Mánudagur 25. nóvember, 2024
-7.2 C
Reykjavik

Auður lærði að elska sjálfa sig: „Ég hafði ekkert sjálfstraust og það stoppaði mig í ýmsu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fann oft fyrir félagskvíða á grunnskólaárunum. Ég þorði bara engu. Ég þorði lítið að kynnast krökkunum og útilokaði mig mjög mikið. Ég hafði ekkert sjálfstraust og það stoppaði mig í ýmsu. Ég reyndi að fara í íþróttir en gafst alltaf upp í staðinn fyrir að halda áfram. Ef eitthvað var erfitt þá gafst ég bara upp. Ég var mikið ein á þessum tíma en það styrkti mig samt sem manneskju og ég lærði mikið á sjálfa mig,“ segir Auður Kristín Gunnarsdóttir, kennaranemi og myndlistarmaður.“

Árin liðu. Hún ákvað eftir grunnskólanám að hefja nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og ákvað að fara á myndlistarbraut af því að nokkrar vinkonur hennar gerðu það. Hún segir að hún hafi ekkert verið sérstaklega góð í að teikna og mála þegar hún hóf þar nám en reyndin var önnur eftir námið.

„Það var ekki fyrr en ég FB sem ég byrjaði að kynnast fólki.“

Hún fann þó áfram fyrir kvíða varðandi fleira en að kynnast fólki.

„Ég held ég hafi verið kvíðin yfir því að mistakast; að fá ekki bestu einkunn eða falla. Ég hafði enga trú á sjálfri mér ef ég segi eins og er. Ég horfði á aðra í kringum mig og var allaf að meta mig við aðra. Ég hafði lítið sjalfstraust; ég var ekki með neitt sjálfstraust í grunnskóla og ekki mikið í FB.“

Hún útskrifaðist síðan af myndlistarbraut FB og segir að hún hafi þá ekki vitað hvort hún vildi gera eitthvað með gráðuna sína. Reynslu sína.

- Auglýsing -

„Ég vissi ekki hvaða atvinnumöguleika ég vildi sækjast eftir. Ég vann eftir útskrift í Góða hirðinum í tvö til þrjú ár og síðan fór ég að vinna sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla til að sjá hvort ég hefði áhuga á kennarastarfi og vann þar í tvö ár. Ég fann að mig langaði til að verða kennari hvort sem það yrði enskukennari eða myndlistarkennari og er nú í meistaranámi í grunnskólakennarafræðum með ensku sem kjörsvið.“

 

Auður Kristín Gunnarsdóttir

- Auglýsing -

 

Sjálfsvinna

Sjálfstraustið kom smátt og smátt á fullorðinsárunum og Auður Kristín vann sjálf í því að styrkja sig.

„Því eldri sem maður verður þeim mun meiri tíma hefur maður haft með sjálfum sér til þess að átta sig á því hvar styrkirnir eru og hvar veikleikarnir eru og læra á þá almennt. Ég held að með allt svona – kvíða og vanlíðan – þá þurfi maður mikið bara að kúpla sig út og smátt og smátt að byggja sig upp. Pabbi minn sagði oft þegar mér leið illa að það kæmi betri dagur eftir þennan dag og ég hef algjörlega þulið það í höfðinu mínu þegar mér líður illa. Ég veit að ef mér mistekst í dag þá kemur annar dagur á morgun. Hvort hann verður verri eða betri fer allt eftir mínu eigin hugarfari. Ég byrja alla daga á því að vera ákveðin í því að sá dagur verði góður dagur. Ég byrjaði á þessu þegar ég var um tvítugt og mér finnst það hafa góð áhrif hvað varðar jákvæðnina. Ég er jákvæð í eðli mínu og ég reyni mitt allra besta til að vera jákvæð jafnvel þótt maður fari í gegnum erfiðar stundir og jafnvel þótt það sé erfitt að viðhalda því að vera jákvæður allan tímann þá er ekkert sem stoppar mann nema maður sjálfur. Og í gegnum alla mína vanlíðan þá veit ég að ég hef stjórn á því hvernig ég muni haga mér og hvernir dagurinn muni verða. Ég mun aldrei geta stjórnað því hvernig aðrir muni koma fram og ég get aldrei stjórnað því hvernig öðrum finnst ég vera en ég get stjórnað því hvernig ég vil hafa aðstæður mínar og hvernig ég kem fram. Og oftast ef ekki alltaf þá skilar það sér í einhverju góðu. Maður verður að vera ákveðinn í því að skoða jákvæðu hlutina í staðinn fyrir þá neikvæðu. Ég gæti alltaf leitað mér hjálpar og mér finnst það vera ótrúlega flott ef fólk leitar sér hjálpar en ég hef alltaf haft áhyggjur af því að leita mér hjálpar og hef ekki þorað það. Ég lærði það af föður mínum að maður heldur bara áfram. Ég hefði ekki verið svona dugleg í að byggja mig upp ef það hefði ekki verið fyrir foreldra mína og systur og annað fólk í kringum mig eins og manninn minn en hann er alltaf að byggja mig upp og hrósa mér.“

 

Auður Kristín Gunnarsdóttir

 

Núvitund

Auður Kristín segir að það hafi ekki verið fyrr en hún byrjaði með manninum sínum sem hún byrjaði að læra að elska sjálfa sig.

