Mikilvægt er að gera greinarmun á barnaníði og barnagirnd. Ekki allir sem haldnir eru barnagirnd brjóta af sér og ekki allir sem brjóta af sér eru haldnir barnagirnd.
Barnagirnd er sögð fela í sér ítrekaðar æsandi fantasíur, hvatir eða hegðun er varðar kynferðislega athöfn með barni en samkvæmt umfjöllun NY Times er ýmislegt sem bendir til þess að barnagirnd megi rekja til líffræðilegra þátta.
Því hefur löngum verið haldið fram að þeir sem brjóta gegn börnum hafi oftar en ekki verið misnotaðir í barnæsku en vísindamenn sem hafa tekið viðtöl við dæmda barnaníðinga segja það ekki standast skoðun. Þá eru tengslin milli þess að stunda barnaníð og neyta barnaníðsefnis á Netinu umdeild en nýjar rannsóknir benda til þess að ekki sé endilega um að ræða stigmögnun eins og áður var talið. Þannig leiddi ein rannsókn t.d. í ljós að um 60% viðmælenda sem sátu af sér dóm vegna neyslu barnaníðsefnis á Netinu hefðu áður brotið gegn barni.
Joe Sullivan, sérfræðingur í kynferðisofbeldi gegn börnum á Bretlandi og Írlandi, segir þannig rangt að draga þá ályktun að neysla barnaníðsefnis leiði menn til kynferðisbrota gegn börnum. „Það er mín reynsla að þessu sé öfugt farið. Flestir þessara manna hafa þegar brotið gegn barni,“ segir hann um þá sem neyta barnaníðsefnis.
Sjá einnig: Barnaníð grasserar á Netinu