Óttar Pálsson hæstaréttarlögmaður hefur verið borinn þeim sökum að hafa ráðist á Reyni Berg Þorvaldsson verslunarmann þann 5. október síðastliðinn í verslun þess síðarnefnda í miðborg Reykjavíkur. Lögregla mætti á staðinn og kannaði vettvang. Ekki fannst vopn á staðnum. Lögmaðurinn er sakaður um að hafa skaðað Reyni með barsmíðum og að hafa brákað rifbein í átökunum. Vitni eru að atvikinu, samkvæmt heimildum Mannlífs. Staðhæft er að verslunareigandinn hafi ekki beitt líkamlegu ofbeldi í vörn sinni. Ekki hefur fengist staðfest hvert var upphafið að átökunum. Mannlíf greindi fyrst frá málinu á föstudag. Í framhaldi þeirrar fréttar birti Morgunblaðið frétt um skilnað Óttars og eiginkonu hans. Áréttað skal að Mannlíf leggur ekki mat á það sem gerðist á vettvangi og veit ekki hverjar málsbætur Óttar lögmaður kann að hafa. Hann hefur ekki svarað ítrekuðum skilaboðum síðan á föstudaginn.
Fjölskylduharmleikur
Meint árás á rætur í heiftúðlegum átökum vegna náinnar vináttu Óttars og Áslaugar Björgvinsdóttur, eiginkonu Reynis Berg, sem leitt hefur af sér fjölskylduharmleik. Þau eru bæði í eigendahópi lögfræðistofunnar Logos. Óttar er fyrrverandi varaformaður Lögmannafélagsins og Áslaug er núverandi varaformaður. Árásarmálið er grafalvarlegt fyrir Óttar sem mun missa réttindi sín ef sannast að hann hafi staðið að meintri líkamsárás og valdið manninum meiriháttar skaða.
Eftir atvikið í versluninni við Hverfisgötu leitaði Reynir til bráðamóttöku þar sem meiðsli hans voru könnuð og skráð. Hann hafði í framhaldinu samband við lögreglu, samkvæmt heimildum Mannlífs, og óskaði eftir því að leggja fram formlega kæru á hendur Óttari. Honum var úthlutaður tími hjá lögreglunni nú í lok yfirstandandi mánaðar.
Heimildir Mannlífs herma að leitað hafi verið sátta um helgina í því skyni að fá fram þöggun í málinu. Þetta er ekki staðfest. Meint fórnarlamb í árásinni hefur ekki svarað spurningum Mannlífs þessa efnis fremur en Óttar. Þá hefur framkvæmdastjóri Logos ekki látið ná í sig. Það er á valdi lögreglu og saksóknara að fella málið niður eða halda því áfram, burtséð frá því hvort meint fórnarlamb hverfi frá kæru.