Í jólakveðju sem Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, sendir starfsmönnum Samherja í dag segir hann markmið félagsins vera að „standa af sér storminn“ í kringum fréttaflutning af viðskiptum félagsins í Namibíu.
Í bréfinu segir hann að rannsókn sem Samherji setti af stað í kjölfar umfjöllunar Wikileaks, RÚV og Stundarinnar gangi ágætlega. „Við vonumst til þess að niðurstöður hennar liggi fyrir fljótlega á nýju ári,“ skrifar hann meðal annars. Hann segir að málið hafi ekki haft teljandi áhrif á reksturinn. „…og það er fyrst og fremst ykkur að þakka. Það er vöxtur í sölunni og veiðar og vinnsla ganga vel.“
Í jólakveðjunni þakkar hann svo starfsmönnum fyrir vel unnin störf, þá sérstaklega á meðan óveðrið gekk yfir fyrr í mánuðinum.
„Rafmagnsleysið í kjölfar veðurofsans verð þess valdandi að öll vinnslan okkar á Dalvík lá niðri fimm daga og hleypur tjón vegna þess á tugum milljóna króna,“ skrifar Björgólfur m.a.
Kveðju Björgólfs má lesa í heild sinni á vef Samherja.