„Körfuboltinn er á uppleið og allt umtal um íþróttina til fyrirmyndar þannig að við förum spennt og stolt inn í næsta tímabil,” segir Stefán Magnússon, eigandi veitingastaðarins Mathús Garðabæjar.
Mathúsið verður stærsti styrktaraðili körfuboltastarfs Stjörnunnar á komandi leiktíð og munu heimkynni körfuboltans í Garðabæ, sjálfur Ásgarður, bera nafnið Mathús Garðabæjar höllin. Mathúsið hefur verið einn af stærri styrktaraðilum kvenna- og karlakörfubolta í bænum en Stefán segir að nú hafi verið komið að því að taka skrefið til fulls.
„Körfuboltadeild Stjörnunnar fagnar 25 ára afmæli í vetur. Það er verið að kynna nýja búninga og svo er komið nýtt gólf á höllina. Okkur fannst þess vegna kjörið að höllin fengi líka almennilegt nafn. Við ákváðum því að taka þetta alla leið í ár og taka þetta stóra skref. Núna erum við komin með nafnið á höllina og erum mjög spennt fyrir framtíðinni, sem er björt í körfuboltanum í Garðabæ. En fyrst og fremst er ég stoltur að styðja við bakið á svona frábæru liði,” segir Stefán.
Athvarf á milli leikja
Stefán æfði sjálfur körfubolta á unga aldri og hefur fylgst grannt með gangi Stjörnunnar í íþróttinni síðan hann flutti í Garðabæ fyrir fjórtán árum síðan. Fyrir tveimur árum opnaði hann Mathús Garðabæjar og það kætir hann mjög að körfuboltaiðkendur í bænum líti á veitingahúsið sem sitt athvarf á milli leikja.
„Liðin og þjálfararnir koma alltaf út á Mathús eftir leiki til að greina þá, í staðinn fyrir að fara bara heim. Þetta þéttir hópinn gríðarlega. Þá hittast hóparnir líka í brunch hér um helgar þannig að liðin gera meira saman utan vallarins og hafa hér stað til að hittast á og ræða málin,” segir Stefán.
Tekið eftir Mathúsinu
Velgengni Mathússins er í raun ótrúleg, en staðurinn hefur ekki aðeins fest sig í sessi sem hverfisstaður þar sem íbúar hittast og njóta, heldur segir Stefán að fólk utan Garðabæjar sæki staðinn líka stíft. Stefán segir að hann hafi verið heppinn með frábært starfsfólk, en matreiðslumeistarar Mathúss Garðabæjar eru þeir Fannar Vernharðsson, fyrrverandi yfirkokkur á Vox og meðlimur kokkalandsliðsins, og Garðar Aron Guðbrandsson, sem einnig starfaði á Vox um tíma.
„Þessir tveir meistarakokkar stjórna eldhúsinu okkar og sjá um að matreiða, ásamt öðru frábæru starfsfólki okkar, sívinsæla rétti okkar á borð ánægðra viðskiptavina. Við hönnun staðarins var mikið lagt upp með að vera fjölskylduvænn staður og skapa umhverfi þar sem notalegt er að gera vel við sig í mat og drykk,” segir Stefán. Hann bætir við að það sé ýmislegt sem orsaki þessar vinsældir staðarins, til dæmis veglegur brunch um helgar. Hann er jafnframt viss um að fjölskyldur líti á staðinn sem góðan stað fyrir gæðastundir, enda mikið lagt upp úr því að börn sem heimsæki staðinn hafi eitthvað fyrir stafni, til dæmis í sérhönnuðu krakkaherbergi með litlum bíósal.
„Hér geta foreldrar klárað kaffið sitt í rólegheitum og þurfa ekki að hlaupa eftir börnunum. Ég kannast sjálfur við að drekka ófáa, kalda kaffibollana, verandi faðir þriggja drengja,” segir Stefán og hlær. „Svo er líka þægilegt að fá bílastæði beint fyrir framan staðinn og þessi heimilislega stemmning sem lætur fólk slaka vel og lengi á.”
Við þetta má bæta að frítt er fyrir börn yngri en tólf ára í brunch næstu helgi.