Föstudagur 27. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Með beinagrindurnar á borðinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hefur verið milli tanna fólks undanfarið eftir viðbrögð hans við grænkeravæðingu skólamáltíða. Minnihlutinn í borgarstjórn hefur líka fengið gagnrýni fyrir að vera á móti öllu sem meirihlutinn gerir án þess þó að leggja fram neinar tillögur um það hvernig hægt væri að gera betur. Eyþór er þó sallarólegur yfir þessu, segir þetta meira og minna á misskilningi byggt, fjölmiðlar fjalli nefnilega aldrei um það þegar fólk sé sammála.

 

Eyþór er nýkominn af löngum fundi í borgarstjórn þar sem fjárhagsstaða borgarinnar eftir fyrri helming ársins var til umræðu þegar blaðamaður nær sambandi við hann. Hann er þó ekki með neinn æsing yfir niðurstöðunum, þótt hann sé ekki allskostar sáttur við þær.

„Við bendum til dæmis á það að skuldir borgarinnar eru að vaxa þótt það hafi verið góðæri,“ segir hann. „Svo var innri endurskoðun borgarinnar að benda á að framlög Reykjavíkurborgar til skólanna eru frekar lítil miðað við meðaltal landsins og viðhald þeirra í mjög slæmu ástandi, sem er alvarlegt mál sem þarf að skoða.“

Spurður hvort það sé ekki þrautleiðinlegt að standa í svona þvargi alla daga dregur Eyþór við sig svarið.

„Nei, nei,“ segir hann svo. „Það er eins með þetta og allt annað, það er hægt að gera sér öll störf leiðinleg eða skemmtileg hvort sem það er uppvask eða að spila á selló eða að vera í borgarstjórn og ég reyni yfirleitt að hafa gaman af því sem ég geri vegna þess að það er svo verðmætt að hafa gaman af öllu sem maður gerir, jafnvel bara að fara út með ruslið. Borgarstjórnarstarfið tekur hins vegar á og tekur mikinn tíma og það sem mér finnst kannski taka mest á þolinmæðina eru þessir löngu fundir. Þeir eru oft fimm tímar eða svipað langir og flug til New York og það er svolítið langur tími til að sitja kyrr, en þá fer maður bara í ræktina á eftir og fær útrás.“

Pönkari og anarkisti

- Auglýsing -

Áður en Eyþór hellti sér út í pólitíkina var hann þekktur sem tónlistarmaður, spilaði meðal annars með Tappa tíkarrassi og Todmobile árum saman, hvað fékk hann til að söðla um og fara út í pólitík? Eru þessir heimar ekki algjörar andstæður?

„Jú, jú, ég er fullur af andstæðum,“ segir hann hlæjandi. „Ég lærði fyrst á fiðlu og fór síðan í pönkið með Tappa tíkarrassi og Björk og hætti því svo og fór að læra á selló. Eftir það fór ég í Todmobile. En þegar ég var pönkari var ég svolítill anarkisti, var á móti ríkinu, boðum og bönnum og yfirvaldi og vildi meira frelsi. Það var mjög lítið frelsi þegar við vorum unglingar í Rokk í Reykjavík. Það mátti ekki einu sinni selja erlent súkkulaði. Þegar ég var þrettán ára fór ég niður í bæ með vini mínum og við höfðum meðferðis lak sem mamma átti sem á var skrifað „Hvar er frelsið?“ Lögreglan kom og kvartaði yfir því að við værum að mótmæla svo það má segja að þarna strax hafi maður verið orðinn aktívisti og mín pólitík er einfaldlega sú að ég treysti fólki – stundum of mikið reyndar – og trúi því að fólk eigi að fá að ráða sínum málum sem mest sjálft. Þegar maður verður eldri kemst maður síðan að því að ef maður vill breyta einhverju verður maður að gera það í gegnum kerfið. Ég fór í pólitík í Árborg, þar sem ég bjó þá, og þar náðum við að breyta mörgu sem ég er mjög ánægður með. Ég sé það líka að sveitarfélagið er að vaxa út frá þeim ákvörðunum sem voru teknar þegar við vorum í meirihluta og það eru bestu launin að sjá það sem maður gerir skila sér.“

„Þegar ég var pönkari var ég svolítill anarkisti, var á móti ríkinu, boðum og bönnum og yfirvaldi og vildi meira frelsi.“

Fólk þarf að fá svör

- Auglýsing -

Eyþór var alinn upp í Reykjavík, bjó á Selfossi í tíu ár en er fluttur aftur til Reykjavíkur. Hann langar að leggja sitt af mörkum til að sjá svipaðar skipulagsbreytingar í rekstri borgarinnar og þær sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins kom á í Árborg.

„Ég bar aldrei stóla í Valhöll, var aldrei virkur í Heimdalli eða ungliðahreyfingunni eins og svo margir. Ég kem bara beint úr atvinnulífinu og listalífinu án þess að hafa klifrað upp neinn stiga,“ segir Eyþór.

„Eitt af því sem við gerðum í Árborg var að reyna að einfalda stjórnkerfið,“ útskýrir hann. „Eða það sem við kölluðum að stytta boðleiðirnar þannig að mál séu ekki að þvælast í einhverju ómanneskjulegu kerfi í óratíma. Við einfölduðum kerfið, lækkuðum skattana á heimilin og borguðum niður skuldir og þetta væri allt saman rétt að gera í Reykjavík. Fasteignaskattarnir eru mjög háir hér í borginni, skuldir borgarsjóðs aukast um milljarð á mánuði og við sjáum það að fólk fær ekki svör, hvort sem það eru verslunarrekendur við Laugaveg eða Hverfisgötu eða þeir sem eru á biðlista einhvers staðar eða þeir sem vilja byggja. Kerfið er orðið allt of flókið og endalaust að tala við sjálft sig og ég hef trú á því að við getum einfaldað það og um leið gert það betra og ódýrara.“

Það kom mörgum á óvart þegar Eyþór var valinn sem oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, hann hafði ekki verið áberandi innan flokksins fram að því. Hann segir það eiga sér einfalda skýringu.

„Kerfið er orðið allt of flókið og endalaust að tala við sjálft sig og ég hef trú á því að við getum einfaldað það og um leið gert það betra og ódýrara.“

„Ég tók þátt í prófkjöri í Árborg á sínum tíma og vann það og gerði svo það sama í Reykjavík,“ útskýrir hann. „Í báðum tilfellum fékk ég mjög góðan stuðning, meira en helming atkvæða þótt það væru margir að keppa, en ég bar aldrei stóla í Valhöll, var aldrei virkur í Heimdalli eða ungliðahreyfingunni eins og svo margir. Ég kem bara beint úr atvinnulífinu og listalífinu án þess að hafa klifrað upp neinn stiga.“

Sumir höfðu á orði þegar ljóst var að Eyþór var oddvitaefni flokksins í Reykjavík eftir að Halldór Halldórsson hafði verið sóttur til Ísafjarðar til að leiða flokkinn í kosningunum þar á undan, hvort ekki væru neinir frambærilegir Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Telur Eyþór það vera vandamál innan flokksins?

„Nei, það held ég nú ekki,“ segir Eyþór og brosir. „Það er nú sem betur fer þannig á Íslandi að menn flytja milli staða. Ég hef búið á mörgum stöðum í Reykjavík; alinn upp í Árbænum, hef búið í Vesturbænum og Grafarholtinu og þekki Reykjavík vel. Ég hef búið erlendis líka, í London og San Francisco, en mér þykir mjög vænt um Reykjavík. Ég myndi segja að hún væri minnsta stórborg í heimi og hún hefur mikil tækifæri til þess að þróast í góða átt.“

Megum ekki vera fölsk

Kom reynslan úr viðskiptalífinu og tónlistarheiminum Eyþóri til góða eftir að hann lagði pólitíkina fyrir sig?

„Ef maður kann að nýta sér reynslu úr listum eða viðskiptum í pólitík þá held ég að það sé mjög gott,“ segir Eyþór. „Vegna þess að þegar við vinnum í hóp þá spilum við saman eins og við séum í hljómsveit, við verðum að spila sama lagið og við megum ekki vera fölsk, verðum að vera heiðarleg. Maður getur líka lært af viðskiptalífinu að það skiptir máli hvernig farið er með peninga. Þeir sem hafa verið í atvinnulífinu hafa oft þurft að hafa áhyggjur af því að borga laun og annað og það er góð reynsla þegar kemur að því að fara með almannafé. Maður er meðvitaður um það að peningar vaxa ekki á trjánum.“

Eyþór segist vilja gera ýmsar breytingar. „Fasteignaskattarnir eru mjög háir hér í borginni, skuldir borgarsjóðs aukast um milljarð á mánuði og við sjáum það að fólk fær ekki svör, hvort sem það eru verslunarrekendur við Laugaveg eða Hverfisgötu eða þeir sem eru á biðlista einhvers staðar eða þeir sem vilja byggja.“

Þessi fullyrðing Eyþórs um að fólk í pólitík verði að vera samtaka og spila saman skýtur dálítið skökku við í ljósi þeirrar gagnrýni sem minnihlutinn í borgarstjórn hefur orðið fyrir, að vera á móti öllu sem meirihlutinn gerir bara til þess að vera á móti því. Hvaða skýringu hefur hann á þeirri gagnrýni?

