Leigusali mannsins sem er grunaður um grimmilega líkamsárás í heimahúsi í Borgarnesi er miður sín yfir málinu. Margrét Rósa Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Englendingarvíkur og staðarhaldari í Iðnó til fjölda ára, segist hafa leigt manninum í góðri trú. Fljótt kom í ljós að ekki var allt með feldu. Þetta skrifar hún innan Facebook-hóps Borgnesinga.
Atvikið átti sér stað á heimili hennar en hún leigði manninum herbergi þar. Árásin var eins hrottaleg og getur hugsast. Samkvæmt lýsingum DV voru mennirnir tveir félagar. Skyndilega stakk árásarmaðurinn á gest sinn og barði hann. Hann beit hann svo í andlitið og háls. Þolandinn er á sjúkrahúsi meðan óljóst er hvort árásarmaðurinn sé í gæsluvarðhaldi.
Margrét Rósa segist í fyrrnefndri færslu lítið vita um atvikið sjálft. Hún segist hafa lagt hjarta sitt í húsið en nú sé lögreglan búin að innsigla eitt herbergi þar. Hún vill ítreka að hún tengist manninum ekkert en sumir í bænum virðast hafa haldið það.
„Í erfiðleikum vegna Covid ákvað ég að leigja út í vetur herbergi í gistingunni hjá mér og auglýsti það. Einn maður sótti um og sagðist hann vera stundakennari á Bifröst og talaði ég við vin minn sem þar tengist og hann hitti á konu sem hafði unnið með viðkomandi og mælti hún með honum,“ lýsir Margrét Rós en rétt er að taka fram að viðkomandi hefur aldrei unnið hjá háskólanum, né raunar stundað þar nám.
Fljótlega hafi eitthvað óeðlilegt komið í upp en hún talar undir rós um það.
„Ég tók það gott og gilt og gerði við manninn samkomulag að hann leigði herbergið frá síðust mánaðamótum. Fljótlega kom í ljós að ekki var allt með feldu og hafði samband við hann og lofaði hann bót og betrun en annað kom í daginn og ég ákvað að segja honum upp núna um mánaðamót.“
Hún segist miður sín að hafa boðið honum til sín.
„Svo gerist þetta og mér þykir það mjög leitt og að líka hafi komið upp einhver misskilningur að þessi maður tengist mér persónulega og ég get fullyrt að ég þekkti þennan mann ekkert enda hefði ég ekki boðið honum herbergi í húsi sem ég er búin að gera upp og langt allt mitt hjarta í .Staðan eins og ég veit hana er að lögreglan er búin að innsigla herbergið og rannsóknarlögreglan komin til að rannsaka og ég veit ekkert hver fórnarlambið er“