Menningarnótt verður með breyttu sniði í ár vegna COVID-19 kórónuveirunnar og í stað eins dags verður hátíðinni dreift yfir tíu daga frá 13. – 23. ágúst. Er þetta til þess að stefna ekki of miklum mannfjölda saman í samræmi við tilmæli almannavarna vegna COVID-19 eins og fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
Borgarbúar geta því notið hátíðarinnar dag eftir dag, nótt eftir nótt.
Reykjavíkurborg auglýstir eftir frumlegum hugmyndum til að fylla inn í nýstárlegt viðburðalandslag Menningarnætur 2020. Veittir verða styrkir á bilinu 100.000-500.000 krónur. Listafólk, íbúar, rekstraraðilar, félagasamtök og allir áhugasamir geta sótt um styrki. Allt er þetta gert til að lífga upp á miðborgina í nafni menningarnætur, þessari þátttökuhátíð sem borgarbúar skapa og upplifa saman.
Hægt er að sækja um í Menningarnæturpottinn til 3. júlí.
Menningarnæturpotturinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Landsbankans sem verið hefur máttarstólpi hátíðarinnar frá upphafi.
Í ár verður tækifæri til að gleðjast saman, nótt eftir nótt því borgin mun lifna við í samvinnu við listafólk og hönnuði, plötusnúða og tónlistarfólk, leikhúsfólk og sirkuslistamenn og rithöfunda svo ekki sé minnst á gesti og gangandi.