„Það er náttúrlega tölfræðilega rangt,“ segir hann sallarólegur. „Ef það er farið yfir fundargerðir borgarstjórnar sést að í áttatíu til níutíu prósent tilfella er minnihlutinn sammála meirihlutanum. Hins vegar ratar það ekki í fréttir. Ég er stoltur af því að við höfum bent á hluti sem ekki voru í lagi og ég finn það að það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru sammála því að það er hægt að gera betur.“

Trump er víða

Fyrir hinn almenna borgara sem les um málin í fjölmiðlum lyktar þetta engu að síður dálítið af Trumpisma. Að það sé verið að afvegaleiða umræðuna til að vekja athygli á sjálfum sér. Er pólitíkin að breytast í þá átt?

„Pólitíkin í heiminum er að breytast, já,“ segir Eyþór. „En ég passa mig alla vega á því að vera lítið á Twitter því þar er svo mikið rifist og hlutirnir slitnir úr samhengi. Ég hef til dæmis ekkert á móti veganisma, eins og ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla um skólamatinn, ég vil bara að fólk hafi val. Það er nýbúið að samþykkja stefnu sem allir flokkarnir voru sammála um, að það ætti að vera fiskur í mötuneytum skólanna tvisvar í viku, kjöt einu sinni og svo egg og skyr og ávextir og svo framvegis. Síðan kemur einn oddvitinn úr meirihlutanum í Ríkisútvarpið og segir að það eigi að draga verulega úr öllum dýraafurðum og það sé full samstaða um það hjá meirihlutanum. Það er svolítil bomba og ég myndi segja að það væri líkara Trump en það sem minnihlutinn hefur verið að gera. Þannig að Trump er víða.“

Enginn flokkur fullkominn

Nú finnst mér nóg komið af pólitískri umræðu og fer að forvitnast um bakgrunn Eyþórs og upphafið á pólitískum áhuga hans, kemur hann úr pólitísku umhverfi?

„Á vissan hátt, já,“ viðurkennir hann. „Heimsmálin voru alltaf rædd á mínu heimili. Mamma mín, Sigríður Eyþórsdóttir, var mikill umhverfissinni og föðurbróðir minn, Ragnar Arnalds, var formaður Alþýðubandalagsins þannig að við fylgdumst alltaf vel með kosningum. Svo var pabbi, Jón Laxdal Arnalds, ráðuneytisstjóri og hafði marga ráðherra sem maður sá að voru mjög mismunandi. Hann talaði reyndar aldrei um pólitík út á við, var praktískur ráðuneytisstjóri og dómari og mjög orðvar, en það var samt alltaf verið að tala um heimsmálin.“

Eyþór var alinn upp í Reykjavík, bjó á Selfossi í tíu ár en er fluttur aftur til Reykjavíkur. Hann langar að leggja sitt af mörkum til að sjá svipaðar skipulagsbreytingar í rekstri borgarinnar og þær sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins kom á í Árborg.

Bakgrunnur þinn er sem sagt ekki í Sjálfstæðisflokknum, valdirðu hann til þess að vinna að auknu frelsi einstaklingsins í samræmi við anarkistahugsjón unglingsáranna?

„Já, mér fannst hann helst tala fyrir því,“ segir Eyþór. „En það er enginn flokkur fullkominn og það er alltaf hægt að gera betur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir einstaklingsfrelsi og ég bara ákvað að trúa því og beita mér fyrir því á vegum flokksins.“

Talandi um að enginn flokkur sé fullkominn, utan frá séð virðist hver höndin vera upp á móti annarri innan Sjálfstæðisflokksins þessi misserin, hvar stendur Eyþór í þeirri togstreitu?

„Eins og við ræddum áðan þá eru stjórnmálin að breytast og miklu fleiri flokkar komnir til sögunnar,“ segir Eyþór. „Það eru átta flokkar í borgarstjórn og það má segja að í síðustu kosningum hafi tveir flokkar, Miðflokkurinn og Viðreisn, sótt að Sjálfstæðisflokknum. Mjög ólíkir flokkar en fá báðir atkvæði frá kjósendum Sjálfstæðisflokksins þannig að hann þarf að hafa skýra rödd og að mínu mati á hann standa fyrir valfrelsi einstaklingsins og að minnka kerfið.“

Fer of mikið púður í tal um sundrungu

Eyþór er enn þá einn af eigendum Morgunblaðsins þar sem ritstjórinn rekur nánast opinbera stefnu gegn núverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Er hann ekki í dálítilli klemmu innan flokksins vegna þess?

„Nei, ég tók klemmuna af mér með því að fara úr stjórn Morgunblaðsins og skipa engan í minn stað,“ segir Eyþór. „Ég hef engin afskipti af Morgunblaðinu. Það hefur bara sína ritstjórnarstefnu sem ég kem ekki nálægt. Mér finnst hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að tala skýrri röddu fyrir því sem sameinar okkur. Mér finnst allt of mikið púður fara í það sem sundar okkur. Ef flokkurinn er að berjast við aðra flokka um mál sem kljúfa samstöðu fólks þá er hann í vanda. Ef hann er í stöðugri varnarbaráttu þá getur hann ekki stækkað.“

Stefnir þú á frekari frama innan flokksins? Langar þig til að verða formaður hans og hugsanlega forsætisráðherra?

„Nei, ég hef ekki verið að stefna á neinn frama,“ fullyrðir Eyþór. „Ég hef fengið ágætis útrás fyrir egóið í gegnum tíðina, bæði með því að vera í tónlist og að skila góðu búi í Árborg. Það eina sem mig langar að gera er að láta gott af mér leiða og gleyma ekki að lifa lífinu í leiðinni. Ég hugsa þetta bara frá ári til árs, er ekki með nein langtímamarkmið.“

Alltaf eitthvað á bak við misnotkun áfengis

Meðan Eyþór var í bæjarstjórn Árborgar var hann tekinn fyrir ölvunarakstur og hætti í kjölfarið að drekka, breytti það atvik að einhverju leyti sýn hans á sjálfan sig og lífið?

„Þetta atvik breytti lífssýninni alveg klárlega,“ segir Eyþór með áherslu. „Þegar maður gerir eitthvað af sér, eins og ég gerði, þá á maður tvo valmöguleika, annars vegar að fara í fýlu eða þá að segja ég ætla að læra af þessu. Ég ákvað að læra af þessu og ég held ég hafi komið auðmjúkari út úr því og þakklátari fyrir það sem ég hef. Það var lykilatriði.“

Það hlýtur samt að vera pirrandi að það sé stöðugt verið að rifja þetta atvik upp og nota það gegn þér?

„Nei, það er viðbúið,“ segir Eyþór. „En sem betur fer er ég ekki með beinagrindurnar inni í skápnum, er bara með þær hérna á borðinu þannig að þetta er ekki neitt leyndarmál. Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því. Það er hægt að læra af mistökum en það er líka hægt að læra ekki af þeim.“

„Ég braut af mér og ég viðurkenni það og ég lærði af því.“

Eyþór fór í áfengismeðferð eftir atvikið og segir það hafa hjálpað sér mikið, er hann ennþá áfengislaus?

„Ég fór í gegnum meðferð hjá SÁÁ og síðan í AA,“ útskýrir hann. „Það hefur komið fyrir að ég hef drukkið síðan, en ég hef náð allt öðrum tökum á sjálfum mér. Ég held það sé alltaf eitthvað á bak við það þegar fólk misnotar áfengi eða önnur vímuefni, það er einhver rót, menn verða að stunda mannrækt ef þeir ætla að ná tökum á fíkn eða kaosi og AA gerði mér mjög gott.“

Verður alltaf að svara kjósendum

Spurður hvort þetta mál og annað áreiti sem fylgir lífi stjórnmálamannsins hafi að einhverju leyti bitnað á fjölskyldu hans neitar Eyþór því.

