Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

María upplifði ömurlega reynslu á meðgöngunni: „Allt í einu sagði hún að það væri ekkert barn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

María Birigt Gala og sambýlismaður hennar, Tyler Waghorn frá Nýja-Sjálandi, eiga tvö börn og býr fjölskyldan í Ástralíu. María varð ófrísk í fyrrasumar. Allt leit eðlilega út og blóðprufur sýndu að allt var eins og það átti að vera en um þremur mánuðum eftir getnað kom í ljós í sónar að ekkert fóstur var í belgnum sem stækkaði þó eins og um þungun væri að ræða. Ekki er vitað hvenær fósturvísirinn fór úr líkamanum.

„Þetta var ótrúlega skrýtið. Ég vissi eiginlega strax að ég væri orðin ólétt og fann fyrir sömu einkennum og þegar ég gekk með syni mína tvo sem eru eins árs og tæplega þriggja ára; ég fæ til dæmis vanalega mikla morgunógleði á meðgöngum. Ég fór til læknis og lét taka blóðprufu til að tékka á hvort hormónin væru ekki að hækka og það var allt eins og í venjulegri meðgöngu. Það gekk allt mjög vel þannig séð.“

Það kom í ljós í sónarnum að belgurinn var að stækka en það var ekkert inni í honum

María er með aftursveigt leg og þegar hún fór í sónar sást ekkert fóstur en það hafði líka gerst í meðgöngunum á undan. Hún fór þess vegna aftur í sónar tveimur vikum síðar eins og hún hafði gert í fyrri meðgöngu og var hún þá í raun komin um þrjá mánuði á leið. María fékk mikinn bakverk þann dag og segist hún hafa hugsað með sér að það væri eitthvað að.

„Það kom í ljós í sónarnum að belgurinn var að stækka en það var ekkert inni í honum.“

„Heilbrigðisstarfsmaðurinn sem sá um sónarinn virtist vera að flýta sér mikið og ég spurði hvort það væri ekki allt eðlilegt og hún sagði að hún væri að að verða búin og svo allt í einu sagði hún að það væri ekkert barn og að hún ætlaði að gefa okkur nokkrar mínútur. Og gekk út. Ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða hvað ég ætti að gera. Ég trúði henni ekki en á sama tíma trúði ég henni. Ég vissi bara ekkert hvað var í gangi. Við vorum búin að breyta öllu í lífi okkar af því að við héldum að við værum að fara að eignast þriðja barnið. Við vorum til dæmis búin að skoða stærri bíla af því að við þyrftum þrjá bílstóla og vorum búin að skoða hvar við gætum búið. Svo gerðist þetta.“

María segir að ekki sé vitað um ástæðuna fyrir þessu. Hún segir að hún hafi heyrt að þetta gæti gerst ef móðirin fær sýkingu en að allt hafi komið eðlilega út í kjölfarið á útskröpun en eftir það var sýni úr henni skoðað.

- Auglýsing -

„Ég var eiginlega í sjokki; ég hafði aldrei heyrt um þetta áður en þetta gerðist í mínu tilfelli. Ég skrifaði svo um þessa reynslu á Instagram og það höfðu ótrúlega margar stelpur samband sem höfðu lent í því sama sem mér fannst vera skrýtið af því að mér datt ekki í hug að þetta væri svona algengt.“

 

María Birgit Gala

- Auglýsing -

Þetta var ömurleg lífsreynsla

María segist hafa hringt í lækninn sinn en hann þurfti að skrifa upp á til að hún gæti farið í útskröpun. „Hann gerði eiginlega ekkert í því og sendi ekki einu sinni beiðnina þannig að ég þurfti að bíða í rúma viku til þess að fara í útskröpun,“ segir hún en aðgerðin var gerð í lok september. „Þetta var erfiðasta vika lífs míns. Þetta var ömurlegt. Mér leið ógeðslega andlega og líkamlega en ég var með svo mikla verki í bakinu og alls staðar og ég gat varla staðið í fæturna. Ég var ótrúlega þreytt. Ég tel mig vera mjög sterka þegar kemur að öllu svona og ég var í rauninni ekki sár yfir því að það væri ekki barn en það er eins og hormónarnir geri mann alveg ruglaðan og maður veit ekkert hvernig manni eigi að líða.“

María Birgit Gala

Ég hef ekki lent í neinu sem hefur verið jafnerfitt og þetta.

 

„Það var ótrúlega skrýtið að innst inni vissi ég að það væri best fyrir okkur að vera ekki að eignast barn á þessum tíma; þetta er búið að vera strembið hjá okkur síðasta ár og ég vissi að það yrði ótrúlega erfitt að vera með þrjú börn undir þriggja ára. Ég vissi innst inni að þetta væri örugglega það sem væri best fyrir okkur. Það var ótrúlega gott að geta hugsað þannig en á sama tíma gerðist eitthvað innra með mér. Ég var ótrúlega dauf; ég man ekki einu sinni eftir þessum dögum. Ég vissi ekki hvað var í gangi. Ég hugsaði samt með mér að ég hefði verið búin að plana líf mitt á vissan hátt og svo allt í einu var það tekið í burtu á einni sekúndu og ég þurfti allt í einu að fara að hugsa um hvernig ég ætlaði að lifa lífi mínu næstu mánuði út af því að ég var búin að plana það allt öðruvísi. Og það var erfitt. Ég hef ekki lent í neinu sem hefur verið jafnerfitt og þetta. Í dag, nokkrum mánuðum síðar, er ég ótrúlega hamingjusöm, ánægð og mér gengur vel. Af því að þetta gerðist þá fór ég aftur í vinnu en ég hafði verið heima í rúm þrjú ár bara ólétt og með börn.“

María segir að hún hafi lært margt af þessari reynslu.

„Það sem aðallega kom út úr þessu var að eftir að ég fór alveg á botn lífs míns reif þetta mig upp til þess að langa að gera meira í lífinu og langa til dæmis að fara aftur að vinna og langa bara í svo mikið meira fyrir okkur. Mig langaði til að verða duglegri. Ég byrjaði aftur í ræktinni og ég byrjaði einhvern veginn að lifa lífinu upp á nýtt. Ég fattaði þegar maður fór svona alveg á botninn hvað lífið er mikilvægt og hvað maður getur haft það gott ef maður bara ákveður að hafa það gott og ef mann langar til að lifa góðu lífi þá er það hægt. Það er allt hægt.“

María Birgit Gala

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -