Fimmtudagur 23. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Már hefur ítrekað sagt okkur sek

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Seðlabankinn haft „ótrúlegt“ hugmyndaflug í að búa til glæpi, segir forstjóri Samherja.

 

Atburðarás sem hófst 27. mars 2012 lauk í síðustu viku með sýknudómi Samherja í Hæstarétti. Seðlabanki Íslands skipulagði og framkvæmdi húsleit á starfsstöðvum Samherja árið 2012 og í kjölfarið lýsti bankastjóri SÍ því yfir að grunur léki á tugmilljarða undanskotum á gjaldeyri á vegum fyrirtækisins, en á þessum tíma voru gjaldeyrishöft á Íslandi og skilaskylda á gjaldeyri. Á þeim tæplega sjö árum sem liðin eru hefur komið í ljós að ekkert var hæft í ásökunum bankans og smám saman hefur málarekstur bankans rýrnað í roðinu, þar til nú, að Samherji hefur verið sýknaður af öllum ákærum.

„Ég bjóst ekki við neinu öðru,“ segir Þorsteinn Már Baldursson um niðurstöðu Hæstaréttar.

Um upphaf málsins segir hann að fréttastofu RÚV hafi verið gert aðvart um húsleitina áður en hún fór fram. „Fjölmiðlar eru boðaðir á staðinn áður en húsleitarmenn koma til. Þarna eru mættir sjónvarpsmenn frá RÚV bæði í Reykjavík og Akureyri, þeir hafa þurft að taka kvöldvélina, þá send tilkynning um húsleitina um allan heim bæði á íslensku og ensku. Þá var send fréttatilkynning um kæru áður en kæran var send Sérstökum saksóknara.“

Þorsteinn Már undrast þrákelkni stjórnenda Seðlabankans í málinu. „Manni leið alltaf [eins og] að [Seðlabankann] vantaði bara eitthvað til að málinu lyki ekki.“ Kæruefnin fengu öll efnislega meðferð hjá Sérstökum saksóknara. Ekkert kom fram við skoðun Sérstaks saksóknara sem benti til vísvitandi undanskota Samherja.

„Við höfðum rekið sölufyrirtæki á Íslandi til fjölda ára. Við höfðum selt afurðir fyrir erlend fyrirtæki, en þegar gjaldeyrislögin komu urðum við að taka peningana heim, við vorum til dæmis að selja grálúðu fyrir þýskan togara, en auðvitað á þýska fyrirtækið aflaverðmætið, en við vorum að taka fast hlutfall fyrir að selja fiskinn. Þá urðum við að taka peningana heim, en svo að sjálfsögðu að skila honum til Þýskalands.[…] Sérstakur saksóknari fjallaði um fiskverð, gjaldmiðlaskil og svo framvegis og komst að þeirri niðurstöðu að allt væri í standi, þá fann [Már] upp á þessu,“ segir Þorsteinn Már um tilraunir Seðlabankans til að halda lífi í málinu, þrátt fyrir að saksóknari sæi ekki ástæðu til ákæru.

- Auglýsing -

„Már er búinn að segja ítrekað í fjölmiðlum að við séum sek,“ segir Þorsteinn Már og telur að það sé lögbrot af hálfu valdamikils embættismanns að fella þennan dóm gagnvart saklausu fólki.

Bankinn hefur ótakmarkaða peninga til að verja sig og hefur haft ótrúlegt hugmyndaflug í að búa til á okkur glæpi.

Hann álítur Seðlabankann hafa hrakist vígi úr vígi á þessum árum sem liðin eru frá húsleitinni. „Það er svo oft sem kemur fram skýr ásetningur hjá Seðlabankanum. Eins og þegar þeir segjast hafa fundið gögn sem staðfesti undirverðlagningu. Málið snerist um fjórtán sölur á sjófrystum flökum, fjórar til Póllands og tíu til tengds aðila í Bretlandi. Það vill svo til að allar sölurnar til Englands eru á hærra verði en til Póllands. Það eina sem þú sérð út úr þessu er að þeir blönduðu saman pundum og evrum.“

Hann segist ekki vera einn í Samherja. „Það vinna mörg hundruð manns hjá fyrirtækinu. Það er búið að kæra þónokkra einstaklinga, fólk verður að skilja að það að vera með stöðu sakbornings í mörg ár, með bankastjórann gapandi hægri vinstri – það er mjög þungbært.“

- Auglýsing -

Spurður að því hvort málinu sé lokið segir Þorsteinn Már: „Bankinn hefur ótakmarkaða peninga til að verja sig og hefur haft ótrúlegt hugmyndaflug í að búa til á okkur glæpi. Fyrir mér þá verður þessu máli að ljúka. Því verður aldrei lokið nema að Már Guðmundsson víki. Hann er búinn að brjóta svo illa af sér í opinberu starfi.“

Texti / Sigmundur Ernir Rúnarsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -