Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Margrét nýorðin áttræð og gengur á fjöll þrisvar í viku: „Gefur mikið að vinna litla sigra“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margrét S. Pálsdóttir situr á steini uppi á Esju þegar blaðamaður hringir í hana sólbjartan júlídag til að einmitt spyrja hana út í fjallgöngurnar sem hún hefur stundað í þrjá áratugi.

„Ég var áður fyrr alltaf í leikfimi hjá Báru sem var og er enn vinsæl leikfimi. Svo bjó ég í Ameríku í fimm ár. Þegar ég flutti heim var mig farið að langa mikið til að fara að stunda fjallgöngur. Ég gekk í bæði Útivist og Ferðafélag Íslands. Útivist gaf þá út fjórblöðung og rak dóttir mín augun í auglýsingu aftan á blaðinu þar sem strákur var að auglýsa eftir fólki sem væri til í að koma með sér til Nepal því hann langaði að fara þangað með hóp. Dóttir mín spurði mig hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir mig af því að hún vissi að ég væri búin að fá þennan áhuga á göngum. Þarna var ég um fimmtugt. Ég hóaði í systur mína og mág og við fórum á kynningarfund vegna fyrirhugaðrar ferðar.“

Margrét hélt svo til Nepal þar sem hún gekk í Himalajafjöllunum.

„Það má segja að það hafi verið mín fyrsta fjallganga af því að ég var ekki byrjuð á þessu ennþá. Þetta var frekar auðvelt fyrir utan hæðina; maður fékk svolítið í hausinn. Hæðarveiki. Þetta var ekki erfið ganga af því að það var gengið á stígum og allt borið fyrir mann. En þar með var ég byrjuð að ganga og svo fór ég að stunda þetta.“

Vesen og vergangur 

Margrét fór svo að ganga hér heima og nefnir sérstaklega kraftgönguna í Öskjuhlíðinni á sínum tíma sem voru þær einu að hennar sögn sem boðið var upp á að vetri til.

- Auglýsing -

„Ég vil hrósa henni og heitir hún Árný sem var með þær og voru þær allt árið. Það voru ansi góðar æfingar. Maður gekk upp og niður og út og suður um Öskjuhlíðina og það hélt manni gangandi yfir veturinn. Hún er enn að.

Svo smám saman fóru að koma hópar eins og Vesen og vergangur sem er minn helsti gönguhópur.

Þetta er orðið svo auðvelt vegna þess að hóparnir eru með Facebook-síður; maður kíkir bara á netið og sér hvort einhverjar göngur séu fram undan og þá ýtir maður á „mæti“.“

Margrét sagði að Vesen og vergangur væri sinn helsti gönguhópur og nefnir hún stofnanda hans, Einar Skúlason.

- Auglýsing -

„Hann er minn gúrú í þessu öllu saman. Það er stundum slæmt veðurútlit og fólk að spá í hvort það verði nokkuð farið þá í göngur en þá segi ég alltaf að ef Einar fer þá fari ég líka því hann fer aldrei í neinar vitleysur með mann. Einar hugsar fyrir öllu. Hann kenndi mér það til dæmis að hafa með mér í löngum göngum aukasokka og skipta um á miðri göngu en það getur gert gæfumuninn að komast í þurra og góða sokka.“

Margrét S. Pálsdóttir
Á Látrabjargi. Margrét og Einar hjá Veseni og vergangi.

Vífilsfell og Kofri

Margrét hefur gengið á mörg fjöll bæði á Íslandi og erlendis.

„Ég fer oft á sömu fjöllin. Ég held mikið upp á Vífilsfell. Mér finnst vera svo gaman að ganga á það. Það er skemmtilegt og svolítið príl. Svo á ég annað uppáhaldsfjall sem heitir Kofri og er við Súðavík. Það er voðalega skemmtilegt að ganga þar. Vesen og vergangur verður með gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina og er ég að hugsa um að fara.“

 

Margrét S. Pálsdóttir
Á Kofra.

Margrét hefur síðan gengið á fjöll meðal annars í Nepal eins og þegar hefur komið fram og á Spáni og Ítalíu.

„Ég er búin að skrá mig í gönguferð í Austurríki í september.“

Svo eru það skíðaferðirnar.

„Við fjölskyldan fórum oft á skíði til útlanda á veturna og ég hef farið með Veseni og vergangi í skíðaferð og er búin að bóka mig í skíðaferð í Austurríki í febrúar á næsta ári á vegum Vesens og vergangs og Bændaferða.“

Afmælisganga

Margrét segist fara í fjallgöngu að meðaltali tvisvar til þrisvar í viku.

„Ég fer ekki oft ein.

Ég er mikil félagsvera og þess vegna finnst mér vera svo gott að hafa þessa gönguhópa.

Ég er ekkert mjög dugleg að drífa mig ein; það er svolítið sérstakt núna að ég skuli vera að þvælast ein í dag en það er vegna þess að ég fór hingað í gær og var alveg undrandi á hvað tíminn var hagstæður svo ég ákvað að prófa aftur í dag,“ segir Margrét þar sem hún situr á steini uppi á Esju og svarar spurningum blaðamanns í síma á björtum júlídeginum.

Hún segir að það gefi sér mikið að vera í göngum – bæði andlega og líkamlega.

„Það er líka að vera að vinna pínulitla sigra. Og það að vera með öðru fólki gefur mér ofboðslega mikið félagslega.“

Margrét varð nýlega áttræð og hélt Einar hjá Veseni og vergangi sérstaka afmælisgöngu henni til heiðurs.

„Það mættu um 100 manns. Ég var óskaplega hrærð og glöð og fannst mér þetta vera yndislegt. Ég þekkti nánast alla sem komu og það segir mér hvað ég hef kynnst mörgum í göngunum. Við gengum hring í Búrfellsgjá og fann Einar svo skemmtilegan stað; það var stór flöt með klettum í kring. Það var sunginn skemmtilegur söngur sem þau höfðu samið. Svo komu margir með eitthvað nammi. Þetta var heilmikil veisla.“

 

Margrét varð nýlega áttræð og hélt Einar hjá Veseni og vergangi sérstaka afmælisgöngu henni til heiðurs í Búrfellsgjá.

Margrét segir að draumurinn sé að geta gengið eins lengi og hún lifir ef heilsan helst eins góð og hún er.

„Ég er ennþá í fullu fjöri og vona að ég verði það sem lengst.“

 

Margrét S. Pálsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -