Kviðdómur í máli Robert Durst var látinn horfa á brot úr HBO heimildarþáttunum The Jinx: The Life and Deaths of Robert Durst í réttarsal í gær. Þættirnir fjalla um auðkýfinginn Durst sem er sakaður um að hafa orðið vinkonu sinni, Susan Berman, að bana árið 2000.
Durst er sagður hafa myrt Berman vegna þess að hún var talin hafa búið yfir upplýsingum um hvarf fyrrverandi eiginkonu Durst, Kathleen McCormack Durst. Kathleen McCormack Durst hvarf árið 1982, níu árum eftir að þau Robert Durst giftu sig. Saksóknarar segja Durst hafa myrt Berman til að koma í veg fyrir að hún myndi bera vitni í mannshvarfsmálinu.
Durst, sem er 76 ára, var fyrst ákærður árið 2000 fyrir morðið á Berman en var sýknaður árið 2003. En þættirnir The Jinx, sem komu út árið 2015, hafa varpað nýju ljósi á málið.
Þættirnir vöktu mikla athygli þegar þeir komu út og þá sérstaklega eitt atriði þáttanna, það er atriðið sem kviðdómurinn var látinn horfa á í réttarsal í gær. Í umræddu atriði má heyra Durst tala við sjálfann sig við gerð þáttanna þegar hann gerði sér ekki grein fyrir að hann var enn þá með hljóðnema á sér eftir upptökur. Í samtalinu talar hann um að nú sé að komast upp um hann. „Hvað í andskotanum gerði ég? Drap þau öll, auðvitað,“ heyrist hann meðal annars segja á uptökunni.
Gæti tekið fimm mánuði að komast að niðurstöðu
Durst var handtekinn í mars 2015, degi áður en lokaþáttur The Jinx var sýndur, í New Orleans eftir að lögreglan í Los Angeles gaf út handtökuskipun á hendur honum.
Réttarhöld yfir Durst hófust í Los Angeles í gær og í frétt The Guardian kemur fram að búist er við að þau muni standa yfir í um fimm mánuði. Durst hefur haldið fram sakleysi sínu og