„Ég hef alltaf fengið mikinn stuðning heima við; foreldrar mínir eru algerir meistarar í því að styðja okkur systurnar áfram. Fólkið í kringum mann og maður sjálfur skiptir miklu máli varðandi þetta – ef maður hefur gott bakland þá þarf maður eiginlega að gera þetta sjálfur og vera ákveðinn í að byggja sjálfan sig upp.

Ég mála, hlusta á hlaðvörp og tónlist og það sem mér finnst vera mikilvægt er að kúpla sig út úr því að vera að fylgjast með öllu og öllum í kringum sig og vera ekki alltaf í símanum og fylgjast með á samfélagsmiðlum sem ég er líka sek um. En strax og ég læt eitthvað í hlaðvarp eða hlusta á tónlist og kúpla mig út frá öllum hugsunum þá finnst mér ég ná einhverri hugarró. Það er líka hægt að fara í göngutúr án þess að taka símann með og bara njóta þess að vera til á þessari stundu.

Ég held að flestir eigi erfitt með hvað þeir eru uppteknir af því sem gerðist í fortíðinni eða hvað muni gerast í framtíðinni í staðinn fyrir að sitja og hugsa hvað er að gerast núna og hvernig þá langar til að líða núna. Vill mér líða vel eða ætla ég að festa mig á því sem einhver sagði um daginn eða hvað gerðist fyrir fimm eða 10 árum? Mun ég einhvern tímann geta keypt íbúð eða farið til útlanda? Við erum alltaf svo upptekin af því hvað muni gerast eða hvað hefur gerst en mér finnst vera mikilvægt að sitja bara og njóta þess hvernig augnablikið er núna. Það var ekki fyrr en ég eignaðist dóttur mína, sem er að verða tveggja ára, sem ég algerlega nýt hvers augnabliks í núinu. Ef það væri ekki fyrir hana þá væri ég örugglega ennþá að reyna að pæla í því hvað ég myndi gera næst. Ég reyni aldrei að horfa aftur á bak. Ég horfi bara fram á við. Núna er ég algerlega föst í deginum í dag. Í mínútunni í dag. Í sekúndunni í dag.“

 

Auður Kristín Gunnarsdóttir

 

Hugarró og hamingja

Auður Kristín segir að eftir útskrift frá FB hafi löngun til þess að mála sífellt minnkað með hverju ári.

„Mér finnst vera gaman að mála en ég var eiginlega búin að gleyma því hvað maður upplifir þægilega og rólega tilfinningu við það að mála. Það tekur allt stress og kvíða í burtu og maður er bara einn í sínum heimi.“

Þrátt fyrir þá góðu tilfinningu sem það að mála gefur henni þá voru málaratrönurnar svolítið vanræktar í nokkur ár. Það var svo ekki fyrr en vinkona Auðar Kristínar bað hana í sumar um að laga nokkurra ára gamalt málverk sem hún hafði gefið henni að eitthvað gerðist.

„Ég algerlega kolféll fyrir því að mála. Þessi mynd kveikti algerlega neistann í mér til að fara að mála aftur. Stundum þarf maður eitt svona tækifæri til að halda algerlega áfram. Þetta er ógeðslega gaman. Þetta er eitthvað sem ég vil gera þegar ég hef frítíma en þegar mig vantar afslöppun þá er þetta fullkomið. Ég mun pottþétt halda áfram að mála,“ segir listakonan og má geta þess að hægt er að skoða verkin hennar á bæði Facebook-síðunni Ausitaus og Instagram-síðunni ausitausiart.

Málverk af konum eru áberandi.

„Það er ekkert útpælt. Mér finnst samt vera ótrúlega fallegar línur í andlitinu á konum. Þær eru svo mjúkar. Það er eitthvað fallegt og rólegt við kvenmannsandlit. Hvort sem það eru konur eða karlar þá er það svo einkennilegt að maður getur lesið svo mikið úr andlitum fólks. Svo margar tilfinningar.“

Tilfinningar. Það að sitja við málaratrönurnar hefur áhif á tilfinningar Auðar Kristínar sem kallar sig listamannsnafninu Ausitaus þegar svo ber undir. Og hún málar aðallega fyrir sjálfa sig, enda líður henni vel við þá iðju.

„Ég held að megináherslan með þessum Facebook- og Instagram-síðum sé að deila því sem ég er að gera. Mér finnst vera gaman að mála og mér finnst vera gaman að sýna það sem ég hef gert. Ég held ég muni alltaf mála til að upplifa ákveðna hugarró og hvort fólk hafi áhuga á því eða ekki kemur í ljós; það eru allir velkomnir að skoða, kaupa eða bara fylgjast með. Það veitir mér líka hamingju að mála. Ég held ég muni örugglega mála bara fyrir gleðina og fyrir mig sjálfa. Þótt maður sé í lægð eða hvað sem það er, hvenær sem það er og hversu lengi sem það stendur yfir þá getur maður alltaf ef viljinn er fyrir hendi dregið sig aftur upp og það getur maður meðal annars gert með því að gera það sem veitir manni hamingju hvort sem það er að fara út og spila fótbolta, fara út í náttúrna eða mála. Það er enginn sem stoppar mann nema maður sjálfur.“

 

Auður Kristín Gunnarsdóttir

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -