Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Margt gæti komið á óvart í Eurovision í kvöld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ari okkar Ólafsson stígur á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í kvöld og keppir í fyrri undanúrslitariðli Eurovision. Ef allt gengur að óskum kemst Ari áfram og keppir í úrslitunum laugardagskvöldið 12. maí.

Útlitið fyrir að Ari nái loksins að binda enda á eyðimerkurgöngu okkar Íslendinga í keppninni er ekki gott, en Ísland hefur ekki komist upp úr undanriðlunum síðustu þrjú ár. Ef marka má samantekt úr helstu veðbönkum heimsins kemst Ari ekki upp úr riðlinum og skipar sér í neðstu sætin ásamt Makedóníu og Írlandi. Í spá vefsíðunnar Eurovision World er Ari neðstur.

Sjá einnig: Mikið klappað fyrir Ara á dómararennsli.

Engir LED-skjáir

Auk Íslands keppa eftirfarandi lönd í kvöld, í réttri röð, en Ari er númer 2 á undan Albaníu: Aserbaídjan, Albanía, Belgía, Tékkland, Litháen, Ísrael, Hvíta-Rússland, Eistland, Búlgaría, Makedónía, Króatía, Austurríki, Grikkland, Finnland, Armenía, Sviss, Írland og Kýpur. Tíu lönd komast áfram í úrslit.

Þessi riðill hefur verið kallaður dauðariðillinn, enda hafa margir spáð því að þau tíu lönd sem komist upp úr riðlinum verði þau tíu efstu í úrslitunum þann 12. maí. Meðal landa sem eru talin sigurstrangleg eru Ísrael, Tékkland, Eistland og Búlgaría.

Það getur hins vegar margt komið á óvart í kvöld, eins og venja er í Eurovision, og þó veðbankar og spár hafi oft rétt fyrir sér þá kemur fyrir að þeim bregst bogalistin. Þá ber að nefna sviðið og sviðssetninguna, en eins og kunnugt er eru engir LED-skjáir í Lissabon og því mörg atriðanna keimlík er kemur að sviðssetningu. Því reynir meira á flytjendur að skera sig úr og meira á ljósahönnuði að gera atriði eftirminnileg.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Spánn vinnur Eurovision ef marka má Google.

Áskrift að úrslitunum

Aserbaídjan opnar kvöldið með söngkonunni Aisel og laginu X My Heart. Veðbankar spá henni ekki áfram í úrslit en gleyma þó kannski mikilvægri staðreynd að Aserbaídjan kemst alltaf upp úr undanriðlinum, alveg sama hve lagið er slakt. Þannig að við þurfum líklegast ekki að hafa miklar áhyggjur af henni Aisel, þó atriðið sé frekar bragðdauft og lagið ekkert spes.

- Auglýsing -

Hin ísraelska Netta hefur verið talin sigurstranglegust, raunar til að vinna alla keppnina, í nokkrar vikur. Hins vegar olli fyrsta æfing söngkonunnar í Lissabon nokkrum vonbrigðum meðal Eurovision-spekúlanta, þó raddbönd Nettu hafi langt því frá klikkað. Unnið var í atriðinu og þegar kom að annarri æfingu var ísraelska teymið búið að bæta við eldglærum og sápukúlum sem gerir mikið fyrir atriðið.

Lagið, Toy, er sterkt og nýtur mikillar hylli í Eurovision-heiminum og því nánast öruggt að Netta komist áfram í úrslit. Hvort hún hrósi sigri í úrslitum á laugardagskvöldið er svo annað mál, og hugsanlegt að hún hafi toppað á vinsældarlistum of snemma.

Sópransöngur og stuð

Ísrael er í fyrri part undanúrslitanna í kvöld, sjöunda í röðinni. Önnur lönd sem eru talin sigurstrangleg, Tékkland og Eistland, eru líka framarlega – Tékkland númer 5 og Eistland númer 9. Það getur líka haft áhrif á gengi þeirra, en veðbankar eru sammála um að þessi tvö lög komist áfram. Mikolas Josef syngur lagið Lie to Me fyrir Tékka og lenti í smá erfiðleikum á fyrstu æfingu þar sem hann slasaðist er hann gerði fimleikaæfingar á sviðinu. Mikolas náði sem betur fer að hrista það af sér og var mjög öruggur á sviðinu á annarri æfingu, þrátt fyrir byrjunarerfiðleika með hljóðnemann. Lagið er hresst og sviðssetningin ágæt og því líklegt að hann komist áfram.

Eistar taka áhættu með því að senda klassískt menntaða söngkonu, hana Elinu Nechayeva, með hið dramatíska lag La Forza. Elina syngur lagið óaðfinnanlega en það er ekki síður kjóll hennar sem hefur stolið senunni. Elina fær líklegast fullt hús stiga dómnefndar en óvíst er hvernig Eurovision-aðdáendur taka þessari flottu sópransöngkonu.

Tveir svartir hestar

Finnar eru fimmtándir í röðinni í kvöld og syngur söngkonan Sara Aalto lagið Monsters. Samkvæmt veðbönkum rétt slefar Sara í úrslit, en hér er á ferð atriði sem er stórlega vanmetið og á eflaust eftir að standa sig talsvert betur en spáð er. Sara er þrususöngkona og bjóða Finnar upp á skemmtilegt, töff og hressandi atriði parað við lag sem er mikið heilalím.

Má segja að Finnar séu svarti hesturinn sem gæti hreinlega farið alla leið í keppninni í ár, þvert á alla spádóma.

Kýpur lokar sýningunni í kvöld með laginu Fuego sem flutt er af þokkagyðjunni Eleni Foureira. Hér er á ferð annar svartur hestur sem var spáð afar slöku gengi þar til æfingar hófust í Altice Arena-höllinni í Lissabon. Nú er Eleni efst í öllum veðbankaspám, sem og spá á vefsíðu Eurovision World. Og það er ekkert skrýtið þar sem má með sanni segja að Eleni loki herlegheitunum með hvelli, óaðfinnanlegum söng og seiðandi danssporum í anda Beyoncé. Hins vegar gæti Fuego orðið eitt af þessum lögum sem verða pólitíkinni að bráð og komast ekki áfram út af því að önnur lönd eiga áskriftarmiða í úrslit, til dæmis Aserbaídjan.

Er pláss fyrir Ara?

Önnur lönd sem veðbankar eru sannfærðir um að komist áfram eru Búlgaría, Grikkland, Austurríki, Belgía og Hvíta-Rússland. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvernig kvöldið í kvöld fer, og það er jafnvel pláss fyrir fleiri svarta hesta í riðlinum, til dæmis Ara okkar Ólafsson. Flestir Eurovision-spekúlantar eru sammála um að Ari negli lagið á öllum æfingum og viðburðum en að lagið sjálft sé hins vegar ekki nógu spennandi til að gera mikið í keppninni.

Bein útsending á fyrri undankeppninni í Eurovision hefst klukkan 19 í kvöld á RÚV.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -