Átt þú gjafabréf? Inneignarnótu? Ekki draga það að leysa góssið út!
Samkvæmt upplýsingum á island.is er gildistími gjafabréfs og inneignarnótu allt að fjögur ár – nema um annað sé samið. Fyrirtækjum er heimilt að stytta gildistíma inneignarnótu í allt að eitt ár, það þarf þó að taka fram á inneignarnótunni sem og á nótunni sjálfri. Komi til eigendaskipta á fyrirtækinu ber nýjum eigendum að taka við gjafabréfum og inneignarnótum, sé skipt um kennitölu er ekki hægt að gera kröfu.
Verði fyrirtækið gjaldþrota á gildistímabilinu er hægt að gera kröfu í þrotabúið en sú krafa er sjaldnast mikils virði.
Verslanir endurgreiða sjaldnast
Það sætir ákveðinni furðu að í lögum um neytendakaup er ekki að finna ákvæði um skilarétt á ógallaðri vöru. Þær reglur sem hér er talað um eru einungis verklagsreglur sem viðskiptaráðuneytið gaf út árið 2000 og eru því aðeins leiðbeinandi. Hins vegar virðast flestar verslanir fylgja þeim að eigin frumkvæði til að veita góða þjónustu. Það er því mikilvægt fyrir neytendur að vera á tánum í þessum efnum sem öðrum.
Í verklagsreglum er litið svo á að kaup séu bindandi samningur milli seljanda og kaupanda. Því endurgreiða verslanir sjaldnast en sumar verslanir ganga lengra en verklagsreglurnar gera ráð fyrir og endurgreiða vörur í stað þess að gefa inneignarnótur, eða veita lengri skilafrest.
Önnur lögmál gilda á netinu
Hins vegar gilda aðrar reglur um verslun á netinu. Við húsgöngu- og fjarsölu á Íslandi hefur neytandi 14 daga frá kaupum til að hætta við kaupin án skýringa og fá vöruna endurgreidda.
Kaupi neytandi vöru af seljanda í landi innan Evrópu í gegnum Netið, hefur hann ávallt rétt á að falla frá kaupunum innan 7 virkra daga frá því að hann fær vöruna afhenta og í sumum löndum er fresturinn lengri.
Ef neytandi hættir við kaupin er seljanda skylt að endurgreiða honum. Endurgreiðsla skal fara fram eins fljótt og kostur er og ekki síðar en eftir 30 daga.
Gjaldþrot í kortunum, nú er lag
Það er sama frá hvaða sjónarhorni skilaréttur er skoðaður það er ekki vit í öðru en að nýta sér gjafabréf og inneignarnótu sem allra fyrst frá útgáfudegi. Neytendavakt man.is hvetur fólk að skoða vel hvort gjafabréfið frá síðustu jólum sé nokkuð að daga uppi í draslkúffunni. Kannski sérstaklega í ljósi þess að hætt er við að gjaldþrot muni aukast á næstu mánuðum og má því með sanni segja að nú sé lag.
Nokkur góð ráð:
- Geymdu gjafabréf og inneignarnótur alltaf á sama stað.
- Blekið í sumum prenturum verslana á það til að eyðast á stuttum tíma og því sérstaklega óheppilegt að bíða með slíkar nótur.
- Áður en þú verslar, sérstaklega ef það er dýrt, kynntu þér vel hvernig verklagsreglur verslunarinnar eru um skilarétt.