„Þessir jarðskjálftar og landris eru eins og sakir standa óþægilega nálægt eins og orkuverinu í Svartsengi, Bláa lóninu og fleiri mikilvægum innviðum,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Til stendur að funda vegna mögulegs eldgoss við Grindavík í vikunni. Munu fulltrúar almannavarna, lögregla, jarðvísindamenn og bæjaryfirvöld í Grindavík sitja fundinn en mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu að undanförnu.
Þá hefur land risið við fjallið Þorbjörn og eru nokkur líkindi með síðustu dögum og því sem gerðist áður en gaus í Geldingadölum á síðasta ári. „Einn möguleikinn er sá að bregðast hratt við ef skyldi fara að gjósa og reyna að hafa taumhald á hrauninu eins og hægt er,“ sagði Fannar en verður meðal annars skoðað hvort hægt verði að grípa til varna með leiðigörðum til þess að beina hraunstraumnum frá byggð.