„Ég á fjögur börn á aldrinum tíu til átján ára og þau hafa alveg fengið að vera í friði,“ segir hann. „Ég vona að samfélagið virði einkalíf fólks og þá sérstaklega barna. Ég er mjög stoltur af börnunum mínum og finnst þeim ganga mjög vel í því sem þau eru að gera. Við konan mín erum skilin að borði og sæng þannig að þetta starf mitt hefur lítið bitnað á heimilislífinu. Það er sama hvert maður fer það er alltaf einhver sem vill ræða málin við mann og maður verður að svara hverju sem er, hvenær sem er, hvar sem er. Fólk gerir þá kröfu að kjörnir fulltrúar þess séu aðgengilegir. Það er eitt af því sem ég hef gagnrýnt núverandi borgarstjórnarmeirihluta fyrir. Ég heyri að fólk er óánægt með að geta ekki náð í borgarstjórann eða aðra sem fara með stjórnina og þá kemur það til okkar. Ég er til dæmis með viðtalstíma alltaf á mánudögum í Ráðhúsinu og það kemur oft til mín fólk sem segist ekki geta náð í neinn sem ræður. Borgarstjóri er ekki með fastan viðtalstíma, það þarf að panta þá sérstaklega og mér skilst að það sé mjög erfitt að fá slíkan tíma. Það er ekki nógu gott.“

Hvað með persónuleg samskipti Eyþórs og borgarstjórans? Eru þeir andstæðingar utan funda borgastjórnar líka?

„Nei, alls ekki, við erum ágætis félagar,“ segir Eyþór og hlær. „Við vinnum saman þó svo við séum ekki sammála um allt. Og þegar meirihlutinn leggur fram góð mál þá styðjum við þau. Við erum ekki í einhverjum hnefaleikum heldur stefnum öll að sama marki, þótt fjölmiðlar birti ekki fréttir af því. Það er nefnilega „catch 22“ að ef fjölmiðlar birta bara fréttir af því þegar einhver læti verða þá freistast sumir til þess að vera með læti til að komast í fréttirnar. Ég tel mig ekki vera einn af þeim en ég hins vegar tala hreint út, ég held það sé best að vera ekkert að flækja þetta.“

Gagnrýndur fyrir að vera ekki leiðinlegur

Beðinn að lýsa karakter sjálfs sín vefst Eyþóri tunga um tönn.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ segir hann. „Ég held ég sé frekar rólegur, get alveg verið einn og það er erfitt að rífast við mig því ég rífst ekki á móti. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu leiðinlegur í pólitíkinni.“

Ef þú heldur áfram og Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum verður þú væntanlega borgarstjóri. Hver yrði fyrsta breytingin sem Reykvíkingar yrðu varir við?

Mynd / Hallur Karlsson

„Ég myndi breyta stjórnkerfinu,“ segir Eyþór ákveðinn. „Það er orðið allt of stórt og það þarf að einfalda það þannig að það verði auðveldara að klára mál. Núna tekur stundum mörg ár að klára lítil skipulagsmál og það voru þrjú hundruð stýrihópar og nefndir að vinna að því og enginn vissi hvað hinar nefndirnar voru að gera þannig að það var stofnuð önnur nefnd til að fara yfir þetta og sú nefnd komst að því að það væri best að skipa þrjár nefndir til að fara í saumana á þessu. Þetta er svipað og ef þú værir með tölvuna þína fyrir framan þig og lyklaborðið væri með tíu sinnum fleiri tökkum en það er, væri það betra eða verra? Það væri verra vegna þess að flækjustigið væri svo mikið, það er mun betra að hafa hlutina einfalda og kerfið á að klára mál en ekki flækja þau meira.“

Langar að einbeita sér að klassíkinni

Sérðu pólitíkina fyrir þér sem framtíðarstarfsvettvang og ef ekki hvað hefurðu hugsað þér að gera þegar þú hættir?

„Nei, ég fór í þetta til að ná árangri og þegar hann næst mun ég hætta,“ segir Eyþór. „Og það er ekki spurning hvað þá tæki við. Tónlistin er auðvitað alltaf með mér og ég sinni henni alveg þótt ég sé í pólitík,“ segir Eyþór. „Við félagarnir í Tappa tíkarrass ætlum til dæmis að taka upp nokkur lög núna í september og koma með eitthvað skemmtilegt á markaðinn fyrir jólin. Og ef ég hætti í pólitíkinni myndi ég einbeita mér meira að klassískri tónlist. Ég byrjaði þar, var ekki bara sellóleikari heldur samdi fyrir Sinfóníuna og gerði tónlist við leikrit og kvikmyndir. Ég var aldrei alveg búinn að klára þann pakka og ef ég hefði nægan tíma myndi ég vilja semja meira fyrir klassísk hljóðfæri. En það verður að bíða á meðan ég einbeiti mér að því að ná árangri í pólitíkinni.“

Myndir / Hallur Karlsson
Myndataka/ Hákon Davíð Björnsson og Hallur Karlsson
Klipping / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -