„Ég kenndi mér eiginlega bara sjálf,“ segir María.

Hún hefur verið að vinna við stór verkefni og gert samninga við fyrirtæki á borð við Adidas og Jägermeister.

Adi­das kynnti nýja skó, byggða á eldri fram­leiðslu, í Berlín. Af því til­efni fékk fyr­ir­tækið 11 lista­menn til þess að búa til framtíðar­heim eft­ir eig­in höfði með til­vís­un til þess sem liðið er og var verkið sýnt sam­hliða skókynn­ing­unni.

„Adidas hafði samband við mig í gegnum Instagram, en ég set rosa mikið af því sem ég er að gera á Instagram. Þegar Adidas hafði samband þá hélt ég að það væri einhver að rugla í mér. Það var ótrúlega skemmtilegt verkefni. Þau voru með herferð þar sem þau voru að kynna skó. Þau fengu listafólk í Berlín til að setja upp sýningu, sem ég tók þátt í, en ég var eini þrívíddarhönnuðurinn,“ segir María.

Lista­mennirnir fengu viku til að sinna sköp­un­inni í þar til gerðu og vel út­búnu hús­næði í Berlín. María seg­ir að nokkr­ir í hópn­um hafi áður unnið fyr­ir Adi­das en aðrir verið vald­ir handa­hófs­kennt.

Lista­menn­irn­ir unnu í þrem­ur hóp­um, einn í fata­hönn­un, ann­ar í tónlist og sá þriðji í myndlist.

„Við höfðum al­ger­lega frjáls­ar hend­ur,“ seg­ir María, eini Íslend­ing­ur­inn í hópn­um og bæt­ir við að allt hafi verið til alls á staðnum og ímynd­un­ar­aflið hafi ráðið för.

„Þetta var mjög skemmti­legt og ég er bjart­sýn á að fá fleiri verk­efni frá Adi­das í nán­ustu framtíð.“

Var komin með smá heimþrá

„Mér finnst gaman að finna leiðir til þess að blanda raunveruleikanum og sýndarveruleikanum saman. Úti hef ég verið að vinna með aðeins öðruvísi pælingar. Á einni hópsýningu gerðum við karaktera fyrir alla sem tóku þátt og bjuggum til rými milli raunveruleikans og sýndarveruleikans. Þetta vorum við en samt ekki við.

Ég hef unnið mikið með þetta þema, en núna er ég búin að vera lengi úti og komin með smá heimþrá. Eftir að ég kom aðeins heim fann ég hversu mikið mig langar að vinna með íslenska náttúru og element,“ segir María.

María segist núna reyna að blanda þrívíddinni inn í nánast allt sem hún gerir.

„Ég er orðin leið á öllu sem er í tvívídd,“ segir María og hlær. „Það er hræðilegt því ég var að læra grafíska hönnun. En maður byrjar að hugsa allt öðruvísi eftir að maður byrjar að vinna við þrívídd. Maður fer að sjá hluti og hugsa á annan hátt. Ég hugsa alltaf í kringum hluti sem ég er að vinna með, maður þarf að pæla í öllum sjónarhornunum. Þetta breytir algjörlega því hvernig maður hugsar.“

María tilheyrir nú hópi af öðrum þrívíddarhönnuðum sem deila saman áhuga á þrívíddarhönnun.

„Ég kynnist alltaf fleirum og fleirum sem eru í þessu. Það er ótrúlega sterkt samfélag í kringum þetta listform. Og það er sérstaklega áberandi úti hvað það er mikil menning í kringum þrívíddarhönnun. Hérna á Íslandi er þetta mun minna, það eru ekki margir í þessu sem listgrein.“

Það verður án efa spennandi að fylgjast með þessari hæfileikaríku listakonu í næstu verkefnum.

 

 

Heimildir:

Marieke Fischer. 2019, 3. september. „Digi-Gxl Berlin erobert erst den virtuellen Raum und dann die physische Welt.“ I-D.

Steinþór Guðbjartsson. 2019, 12. ágúst. „Framtíðarsýn Maríu með aðstoð Adidas.“ Morgunblaðið.

Urður Örlygsdóttir. 2020, 29. desember. „Ís­lensk lista­kona með verk á Times Square um ára­mótin.“ Fréttablaðið.

Zachary Kussin. 2020, 16. desember. „Times Square ball will drop without spectators for the first time since 1907.“ New York Post.