Föstudagur 15. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Már Gunnarsson syngur í Söngvakeppninni: „Viðlagið kom til mín í kafi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Systkinin Már Gunnarsson og Ísold Wilberg koma fram sem Amarosis í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á fyrra undanúrslitakvödinu, 16. febrúar, og flytja þá lagið Don’t you know.

„Amaurosis er augnsjúkdómurinn minn,“ segir Már sem er blindur vegna augnsjúkómsins Leber congenital amaurosis. „Við breyttum stafsetningunni aðeins. Amaurosis lítur ekki jafnvel út og Amarosis þannig að við ákváðum að taka „u“ út.“ Og úr varð heitið Amarosis. Nafnið Amarosis er hugmynd sem er búin að vera til í svolítið langan tíma; við Ísold höfum aldrei vitað almennilega hvað við ættum að gera við hana og okkur finnst núna vera tækifæri.“

Og ég er ótrúlega stoltur af því að við erum að gera þetta saman sem systkini í söngvakeppninni.

Systkinin sömdu saman bæði lag og texta. „Fyrsta hugmyndin að laginu kom til mín þegar ég var í smádeitingveseni; það var smádrama í gangi. Ég var að fara á sundæfingu og hoppaði ofan í laugina og þegar ég var kominn í kaf þá kom viðlagið til mín og ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við þetta og heyrði í Ísold. Við gerðum síðan lagið að því sem það er í dag. Og ég er ótrúlega stoltur af því að við erum að gera þetta saman sem systkini í söngvakeppninni.“

Systkinin hafa áður unnið saman í tónlistinni og segir Már að það sé æðislegt að vinna með systur sinni. „Við erum systkini og það kemur alls konar upp; við erum rosalega góð saman. Ísold er æðisleg og við jöfnum hvort annað ofboðslega vel út. Ég held að fólk taki alveg eftir því að við erum systkini; við högum okkur stundum í samræmi við það en okkur þykir rosalega vænt um hvort annað. Styrkleikar okkar vinna með hvor öðrum. Ísold er að mínu mati hin fullkomna söngkona. Hún getur sungið allt; allt frá rólegum lögum upp í þungarokk. Hún lifir sig 100% inn í hverja einustu setningu. Hún er meiri söngkona heldur en ég er söngvari.“

Hvernig myndi Már lýsa sér sem söngvara?

„Ég get ekki lýst því,“ segir hann og hlær. „Ég reyni bara eitthvað að opna munninni og syng eitthvað.“

Þetta er pínu popplag.

- Auglýsing -

Már segist ennþá vera tónlistarmaður í þórun og að hann vonist til að verða það alla ævi. „Ég er að reyna að finna út hvar mínar áherslur liggja. Ég er að hluta til dálítið gamaldags. Ég er dálítið fyrir stórar og miklar laglínur; ég er dálítið fyrirferðarmikill karakter. Síðan þykir mér gaman að prófa nýja hluti og ég er aðeins að reyna að einbeita mér að því eins og „Don’t you know“ er aðeins öðruvísi lag en ég hef samið áður. Þetta er pínu popplag. Meira popp.“

Hvað með áherslur í texta lagsins?

„Ég ætla ekki að segja að textinn sé dramatískur en hann er aðeins alvarlegri en laglínan gefur til kynna og okkur þykir það vera skemmtilegt tvist. En lagið er hresst; þetta er stuðlag og við vonum að þetta sé eitthvað sem fólk gæti hugsað sér að dilla sér við eða hafa gaman af. Við höfum allavega gaman af þessu lagi og við komumst alltaf í gír þegar við hlustum á þetta eða syngjum þetta.“

- Auglýsing -
Már Gunnarsson
Systkinin Már Gunnarsson og Ísold Wilberg sem keppa í undankeppni Eurivosion í ár sem Amarosis.

Nýlega birtist frétt um að upplýsingum um lög íslensku keppendanna sem og um þá sjálfa  hefðu lekið á netið, nánar tiltekið á vefinn Eurovision fun.

