Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Meðvirkni og skömm

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í kjölfar uppljóstrunar Christine Blasey Ford um að Brett Kavanaugh hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi á unglingsárum hefur skapast heit umræða um ástæður þess að konur segja ekki frá þegar þær verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ford hefur verið hædd og smánuð fyrir að stíga ekki fram fyrr, meðal annars af valdamesta manni heims, Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem dró framburð hennar mjög í efa vegna þess hversu langt leið frá árásinni og til þess tíma að hún sagði frá henni. Þau viðbrögð eru á engan hátt undantekning. Mjög oft upplifa konur þessa vantrú og lítilsvirðingu þegar þær loks stíga fram og segja frá erfiðri reynslu sem átti sér stað fyrir löngu síðan.

Í Mannlífi í dag greina þrjár konur frá ástæðum þess að þær þögðu um kynferðislegt ofbeldi árum saman, jafnvel áratugum, og ástæður þeirra ber allar að sama brunni: þær skömmuðust sín fyrir að hafa orðið fyrir ofbeldinu, kenndu sjálfum sér um eða vildu ekki setja fjölskyldur sínar í erfiða stöðu þar sem sá sem ofbeldinu beitti var tengdur inn í fjölskylduna. Meðvirknin með ofbeldismanninum er líka gegnumgangandi. Einn viðmælandinn segist meira að segja hafa verið full efasemda um hvort rétt væri að fara í viðtal og segja frá reynslu sinni þrjátíu árum síðar þar sem það gæti komið ofbeldismanninum í erfiða stöðu.

Það er nefnilega ekkert einfalt að segja frá kynferðislegu ofbeldi, hvorki strax né löngu síðar, og þær konur sem það gera þurfa að brynja sig fyrir viðbrögðum þeirra sem draga frásagnir þeirra í efa, sérstaklega ef þær sögðu ekki frá strax, þetta geti nú varla hafa verið svo alvarlegt fyrst þær þögðu. En eins og fram kemur í viðtölunum við konurnar þrjár er einmitt ákveðið samhengi milli þess hversu alvarlegt ofbeldið er og þagnarinnar um það. Þögnin er þáttur í því að lifa ofbeldið af. Grafa það í undirmeðvitundina og láta eins og ekkert hafi gerst. Hrista þetta af sér og vera ekki með vesen.

Gegnumgangandi þráður í frásögnum kvennanna þriggja er skömmin. Þær skömmuðust sín fyrir að hafa ekki getað komið í veg fyrir ofbeldið, spurðu sjálfar sig hvort þær hefðu „boðið upp á þetta“ með framkomu sinni eða klæðnaði eða með því að hafa dirfst að vera undir áhrifum áfengis. Þau viðbrögð eru því miður nánast algild hjá konum sem beittar eru kynferðislegu ofbeldi, enda erum við allar aldar upp við eilífa drusluskömm og samfélagið tekur undantekningalítið afstöðu með ofbeldismanninum ef fórnarlambið hefur ekki haldið sig innan marka „kvenlegra dyggða“. Það er þessi skömm og meðvirknin með ofbeldismönnunum sem veldur þögninni í flestum tilfellum. Og þrátt fyrir alla umræðuna, druslugöngur og #metoo-umræðu gengur illa að vinna bug á henni. Þá innrætingu verður að uppræta. Munum að allir geta orðið fyrir kynferðisofbeldi og skömmin er aldrei fórnarlambsins. Látum aldrei telja okkur trú um annað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -