Margrét Esther Erludóttir fatahönnuður átti erfiða æsku. Óregla var á heimilnu og frá unga aldri flakkaði hún á milli fósturheimila. Hún segir að á einu þeirra, sveitabæ norður í landi, hafi tveir nauðgað sér auk þess sem hún hafi meðal annars verið barin. „Þarna var ég algjörlega eyðilögð. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Eins og stendur í gögnum: „Hún labbar á veggi, hún talar við sjálfa sig…“ Þetta sýnir að barnið hefur ekki fengið ástúð eða umhyggju. Ég þurfti að reyna að komast út úr þessu án þess að vera mikið sködduð en ég er það.“
„Ég var sett á BUGL þriggja ára út af aðstæðum heima fyrir,“ segir Margrét Esther Erludóttir í viðtali við Hildi Maríu Sævarsdóttur. Margrét segir að aðstæður á heimilinu hafi verið sorglegar.
Margrét var tæplega fimm ára þegar móðir hennar lést. „Þegar móðir mín dó fór elsti bróðir minn til ömmu sinnar og afa og fékk að búa þar og ég og bróðir minn, Ingólfur, fórum á Dalbraut og vorum þar. Síðan þurftum við að fara í sveit og þar fengum við að vera í skóla. Við vorum líka hjá svo góðu fólki.“ Þar leið henni vel. „Fólk var svo gott við okkur. Svo vorum við úti að leika okkur og þá kom faðir minn og hann rændi okkur án þess að nokkur vissi af. Þá var ég send aftur á Dalbraut en bróðir minn var sendur heim til pabba síns.“
Æska mín var bara svo brotin.
Hún segir að hún hafi þrisvar sinnum tekið fyrsta bekk. „Æska mín var bara svo brotin.“
Margrét talar um rótleysið. Skort á ástúð og umhyggju. Hún segir að rúmlega 30 konur hafi á þessum tíma farið inn á heimilið, sumar á vegum Barnaverndarnefndar.
„Það vorur nokkrar konur mjög yndislegar,“ segir Margrét og nefnir þrjár þeirra. Guðfinnu Ingimardóttur. „Hún var ofboðsleg góð.“ Svo var það Bára. „Virkilega yndisleg persóna.“ Og þá var það Kristín.
Hún segist hafa reynt allt til að vera þæg. „En það gekk mjög sjaldan.“
Svo tóku við fleiri fósturheimili úti á landi og nefnir hún sveitabæ á Norðurlandi þar sem voru fleiri börn í fóstri og segir hún að þar hafi hún verið beitt ofbeldi og að sá tími og það ofbeldi valdi sér sársauka enn þann dag í dag.
Ég var barin dags daglega.
„Hvað ríkið, Barnavernd, vildi eyðileggja fólk. Börn. Þar var ég lamin. Ég var barin dags daglega. Ég sá á eftir skólabílnum á hverjum einasta morgni. Ég fékk enga kennslu á þeim bæ. Ég fékk smá að skrifa og lesa. Það var það eina sem ég fékk umfram allar þessar barsmíðar. Það var enginn að bjarga börnunum.“ Margrét segir að allar tennur í einni stúlkunni sem var í fóstri á bænum á sínum tíma hafi verið eyðilagðar þar sem hún hafi verið lamin svo illa.
„Þarna var ég algjörlega eyðilögð. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Eins og stendur í gögnum: „Hún labbar á veggi, hún talar við sjálfa sig…“ Þetta sýnir að barnið hefur ekki fengið ástúð eða umhyggju. Ég þurfti að reyna að komast út úr þessu án þess að vera mikið sködduð en ég er það.“
Nauðgað
Margrét segir að sonur hjónanna á bænum hafi nauðgað sér. „Ég var ekki há í loftinu, 12 – 13 ára gömul. Það var mikil drykkja á heimilinu og ég þurfti að sjá um að þrífa það. Svo nauðgaði bóndinn mér. Það var maður sem bjargaði mér,“ segir hún en það var maður úr sveitinni. „Hann reyndi að gera allt til að fólk vissi hvað væri að gerast á bænum.“
Þar vorum við lamin með hestasvipum og naglaspýtum, sérstaklega ég.
