Niðurstaða úr könnun frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sýnir að einn af hverjum tíu nemendum í 8., 9., og 10. bekk segir að lesblinda hafi mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu sína í námi.
Alls tóku 10.895 nemendur á unglingastigi þátt í könnuninni en spurningarnar voru um líðan og nám auk annarra atriða. Fréttablaðið fjallaði um málið í morgun.
Sýnir niðurstaðan að lestrarörðuleikar ungmennanna valdi lágu sjálsmati og dragi úr sjálfsöryggi. Þá leiðir líðanin til kvíða sem eykur hættu á hegðun sem talin er óæskileg.
Um eitt prósent eða 141 ungmenna sögðust skilgreina kyn sitt á annan hátt en strák eða stelpu en kynsegin nemendur og stelpur voru líklegri til að glíma við kvíða.
Þórhildur Halldórsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík sagði í viðtali við Fréttablaðið að niðurstöður úr rannsókninni væru þekktar erlendis. Þórhildur er sérhæfð í kvíða barna og unglinga en sagði hún ekki ólíklegt að margir samverkandi þættir væru að valda kvíða hjá kynsegn börnum. Taldi hún erfitt að segja til um orsakasamhengið en eitt af því væri til dæmis að vera jaðarsettur hópur.