„Það er bara leiðinlegt. Þau hjá RÚV hafa lagt mikið á sig í kringum þetta og við að skipuleggja þetta og þau eru búin að hugsa um þetta fram og til baka; það er leiðinlegt að einhver sé að eyðileggja þetta. En annars hefur þetta engin áhrif á mig í sjálfu sér þannig séð.“

Már segir að það myndi gera helling fyrir sig og þau systkinin ef lagið kæmist áfram og þau tækju þátt í keppninni úti. „Þetta er að sjálfsögðu frábær auglýsing. Þetta er frábært tækifæri upp á til að mynda tengslanet og það yrði bara rosaleg viðurkenning ef þjóðin kysi okkur vegna þess að þetta er gríðarlega ströng keppni.“

Við Ísold stefnum ótrauð áfram á að taka upp og gefa út músík.

Burtséð frá Eurovision; er plata fram undan? „Við Ísold stefnum ótrauð áfram á að taka upp og gefa út músík. Og við erum með fullt af hugmyndum sem okkur langar til að framkvæma. Síðan er ég líka að vinna með Ivu, vinkonu minni. Við erum líka að semja saman músík og erum að fara að gefa út efni. Þannnig að það er margt skemmtilegt að gera. Og svo er það ég sjálfur líka. Bara Már.“

Hver er draumurinn varðandi tónlistina?

„Það á bara eftir að koma í ljós en mig langar til að taka upp meira efni og núna náttúrlega er draumurinn að komast í Eurovision.“

Már Gunnarsson
Már keppti í fyrra í sundi á Ólympíuleikum fatlaðra.

Uppbyggilegt og gefandi

Már er fyrir norðan. Hann er í fyrirlestraferð en hann heldur reglulega fyrirlestra og í þessari ferð heldur hann 11 fyrirlestra á Norðurlandi.

„Efir Ólympíuleikana fóru skólar að hafa samband við mig til að fá mig til að spjalla við nemendur í bæði grunn- og framhaldsskólum og meira að segja í háskólum. Það er orðið meira að gera í því og núna akkúrat er ég í svona ferð og hitti ég örugglega um 1000 krakka samtals í þessari törn. Svo verður vonandi skemmtilegt framhald á þessu síðar,“ segir Már sem keppni í fyrra í sundi á Ólympíuleikum fatlaðra í Tókýó.

„Ég segi á fyrirlestrunum frá minni sögu, hvernig er að alast upp með augnsjúkdóm og svo tala ég um tónlistina og afreksíþróttir og síðan sýni ég myndir frá Tókýó-ferðalaginu mínu. Þetta er ótrúlega skemmtilegt.“

Ég væri til í að fara í alla skóla á landinu; það væri algjör draumur.

Már segir að viðbrögð nemenda séu stórkostleg. „Krakkar hafa verið að senda mér prívat skilaboð eftir fyrirlestrana varðandi þá sem og krakkar sem hafa heyrt af fyrirlestrunum mínum og sem biðja mig um að koma í skólana til sín. Ég reyni að verða við óskum eins margra og hægt er. Ég væri til í að fara í alla skóla á landinu; það væri algjör draumur. Ég held að krakkar tengi við þetta af því að ég er ungur. Og viðbrögðin hafa verið frábær í þeim skólum sem ég hef farið í,“ segir Már sem hvetur áhugasama kennara og foreldra um að hafa samband við sig ef þeir hafa áhuga á að fá hann í heimsókn.

Már segist leggja áherslu á húmor á fyrirlestrunum. „Ég kem með fullt af efni sem ég reyni að setja saman á skemmtilegan hátt og ég vil að það sé hlegið og haft gaman á fyrirlestrunum mínum og síðan tek ég alltaf spjall með krökkunum eftir á og það koma alls konar skemmtilegar pælingar tengt því; eitthvað sem þeim dettur í hug.“

Hvert er markmiðið með þessum fyrirlestrum?

„Ég vil að hver og einn taki það úr fyrirlestrunum sem hver og einn tengir við; markmiðið er auðvitað að þetta á að vera uppbyggilegt og vonandi gefandi. Þetta er gefandi fyrir mig og vonandi er þetta gefandi fyrir þá sem mæta.“

Már er ungur og hæfileikaríkur og á sér stóra drauma. Hann var spurður um draumana varðandi tónlistina og er svo í lokin spurður um drauminn sem hann dreymdi um nóttina.

„Ég er á þessu hóteli fyrir norðan og mig dreymdi að þetta hótel væri bæði hótel og tónlistarskóli og það voru krakkar farnir að æfa á blokkflautur klukkan sex um morguninn. Það var það sem mig dreymdi í nótt.“

Hvaða lag voru þeir að spila?

„Það var einhver hryllingur. Þetta var ekkert eyrnakonfekt.“

Már Gunnarsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -