Martin nokkur þakkar íslenskum pöbbum námsárangur sonar síns sem stóðst alla áfanga með glæsibrag í jólaprófunum. Fjöldi feðra bauð fram aðstoð á dögunum til að hjálpa syninum að komast í gegnum prófin í framhaldsskólanum.
Martin greinir frá árangrinum í hópi íslenskra feðra á Facebook og laumar þar inn þakklæti til allra pabbanna sem ruku til að hjálpuðu stráknum. „Mig langaði bara að koma fram smá þakklæti. Þannig er mál með vexti að fyrir nokkrum vikum síðan setti ég hér inn póst varðandi son minn og að hann ætti í vandræðum í einum áfanga í framhaldsskóla. Það liðu ekki margar mínútúr þar til að póstunum byrjaði að rigna inn frá mönnum sem buðu fram aðstoð sína, kennarar á öllum stigum menntakerfisins og fleiri. Þeir sem ekki gátu hjálpað beint bentu mér á hina og þessa sem síðan buðu fram sína aðstoð,“ segir Martin og bætir við:
„Það var yndislegur einstaklingur sem kom síðan bara heim til okkar og eyddi smá tíma með drengnum og sannfærði hann um að hann væri alveg með þetta, þyrfti bara að trúa á sig sjálfan. Drengurinn fékk síðan einkunnirnar sínar í vikunni og stóðst allt með miklum glæsibrag og þar á meðal í þessum áfanga sem um ræddi. Við erum mjög þakklátir öllum þeim sem buðu fram sína aðstoð og áfram heldur þessi hópur að vera sá langbesti á veraldarvefnum!“
Augljóst er að talsverðan samtakamátt má finna í þessum pabbahópi á Facebook því nýverið söfnuðu íslenskir feður fimm milljónum króna í söfnunarfé sem rann til fjölskyldna sem virkilega þurftu á aðstoð að halda fyrir jólin.