Meint fórnarlömb mistaka Dr. Skúla Tómasar Gunnlaugssonar eru nú orðin 14 talsins en þar af létust níu.
Vísir greindi frá því fyrir stundu að nú snúi rannsókn Lögreglunnar á Suðurnesjum á mistökum í starfi yfirlæknis við Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að andláti níu sjúklinga en ekki sex líkt og kom fram áður en Mannlíf fjallaði ítarlega um málið fyrir áramót. Andlát sjúklinga Dr. Skúla urðu á árunum 2018 til 2020 en mál fimm sjúklinga til viðbótar eru til rannsóknar en höfðu þeir verið settir á lífslokameðferð að ástæðulausu, áðu en þeir voru fluttir á hjúkrunarheimili og þannig meðferð hætt.
Sjá einnig: Lögreglan rannsakar sex andlát tengd Dr. Skúla – „Boltinn er núna hjá matsmönnunum“
Dr. Skúli óskaði eftir því að fá aðgang að öllum rannsóknargögnum málsins fyrir Landsrétti sem úrskurðaði nýlega að hann fengi aðgang að hluta þeirra gagna sem hann óskaði eftir.
Segir Lögreglan á Suðurnesjum að rannsókn á málum 8 sjúklinga af fjórtán séu á frumstigi en grunur leikur á að Dr. Skúli sé ábyrgur fyrir rangri greiningu og meðferð sömu sjúklinga. Hafi hann þar með gerst sekur um manndráp ásamt fleiri hegningar og sérrefsilagabrota.
Í nóvember síðastliðnum veitti Alma Möller landlæknir, Dr. Skúla áframhaldandi starfsleyfi á Landspítalanum þar sem hann hefur starfað undanfarið. Það gerði hún þrátt fyrir að hafa skrifað álit á málinu þar sem Dr. Skúli fær vægast sagt slæma útreið.
Sjá einnig: Álit landlæknis á máli Skúla læknis: „Ómeðhöndlaðar sýkingar kunni að hafa verið aðal dánarorsök“