Alls hafa komið upp þrjú mál um kynferðislega áreitni inn á borð Landhelgisgæslunnar undanfarin ár. Ef marka má svör gæslunnar eru hinir meintu brotamenn þrír talsins. Tekið var á tveimur þeirra fyrir nokkru og segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi að málin tvö hafi verið leyst með sátt.
Mannlíf opnaði síðan á frekari ásakanir um brot gegn konum um borð í skipum gæslunnar og í því nýjasta máli koma þrír skipherrar Landhelgisgæslunnar til greina. Ásgeir neitar að staðfesta brotamanninn til að beina ljósinu frá hinum skipherrunum tveimur, sem vegna þessa liggja áfram undir grun. Með því að neita að staðfesta nafn á meintum geranda, varpar Landhelgisgæslan sök á alla þrjá skipherra gæslunnar.
Blaðamaður Mannlífs sendi sundurliðaðar spurningar á Ásgeir upplýsingafulltrúa. Vörðuðu þær mál skipherra sem sendur var í leyfi í gær eftir að Mannlíf birti frétt sem tengdust einelti og kynferðislegri áreitni innan sjódeildar gæslunnar.
Sjá einnig: Segja konur áreittar og niðurlægðar á skipum Landhelgisgæslunnar