Félagsráðgjafi hitti Margréti og hjónin einn daginn og voru þau spurð hvort þau hafi lamið hana. „Nei, við gáfum henni bara kinnhest,“ segir hún að sagt hafi verið. „Það var miklu meira heldur en það,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið lamin meira eftir þennan fund. „Ég var tekin og barin. Þau settu okkur á sperru einn daginn; hann tók okkur og setti á okkur bönd. Þar vorum við lamin með hestasvipum og naglaspýtum, sérstaklega ég. Ég passaði upp á að krakkarnir myndu ekki þjást fyrir þetta. Engan veginn.“
Hún segir að þau hafi þrjú ætlað að strjúka en að það hafi ekki tekist.
Dvölin á þessum sveitabæ lauk árið 1986. Margrét fór suður og flutti þá á heimili og hóf nám við Öskjuhlíðarskóla sem kallast Klettaskóli í dag. Þar var hún í tvo vetur. „Þaðan fór ég í Iðnskólann í Reykjavík að læra fatahönnun. Ég útskrifaðist úr því.“
Hún fór svo á enn eitt heimilið og segir hún að þar hafi verið mjög erfitt að vera. „Það var rosalegt,“ segir hún og nefnir að einu sinni hafi verið sparkað í hana svo hún féll niður 12 tröppur og að maður hafi lagt hendur á hana og læst hana inni í sólarhring.
„Ég var í skólanum og reyndi að hlúa að sjálfri mér sem gekk erfðlega. Ég fór þaðan 1991 þremur eða fjórum vikum eftir að skólasystir mín var drepin á heimilinu. Hún var stungin 18 sinnum.“
Afþakkaði bætur
Margrét segist í dag vera að berjast fyrir sínu máli út af því misrétti sem hún varð fyrir frá þriggja ára til 21 árs. Hún segir að sér hafi nýlega verið boðnar bætur, sanngirnisbætur, en að hún hafi afþakkað þær á þeim forsendum að hún gæti ekki sótt um bætur á þeim forsendum að bærinn, þar sem hún var beitt ofbeldi, var ekki sett inn í. „Þannig að ég afþakkaði það og ég og lögmaðurinn minn erum að berjast fyrir því að réttlætinu verði náð. Og ég er ekkert á leiðinni að gefast neitt upp.
Ég er þannig persóna að ég ætla ekkert að láta undan. Réttlætinu skal vera náð,“ segir hún og nefnir unga fólkið sem var í fóstri á sama tíma og þau sem á eftir komu.
Margrét hitti lögfræðinginn sinn nýlega. „Hann vill fara með þetta beint fyrir dóm og hann segir að þetta eigi sér enga hliðstæðu; þessi rök fyrir sanngirnisbótum. Eins og ég sagði við hann þá er ég tilbúin að ganga eins langt og hægt er og hann ætlar að gera það líka. Honum finnst hræðilegt að ríkið skuli virkilega neita að greiða.“
Sýnið fram á að þetta sé staðreynd og satt.
Margrét segir að Barnaverndir Reykjavíkur og Kópavogs ættu að skammast sín. „Sýnið fram á að þetta sé staðreynd og satt. Ég ætla virkilega að halda áfram og hjálpa þessum börnum. Sannleikurinn verður að koma í ljós. Þetta er svo mikil ósvífni fyrir þessi börn. Ég hef aldrei fengið ást og umhyggju og börnin mín fengu alla skólagöngu en það fékk ég ekki. Ég var besti vinur þeirra og sýndi að manneskja eins og ég sem lenti í þessum hremmingum gat komið börnunum mínum til manns. Það finnst mér vera stórkostlegt að ég skuli geta það með enga aðstoð, enga móður, engan föður og engan að móður- eða föðurmegin. Ég stóð algjörlega ein og held því áfram ásamt manninum mínum, Ragnari.“