafnvel,“ segir hann og bætir við: „Það er einfaldlega ekki þannig að fólk sem kemur til að heimsækja Ísland bóki deginum áður en það kemur. Ef ég reyni að spyrjast fyrir og leita upplýsinga, þá er fólkið búið að pakka og farið.“

Fljótir að hverfa ef grunsemdir vakna

- Auglýsing -

Síðastliðinn laugardag hringdi karlmaður á gistiheimilið, hann hafði bókað sex gistinætur daginn áður, úr leyninúmeri. „Hann spurði hvernig hann kæmist inn en allir sem bóka fá strax sendan tölvupóst með slíkum upplýsingum. Hann segist ekki hafa fengið póstinn svo ég lét hann gefa mér upp netfang og sendi aftur. Þá sá ég að nafnið á netfanginu passaði ekki við greiðanda. Þegar ekki var svarað í símanúmerinu sem hann gaf upp, fletti ég því upp og komst að því að þetta var falskt númer fyrir Bretland, en nafnið á netfanginu var austur-evrópskt. Eftir að maðurinn játaði því að hann væri að koma sjálfur, minnti ég hann á að taka með sér vegabréf og kreditkortið sem greitt var með. Maðurinn kom aldrei svo ég læsti lásunum að íbúðinni, viðkomandi hefði því þurft að hringja í mig til að komast inn,“ útskýrði gistihúsaeigandinn og bætti við að ljóst mætti vera að þessir aðilar létu sig hverfa um leið og grennslast væri fyrir um þá.

Sprenging í vændi

Lýsing gistihúsaeigandans kemur heim og saman við það sem lýst er í árlegri skýrslu Ríkslögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Þar er „sprenging“ í vændi sett í samhengi við mikla fjölgun ferðamanna og uppgang í efnahagslífinu. Í skýrslunni segir að sumar þær erlendu kvenna sem stunda vændi séu sendar um lengri eða skemmri tíma til landsins og að baki búi nauðung. Telur lögreglan að hluti starfseminnar tengist skipulögðum glæpasamtökum. Í einhverjum tilvikum fylgi erlendir karlmenn konunum og hafi eftirlit með þeim á meðan þvær dveljast hér. Konunrnar fá við komuna íslensk símanúmer og hafi aðstöðu í leigugistingu. Sökum manneklu og „afleiddrar nauðsynlegrar forgangsröðunar“ hefur lögreglan ekki haft tök á að rannsaka þetta frekar.

- Auglýsing -

Ljóst er að misnotkun vændishringja á leigugistingu er ekki bundin við Ísland. Fyrr á árinu tilkynnti Airbnb að fyrirtækið hyggðist grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að vændishringir breyti leiguíbúðum í „skyndi-vændishús“ (e. pop-up brothels). Er Airbnb í samstarfi við grasrótarsamtökin Polaris sem berjast gegn mannsali þar sem starfsmenn verða þjálfaðir sérstaklega í að koma auga á mögulegt mansal.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -