Undir lok 9. áratugarins fór tónlistarmaðurinn Megas í nokkur ferðalög til Tælands þar sem hann komst í kynni við kynlífstúrisma með ungum tælenskum drengjum. Einn þeirra fluttist síðan um hríð til Íslands með Megasi. Þetta varð honum að yrkisefni á þremur af hans þekktustu og mest seldu plötum, Loftmynd (1987), Höfuðlausnir (1988) og Bláir skuggar (1988).
Þessi verk og sérstaklega viðbrögðin við þeim, vekja upp margar spurningar, þar sem af íslenskum fjölmiðlum að dæma var líkt og truflandi hinsegin efnistök þessara verka hafi verið gagngert þögguð niður, á meðan Megas sjálfur hefur talað opinskátt um efnið í lögum og viðtölum.
Þorsteinn Vilhjálmsson kom fram í fyrirlestraröð Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi sem er haldin í samstarfi RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) nú á vormisseri 2022.
Fyrirlestur Þorsteins nefndist „Replasera kvenfólkið með litlum sætum strákum“: Megas, hinseginleiki og friðhelgi listamannsins“ og var hann á dagskrá á Jafnréttisdögum sem var haldinn þann 17. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.
Í fyrirlestrinum voru textar og tónlist Megasar orðræðugreind ekki aðeins á fyrrnefndum plötum heldur líka þögnin sem mætti þeim og ríkir um þær enn í dag. Þorsteinn leitað samanburðar í erlendri umræðu eftir #MeToo-byltinguna um þá friðhelgi sem listamenn njóta gagnvart opinberum siðferðislegum viðmiðum í kynferðismálum.
Þorsteinn valt upp hvað þögnin um verk Megasar hafi þýtt fyrir íslenska hinsegin sögu og sögu kynverundar hér á landi.
Fyrirlesturinn kafar ofan í sögu Megasar og afstöðuleysi fyrri tíma, en er jafnframt óþægileg áminning um siðferðilega ágalla í samfélaginu.
Hér er hægt að hlusta á fyrirlesturinn í heild sinni.
Þorsteinn er doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ. Doktorsverkefni hans er á sviði hinsegin sögu og fjallar um skilyrta innlimun samkynhneigðra fyrirmyndarborgara inn í íslensku þjóðina á árunum 1990–2010.
Þorsteinn starfaði áður sem sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna og hefur gefið út nokkurn fjölda greina á sviði sögu kynverundar.